Uppstilling á borði, 2000, 85x95 sm.
Uppstilling á borði, 2000, 85x95 sm.
Opið alla daga frá 12-18. Lokað þriðjudaga. Til 20. mars. Aðgangur 300 krónur í allt húsið.

ÞAÐ er mikill hraði og vinnugleði í málaranum Pétri Gauti, og skýtur þó skökku við að viðfangsefni hans er það sem menn nefna kyrralíf eða uppstillingar, en í þessu tilviki væri kannski réttara að nota nafnið samstillingar eða sam stillingar. Einfaldlega vegna þess að gerandinn stillir í þessu tilviki saman hlutum á grunnflöt, sífellt sömu hlutunum í ýmsum tilbrigðum, en stílfærir í mun ríkari mæli en gerist í hefðbundnum kyrralífsmyndum. Sömu formunum bregður stöðugt fyrir svo skoðandinn er að lokum farinn að fá það á tilfinninguna að listamaðurinn kunni þetta utanað, þurfi síður að styðjast við hlutgert myndefni né yfirhöfuð hafa neitt fyrir framan sig annað en málaratrönurnar og léreftið. Myndefnið er þá öllu frekar huglægs eðlis en hlutvakið, og einhvern veginn lítur svo út sem sem sú uppvakta nánd og víxlverkun sem hlutir geta almennt haft á gerendurna sé minna til staðar en sértæk ímynduð og skálduð form.

Þetta er nú einungis útlistun á þeim áhrifum sem skrifari varð fyrir við skoðun sýningarinnar, en hefur minna með gæðamat að gera og satt að segja er þetta sterkasta framlag Péturs til þessa, í öllu falli af þeim sem hafa borið fyrir mín augu. Kom strax fram í myndinni í stigaganginum, Uppstilling í tunglskini (2), sem er einungis í svart-hvítu og er í senn einföld og sterk, formin afar vel staðsett á grunnflötinn. Hef ekki í annan tíma séð jafn einföld og sterk verk frá hendi listamannsins sem áðurnefnt og nokkur fleiri, nefni hér helst; Ávextir (10), sem er afar litræn og efniskennd, Uppstilling á gulum dúk (17), sem er líkast til átakamesta verkið á sýningunni, Eldhúsuppstilling (28), sem er í senn litræn efniskennd og vel máluð. En það voru þó tvær litlar myndir í kaffistofunni er tóku hug minn allan; Uppstilling á köflóttum dúk (39) og "Natura Morta" (47). Í öllum þessum myndum finnst mér að fram komi bestu eiginleikar Péturs sem málara, og hann gengur þar hreinna til verka, af meiri ró og einlægni en í flestum öðrum myndum á sýningunni, jafnvel svo að stundum getur hugurinn eitt augnablik hvarflað til meistara Chardins. En því er ekki að neita að taumlaus málaragleðin virðist oftar en ekki vera ráðandi aflið í vinnuferlinu og að meira sé hugsað um að koma hlutunum frá sér en ganga hreint og markvisst til leiks, hafna öllum málamiðlunum. Þannig er auðséð að liturinn í sumum myndunum er vart þornaður og því síður fernisinn. Að auk er því ekki að neita, að oftar en eðlilegt má telja bregður fyrir ónákvæmum vinnubrögðum einhvers staðar í lit eða myndbyggingunni sem raskar annars vel upp byggðri heild, eins og eitthvert óþol sé á ferð. Hér er mikið málað blautt í blautt og er auðséð að Pétur ræður við tæknina er best lætur en víkur stundum einhvers staðar í ferlinu af leið.

Eitt er mjög áberandi á sýningunni og þá einkum í salnum uppi, sem er að áherslur lýsingarinnar magna stórlega upp stemmninguna í myndunum, jafnvel í þá veru að erfitt er að átta sig á hvað er mynd og hvað bein innsetning birtugjafans, þannig að maður er alls ekki viss hvernig þessar myndir taki sig út í náttúrubirtu - veltir því fram og aftur fyrir sér. En á heildina litið má listamaðurinn vel við una...

Bragi Ásgeirsson

Höf.: Bragi Ásgeirsson