William Orbit ásamt Madonnu.
William Orbit ásamt Madonnu.
Á ÞVÍ leikur ekki nokkur vafi að William Orbit er heitasti upptökustjórinn í tónlistarbransanum í dag.

Á ÞVÍ leikur ekki nokkur vafi að William Orbit er heitasti upptökustjórinn í tónlistarbransanum í dag.

Hann hefur stjórnað tökkunum á nokkrum af bestu og vinsælustu skífum liðinni ára, þar á meðal Blur-skífunni "13", síðustu Madonnu-skífu "Ray of Light" og hann er maðurinn á bak við hljóminn í topplagi breska vinsældarlistans "Pure Shores" með glæsipíunum í All Saints.

Nú hefur spurst út að ein heitasta rokksveitin í dag, Limp Bizkit, hafi beðið Orbit um að stjórna upptökum á næstu breiðskífu sinni eftir að hafa lent í útistöðum við stúdíógúrúinn Rick Rubin.

Orbit segist afar spenntur fyrir þessu mögulega samstarfi: "Ég er svona týpiskur Englendingur á meðan Fred Durst (forsprakki Limp Bizkit) er hávaðasamur Kani. Það væri því spennandi að sjá útkomuna af slíku samstarfi."

Af öðrum verkum Orbits má nefna að Madonna hefur ráðið hann til starfa við gerð næstu breiðskífu sinnar, sem ekki þarf að koma á óvart því vinna hans á "Ray of Lights" var aldeilis mögnuð og endurnýjaði hreinlega feril Madonnu sem listamanns. Því til viðbótar sendi Orbit sjálfur frá sér sólóskífu nýverið, "Pieces in a Modern Style", þar sem hann glímir við sígild meistaraverk og býr þeim nýjan og framandlegan búning.

Sannarlega önnum kafinn maður sem kemur færri verkum að en hann vildi og til marks um það verður hann trúlega að hafna beiðni Blur um samstarf á þeirra næsta verki.