MUNDU mig ég man þig - Ungt fólk í Reykjavík á 20. öld er sýning sem haldin er á vegum Borgarskjalasafns Reykjavíkur dagana 4. mars til 15. maí á 6. hæð Safnahúss Reykjavíkur að Tryggvagötu 15.

MUNDU mig ég man þig - Ungt fólk í Reykjavík á 20. öld er sýning sem haldin er á vegum Borgarskjalasafns Reykjavíkur dagana 4. mars til 15. maí á 6. hæð Safnahúss Reykjavíkur að Tryggvagötu 15. Sýningunni er ætlað að draga fram lifandi og skemmtilegar svipmyndir af lífi barna og unglinga á öld breytinga og framfara í Reykjavík.

Sýningunni er skipt upp eftir aldri barnanna og er fjallað um líf þeirra alveg frá því eftirlit hefst með barnshafandi konum og þar til ungmennin verða sjálfráða. Á henni eru jafnt notuð skjöl borgaryfirvalda og skjöl frá börnunum og unglingunum sjálfum. Til að vekja upp hughrif liðinna tíma eru einnig notaðar ljósmyndir, tónlist, kvikmyndir frá skólastarfi og munir af öðru tagi.

Skjöl stofnana veita ekki síður athyglisverða mynd af daglegu lífi barna og unglinga og þeirri starfsemi sem tengist þeim á hverjum tíma. Í bekkjarklöddum er til dæmis hægt að sjá hvernig ömmur okkar og afar mættu í skólann. Þar er einnig að finna athugasemdir um brot þeirra sem voru sendir til skólastjórans eða vísað úr kennslustund. Umfjöllun um lýsisgjafir, vítamíngjafir, skólatannlækningar og sólböð í skólum skipa jafnframt sinn sess, en rík áhersla var lögð á heilsufar og heilbrigði skólabarna. Vandi tengdur unglingadrykkju er tekinn til umfjöllunar og mikilvægi æskulýðsstarfs og fyrirbyggjandi aðgerða, svo sem félagsmiðstöðva og rekstur vinnuskóla fyrir unglinga.

Borgarskjalasafnið varðveitir einnig nokkuð af skjölum barna og unglinga. Þar á meðal eru minningarbækur, ástarbréf og önnur sendibréf, vinnubækur, stílabækur, ritgerðir um atvik í samtímanum og framtíðarsýn. Slík skjöl sýna á lifandi og skemmtilegan hátt hvernig daglegu lífi ungs fólks var háttað á árum áður.

Sýningartextar eru bæði á íslensku og ensku. Sýningin verður opnuð 4. mars 2000, kl. 14 og mun standa fram til 15. maí. Hún er opin alla daga kl. 13-17 og einnig á fimmtudögum til kl. 21.00. Aðgangur er ókeypis.