Skoda Fabia verður boðinn á góðu verði hjá Heklu að sögn Sverris Sigfússonar.
Skoda Fabia verður boðinn á góðu verði hjá Heklu að sögn Sverris Sigfússonar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FABIA frá Skoda, sem kynntur var í Frankfurt á liðnu hausti er væntanlegur til Íslands síðari hluta apríl. Sverrir Sigfússon, framkvæmdastjóri Heklu, segir að ætlunin sé að Felicia fjari smám saman út en Octavian verði áfram í boði hérlendis.

FABIA frá Skoda, sem kynntur var í Frankfurt á liðnu hausti er væntanlegur til Íslands síðari hluta apríl. Sverrir Sigfússon, framkvæmdastjóri Heklu, segir að ætlunin sé að Felicia fjari smám saman út en Octavian verði áfram í boði hérlendis.

"Við ætlum að taka Fabia með 1.400 rúmsentimetra og 68 hestafla vél og hann verður vel búinn," segir Sverrir og á þar meðal annars við fjóra líknarbelgi og læsivarða hemla. Teknar verða tvær útgáfur, Classic og Comfort og verða að auki rafmagn í rúðum og fjarstýrðar samlæsingar í dýrari útgáfunni. Sverrir segir að Fabia verði ódýrasti bíllinn hjá Heklu, líklega undir 1,1 milljón. Bíllinn kemur í fyrstunni með handskiptingu en sjálfskipting verður síðar í boði. Þá má nefna í leiðinni að sjálfskipting verður boðin í Octavia bílnum seint í næsta mánuði.

Sverrir segir reynslu Heklumanna af Skoda hafa verið góða. "Gæðaeftirlit verksmiðjanna er mjög öflugt og það marka ég meðal annars af því að bilanatíðni er lítil og kvillar fáir."

Zdenek Dvorak er svæðisstjóri Skoda í Evrópu og fellur Ísland undir verksvið hans. Hann segir að sala á Fabia hafi byrjað heima og í næstu löndum fyrir síðustu áramót og síðan hafi bílinn komið á markað í hverju Evrópulandinu á fætur öðru síðustu vikurnar. Í þessum mánuði og næsta verður tekið að selja hann á öllum Norðurlöndunum. "Fabia tekur ekki við af Felicia bílnum en við drögum smám saman úr framleiðslu á Felicia og hættum sölu um næstu áramót þar sem hann uppfyllir ekki lengur ströngustu mengunarkröfur í Vestur- Evrópu en framleiðslunni verður líklega haldið áfram ári lengur fyrir markaði í austurhlutanum," sagði Dvorak þegar rætt var við hann í hléi frá viðræðum um verðsamninga við Dani. En hvað getur hann sagt um næstu skref hjá Skoda?

"Við erum að undirbúa framleiðslu á stærri bíl og síðan atvinnubíl en þeir munu ekki líta dagsins ljós fyrr en árið 2002," segir hann og kveður Skoda nú vera seldan í svo til öllum heimshlutum. Ekki þó í Bandaríkjunum eða Kanada og segir hann ekki ráðgert að halda þangað. Hann segir heildarframleiðslu Skoda vera um 400 þúsund bíla á ári og að hún verði á næstu tveimur til þremur árum komin í um 500 þúsund bíla árlega. Framleiða á um 180 þúsund Octavia bíla í ár og kringum 200 þúsund næsta ár og þá er áætlað að framleiðsla á Fabia verði komin í um 250 þúsund bíla.

"Þegar Skoda og Volkswagen lögðu saman krafta sína var framleiðslan vel innan við 200 þúsund bílar á ári en nú stefnum við á 500 þúsund bíla ársframleiðslu," sagði Dvorak og var þotinn í næstu glímu við Danina.