Fjölskylda Bjarna Benediktssonar á Húsavík. Í efstu röð Gunnar, Stefán, Ragnheiður og Ásgeir. Í neðri röð Ásta, Þórdís með Hansínu Margréti, Þórdís yngri stendur fyrir framan, en síðan koma Regína Magdalena, Kristín, Bryndís, Vernharður og Bjarni sem heldu
Fjölskylda Bjarna Benediktssonar á Húsavík. Í efstu röð Gunnar, Stefán, Ragnheiður og Ásgeir. Í neðri röð Ásta, Þórdís með Hansínu Margréti, Þórdís yngri stendur fyrir framan, en síðan koma Regína Magdalena, Kristín, Bryndís, Vernharður og Bjarni sem heldu
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Alþingishátíðinni 1930 heiðraði erlendur tónlistarmaður Íslendinga með tónverkinu Lofsöngur til íslenskrar tungu. Pétur Pétursson segir hér deili á Max Raebel, tónskáldinu sem nú er flestum gleymdur þótt verkið heyrist enn í útvarpi.

LEYFIST gömlum manni, sem hvorki mælir fyrir munn "Skítamórals", Botnleðju", né annarra dekurbarna lista- og menningarhátíða, að vekja athygli á erlendum tónlistarmanni, sem heiðraði Íslendinga á Alþingishátíðinni 1930 með tónverki, sem flutt var á hljómleikum í Gamla bíói undir stjórn dr. Franz Mixa. Hljómsveit Reykjavíkur lék "Lofsöng til íslenskrar tungu", tónsmíð eftir Max Raebel á grammafónplötu hjá Columbia. Ríkisútvarpið hefir á hátíðlegum stundum flutt tónverkið án þess að láta höfundarins að nokkru getið. Nú nýlega var endurfluttur 10 ára þáttur og heyrðist verkið þá hljóma. Ég hringdi á tónlistardeild og spurðist fyrir um tónskáldið. Þar var engan ullarlagð að fá fremur en í geitarhúsi.

Þjóðskjalasafnið hefir gefið út snotra og handhæga bók, sem geymir vitneskju um bréfaskriftir einstaklinga og skrár um ýmiskonar gögn félaga og stofnana. Þar er m.a. að finna nafn Max Raebels, en hann skrifaði vini sínum, Stefáni Guðjohnsen á Húsavík, bréf og tilkynnti um komu sína til Íslands 1930. Jón Torfason, skjalavörður og fræðimaður, ljósritaði bréf Raebels, sem var greinargott og veitti gagnlegar upplýsingar. Þá var næsta spor að spyrja Aðalstein Guðjohnsen fyrrum rafmagnsstjóra hvort hann vissi einhver deili á tónskáldinu, sem var góðvinur afa hans.

Aðalsteinn brá við skjótt og hafði samband við ungan frænda sinn Gunnar Bollason. Kom hann færandi hendi með málverk það, sem Max Raebel sendi Stefáni að gjöf og frá var sagt í bréfinu. Var síðan haldið á fund Magnúsar Finnssonar ritstjórnarfulltrúa Morgunblaðsins, en hann kvaddi þegar til verka litgreiningarmenn, sem fóru mjúkum höndum um vinargjöf Raebels og norðurljósadýrð, sem ljómaði á Húsavíkurhimni.

Þegar hér var komið sögu voru ýmsar staðreyndir ljósar, eitthvað vantaði til þess að tengja tónskáldið traustari böndum við íslenskt þjóðlíf. Mér varð hugsað til gamals heimsborgara, sem ann haustlitum Húsavíkur, "hrungjörnu laufi í haustskógi", Laxá og Mývatnsöræfum. Hver annar en Vernharður Bjarnason getur leyst úr vanda mínum og slegið töfrasprota lifandi frásagnar á ferðalang úr fjarlægu landi, sem unni Íslandi og lofaði land og þjóð í hljómkviðu sinni, söngvum og málverkum?

Vernharður er einstakur sögu- og sagnamaður. Hann minnir á annálaritara fyrri alda. Lætur sér ekki nægja að segja frá einstökum atvikum. Hann tengir atburði og ferðalög atvinnuvegum og samgöngum. Gestir sem koma til landsins eru áður en þeir vita orðnir hlekkir í samgöngumálum og afurðasölu. "Strandferðabáturinn athugar sinn gáng í blíðu og stríðu," segir í einni frægustu sögu Halldórs Laxness. Þannig eru frásagnir Vernharðs. Hann hefir lofað því að leyfa að ljósmyndari Morgunblaðsins taki mynd af honum við spilaborð Bjarna riddara Sivertsens, sem er forfaðir hans. Matthías Mathiesen mun eiga svipaðan grip úr búi Bjarna riddara. Þeir frændur ættu báðir að brosa framan í ljósmyndarann og sýna skrautmuni Bjarna riddara.

---

Vernharður var hress að vanda er ég bað hann rifja upp minningar frá unglingsárum heima á Húsavík, í rausnargarði foreldra.

"Sumarið 1928 var ég búðarmaður, drengur, í verslun föður míns á Húsavík, Bjarna Benediktssonar, ásamt systur minni, Ragnheiði Bjarnadóttur. Þá um haustið man ég vel eftir litlum, snaggaralegum manni, hann var mjög lágur, blíðlyndur og hét Max Raebel. Hann kom af öræfum, Mývatnssveit og ofan, hafði farið um sveitir og var mjög hrifinn. Hann ætlaði að taka "Novu", skip Bergenska félagsins sem sigldi vanalega haustrútu frá þessum helstu höfnum, sem voru Ísafjörður, Húsavík, Siglufjörður og Akureyri, Seyðisfjörður og Austfirðir og fór þessa síðustu ferð ævinlega til Hamborgar með afurðir sem kaupmenn og kaupfélögin þurftu að senda til Hamborgar. Og það var lýsi og sundmagar, sem Þjóðverjinn kallaði "klarskinn". Þessar vörur fylltu skipið á haustin og svo eitthvað af kjöti sem var að fara til Noregs, Noregskjöti. "Nova" fór þessa daga seint í október vanalega síðustu ferðina.

Þessi góðhjartaði maður, sem var svo hrifinn af Íslandi, hafði farið um öræfin, var eina tíu, tólf daga á Húsavík. Hann var daglegur gestur á heimili mínu og Stefáns Guðjohnsens sem átti heima í næsta húsi. Guðjohnsens-fjölskyldan, eins og allt það fólk, var mikið músikölsk og var hann oft að "músísera", sem kallað var, hjá Stefáni Guðjohnsen. Einar Guðjohnsen elsti sonur hans var mikill músikant þó hann ekki legði sig nú eftir að spila nógu mikið því hann spilaði ljómandi fallega. Hann spilaði á píanó en því miður þá stundaði hann ekki píanókennslu því hann var vinnusamur og þá var það siður að taka verkefni skrifstofunnar heim á kvöldin, nótuskriftir og eitthvað slíkt, og var hann oft við það í staðinn fyrir að nota tímann að spila.

Ég man eftir að ég kom strákur í Guðjohnsens-hús þessi kvöld með Max Raebel því að það var alveg ljómandi gaman að hlusta á þá "músísera", Einar Guðjohnsen og Max Raebel. Hann kom daglega til föður míns, ég man nú ekki hvort hann gisti hjá föður mínum eða Guðjohnsen, en eitt var víst að ég man eftir að hann fór, af því að þetta var það löng bið tíu, tólf dagar. Faðir minn átti góða reiðhesta, Jarp og Frosta, og hann sendi mann með Max Raebel. Ég held nú að Gunnar bróðir minn hafi verið einhver leiðsögumaður og þeir riðu upp í Laxárdal niður með Laxá og þótti Max Raebel það fögur sjón í haustlitunum að fara niður frá Laxá.

Max Raebel talaði náttúrlega þýsku en hann talaði norsku og hefur líklega byrjað ferðalög sín í Skandinavíu, í Noregi, en eitt var það að hann var farinn að tala ágætis íslensku. Hann hafði gist hjá mörgum bændum og þeim fannst þetta góður gestur. Hann var mikill Íslandsvinur og hann var farinn að læra íslensku og man ég eftir því að ég var að ganga með honum um kvöld, þetta var ákaflegae fallegt haustkvöld og haustkvöldin eru fögur á Íslandi, ekki hvað síst á Húsavík. Og ég fór stundum með honum í gönguferðir, þessum manni, og hafði gaman af að geta talað við hann og man ég eftir að hann talaði bara íslensku nokkuð vel en greip stundum til norsku. Hann fór með "Novu". Ég man eftir að ég fylgdi honum með dót hans, hann var með nokkra bakpoka. Síðan var hann með einhverslags flatan pakka sem voru teikningar, málverk, því hann var málari eins og músíkant og hafði tekið mikið af teikningum víðast hvar á landinu af fjöllum og öðru sem hann ætlaði að fara með heim til Þýskalands. Ég fylgdi honum um borð í "Novu", faðir minn bað mig að aðstoða hann með dót sitt og ég man eftir því að þegar við komum um borð í "Novu" þá tók Odd Jur skipstjóri mjög vel á móti honum, þekkti hann. Hann hafði ferðast með honum áður til Íslands og frá og hann tók vel á móti honum eins og miklum vini þegar hann kom um borð." Þannig sagði Vernharður frá.

Efni bréfsins, sem geymt er á Þjóðskjalasafni er svolátandi:

Eisenach 5.6. 30.

Kæri herra Guðjohnsen.

Ég leyfi mér að flytja yður beztu þakkir fyrir frímerkin ásamt bréfi yðar. Nú ætla ég að halda áfram á norsku annars tekur það of langan tíma að skrifa á íslensku. Það var sannkölluð (veisla) hátíð að fá frímerkin, en nú veit ég ekki hvað ég kann að skulda. Viljið þér vera svo vænn að greina mér frá útgjöldum yðar. En ef svo kynni að vera að þetta væri gjöf til mín þá ætla ég að bregðast við með öðrum hætti. Yður er ekki kunnugt um að ég er sá eini í hópi málara, sem mála "Norðurljósin" og held sýningu um þessar mundir, sýni nokkrar norðurljósamyndir, pastelmyndir, í Leipzig, Kleis Kunsthandel, Háskólagötu. M.a. hefi ég teiknað Húsavík með norðurljósum, og þá mynd vil ég gjarnan gefa yður. Nú veit ég ekki með vissu hvort ég kem til Íslands í júní, þar sem ég hefi ekki fengið staðfest hvort ég geti fengið Gamla Bíó í Reykjavík til afnota til hljómleikahalds 28. júní, en ég ætla að síma þangað í dag og frétta um það. Fái ég húsnæðið þá kem ég vissulega. Ég fer þá með "Lyru" 19/6 frá Bergen. Ég hefi raunar teiknað fleiri íslenskar landslagsmyndir með norðurljósum: Goðafoss, Gullfoss, Krafla, ;Grýla og Seyðisfjörð, þannig að ég auglýsi Ísland með áhrifamiklum hætti. Hljómsveitarverk mitt "Islandia" hefi ég tileinkað Háskólanum í Greifswald, sem hefir unnið til þess, vegna starfa að íslenskum vísindum og ég verð að vona að ég fái tækifæri til þess að spila fyrir yður. Titilblaðið er skráð fornum norrænum rúnum samkvæmt Eddurithætti.

Svo þér sjáið að ég les einnig gamlar rúnir. Ég hefi líka lesið það sem á frímerkjunum stendur skráð rúnaletri. Á einu stendur "Þingreið", á öðru: "Með lögum skal land byggja" og "Lögsögumaður á Alþingi".

Ef ég kem til Íslands (mig skortir enn peninga) þá tek ég með mér norðurljósamyndina - að öðrum kosti sendi ég myndina til Húsavíkur. Ég ætla mér að dveljast nokkra daga á Íslandi, einnig að dveljast í Færeyjum 9 daga og fara svo til kirkjuvígslu í Þrándheimi í Dómkirkjuna 29.7. en þar á að leika eitt af tónverkum mínum. Ég vona að allt fari vel og sendi ykkur kveðjur.

"Virðingarfyllst"

vinur yðar

Max Raebel.

E.s. rétt í þessu kom skeyti frá Reykjavík þar sem mér var tjáð að ég gæti fengið Gamla Bíó 28.6. og nú ætla ég að fara til Íslands 13.6. héðan og koma til Reykjavíkur 24.6. Norðurljósamyndina kem ég með með mér og þér heyrið frá mér um leið og ég kem til Íslands. Tónverk mitt "Islandia" var flutt 2. júní. Það var 40 manna hljómsveit sem lék í útvarpið í Leipzig. Ég vonast til þess að geta ferðast til Húsavíkur. Það er undir ræðismanninum í Reykjavík komið.

Kannske komið þér sjálfur á hátíðina - þá gætum við hist þar.

Morgunblaðið birti þessa frétt 29. júní 1930:

Þýska tónskáldið Max Raebel hefir gefið Alþingi í tilefni af alþingishátíðinni vatnslitamynd af Almannagjá. Ennfremur hefur hann gefið Landsbókasafni Íslands eitt eintak af lagi sínu "Islandia". Raebel hefir raddsett nokkur íslensk þjóðlög fyrir hljómsveit. Lög þessi ætlar hann að leika í radio í Bergen 22. júlí nk., ennfremur lag sitt "Islandia". Fer hann hjeðan til Þýskalands 3. júlí og ætlar að halda þar nokkra fyrirlestra um Alþingishátíðina, en fer síðan til Bergen. Hingað kemur hann aftur að ári.

Sigfús Einarsson tónskáld sagði frá tónverki Max Raebels í Morgunblaðinu 7. júlí 1930.

Hljómsveit Reykjavíkur ljek í Gamla Bíó 30. f.m. með hjálp aðfenginna tónlistamanna úr hátíðar-hljómsveitinni. Voru verkefnin eftir Schubert (Symfonía í H-moll og Rosamunde-forleikurinn) og tónsmíð eftir Max Raebel (Lofsöngur íslenskrar tungu). Var konsert þessi hinn prýðilegasti og sýndi berlega, að undanfarið starf stjórnanda sveitarinnar, dr. Fr. Mixa, hefir borið góðan árangur, enda hlaut hann verðskuldaða viðurkenningu áheyrenda og hljómsveitarmanna, en þeir voru 43 í þetta skifti og þar á meðal garpar miklir. Stórfeldum breytingum og vexti mundi tónlistarlíf vort taka, ef slíkur flokkur starfaði hjer til langframa.

Í ársfjórðungsriti, sem Háskólinn í Greifswald gaf út, er greint frá ýmsu varðandi feril Max Raebels. Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur sýndi mér þá vinsemd að færa mér ljósrit af ýmsu er varðar Raebel. Í fyrrgreindu riti er sagt frá ýmsum samkomum er tengjast Íslandi með einum eða öðrum hætti. Sagt er frá flutningi tónverka "þýsk-norska" tónskáldsins Max Raebel, gefið í skyn að verk hans beri svipmót af tónlist Griegs og farið orðum um ættartengsl þeirra. Síðan er vikið að tónverki Jóns Leifs, sem flutt er á samkomu Norrænu stofnunarinnar við háskólann í Greifswald 8. nóvember 1930 til þess að minnast þúsund ára Íslandshátíðar (Alþingis). Sagt er að lok hátíðarinnar og hámark hafi verið flutningur Hátíðarkantötu fyrir kór, einsöng og hljómsveit. Tónlistargagnrýnandinn dr. Ernst Krienitz ritar um snild Jóns Leifs.

Max Raebel fékk Bókaverðlaun Sigfúsar Eymundssonar til þess að gefa út Íslensk þjóðlög op. 44 fyrir píanó. Tónverkið tileinkaði hann "Hans konunglegu hátign, hertoganum Carl Eduard von Sachsen-Coburg-Gotha". Lögin eru: Fram á regin fjallaslóð, Ég þekki Grýlu, Ríður fríður riddarinn og Nú er vetur úr bæ.

---

Skrifstofa Alþingis hafði takmarkaðar upplýsingar um Max Raebel og gjafir hans. Forsetar þingsins 1929 kváðust ekki geta þegið boð tónskáldsins um hljómkviðuna. Íslensk tónverk yrðu á dagskrá.

Hvar málverk það sem Max Raebel gaf Alþingi er niðurkomið ættu listfræðingar að geta sagt til um.

Höfundur er þulur.

Höf.: Pétur Pétursson