Petronas tvíburaturnarnir eru hæsta bygging í heimi.
Petronas tvíburaturnarnir eru hæsta bygging í heimi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kuala Lumpur í Malasíu er skemmtileg borg þar sem ólíkum þjóðarbrotum ægir saman. Heimamenn segja að þar sé hægt að gera góð kaup í tölvum, farsímum og fleiru. Pétur Gunnarsson kannaði málið.

KUALA Lumpur er höfuðborg Malasíu og hefur verið í örum vexti undanfarna áratugi. Íbúarnir eru nú 1,3 milljónir, malajar, sem eru múhameðstrúar eru um helmingur, kínverjar meira en þriðjungur en tíundi hver íbúi er af indverskum uppruna. Alþjóðleg fyrirtæki og fjármálastofnanir reka í auknum mæli útibú í borginni, þar eru líflegir veitingastaðir og klúbbar og verslanamiðstöðvar. Ferðamönnum er t.d. sagt að það sé hægt að gera góð kaup í ferðatölvum og farsímum.

Helsta verslunarhverfið

Bukit Bintang heitir eitt helsta verslunarhverfi borgarinnar og þar eru stærstu verslunarmiðstöðvarnar. Þær heita t.d. Sunagei Wang Plaza, Bukit Bintang Plaza, Imbi Plaza, Lot 10, Starhill Plaza og Kuala Lumpur Plaza.

Í Sungei Wang Plaza og Imbi Plaza eru verslanirnar sem selja hugbúnað, tölvur, farsíma og vídeómyndavélar á hverju strái.

Í Imbi Plaza er glæný verslun með vörur frá Apple, þar sem iBook-fartölva var sögð á kostaboði, 6.800 ringit, eða 129.200 kr. Við samanburð kemur á óvart hvað verðmunurinn var lítill miðað við íslenskan markað þar sem iBook kostar 149.900 kr. samkvæmt upplýsingum frá Apple-búðinni.

Í Pineapple Computer Stores í Imbi Plaza vr til ný 333 MHr fartölva frá Sharp, Actius, sem kostaði 8.999 ringit eða um 171.000 kr. Hún er með 64 (192) MB innra minni, 12 skjá og 6,4 GB hörðum diski. Sharp Actius hefur ekki verið á markaði hér á landi, samkvæmt upplýsingum frá Bræðrunum Ormsson, íslensks umboðsaðila Sharp.

CMS Computer Shop í Sungei Wang Plaza selur Compaq Presario 1685 fartölvu með 400 MHz örgjörva, allt ða 64(160) MB innra minni og 4,8 GB hörðum diski á 6.588 ringit eða 125.172 krónur. Sú vél kostar 1999.900 krónur hjá Tæknivali. Nokkrar verslanir voru með nýjar fartölvur frá Acel, TravelMate 723TX með 400 MHz pentium II örgjörva, 64(256) MB minni og 10 GB diski á 9.988 ringit eða um 189.700 kr. Þessar tölvur eru sennilega ekki til hér á landi.

Sama á við um Nec Versa Note fartölvur með PII 400 örgjörva, 64 MB minni, 10GB diski á 9.499 ringit eða 180.400 kr.

Óteljandi farsímaverslanir

Farsímaverslanir í verslunarmiðstöðvum eru óteljandi. Algengustu tegundir sem ég sá kostuðu frá 200-500 ringit, 3.800-13.300 kr. Ég sá Nokia 9110 communicator auglýstan á strætisvögnum á 1.900 ringit, um 36.100. Hann kostar um 70.000 kr. hér. Nokia 7110 var á um 900 ringit í verslun á jarðhæð Imbi Plaza, 17.100 krónur, en ég hef séð hann á 39.900 kr. hér.

Íslenskum ferðalöngum fannst ekki álitlegt að gera mikil kaup í fatnaði í Kula Lumpur. Þar ræður miklu að stærðir sem Íslendingar þurfa helst eru í litlu úrvali þarna eystra.

Kínahverfið

Kínverski minnihlutinn í Malasíu er mjög áberandi í Kuala Lumpur og hlutfall Kínverja hærra meðal íbúa borgarinnar en víðast annars staðar í Malasíu. Í borginni er Kínahverfi, með hundruðum sölubúða, og bása sem selja ávexti, fatnað, "merkjavöru", sjóræningjaútgáfu af hugbúnaði á fáránlegu verði. Þekkt merki í fatnaði og hvers kyns vöru eru þarna boðin og augljóslega er um eftirlíkingar eða þýfi að ræða. Vörur "frá" Rolex, RayBan, Nike, Levi's Samsonite og Microsoft, kosta þarna brotabrot af því sem Íslendingar eiga að venjast. Þarna var t.d. Office-hugbúnaður boðinn til sölu á 90 ringit, 1.710 krónur, en þá átti eftir að prútta sem tilheyrir í öllum viðskiptum í Kínahverfinu. Ferðamönnum er ráðlagt að samþykkja ekki kaup fyrir meira en 50-55% af uppsettu verði, vilji þeir halda andlitinu. Þarna er líka mikið um kínverskt handverk, styttur, myndir, skartgripi, kryddjurtir og matvöru.

Indverska hverfið er við götuna Jalan Masjid India. Þar eru handverksmenn, prangarar og sölubúðir á hverju strái. Þar eru vörur úr látúni, silfri, gleri og skartgripir áberandi.

Hefðbundnar verslanavörur Malajanna, sem eru í meirihluta 22 milljóna íbúa Malasíu, eru efni og fatnaður úr batík sem er áberandi einkenni í menningu þjóðarinnar.

Batík

Batík-fatnaður er hefðbundinn sparifatnaður fólksins í landinu og malasískir "bissnesmenn", a.m.k. þeir sem eru af þjóð malaja, mæta í batíkskyrtum fremur en jakkafötum á fundi og í móttökur.

Landið er líka þekkt fyrir alls konar vörur úr pjátri; styttur, kaffistell, vasa og svo framvegis. Malasía er höfuðstaður pjáturframleiðslunnar í heiminum og heimaland þekktra fyrirtækja á því sviði eins og Royal Selangor og Tumasek. Þau fyrirtæki reka útibú í mörgum hótelum og verslunarmiðstöðvum. Það er líka til siðs í skoðanaferðum með ferðamenn að koma við í verksmiðjum þessara fyrirækja og reyna að selja varninginn þar. Kunnugir vara við þeim ferðum því verðið er sagt mun lægra í verslunum í borginni en í þessum túristagildrum sem settar eru upp í verksmiðjunum.

Mér fannst Kuala Lumpur skemmtileg og lifandi borg. Þar eru óteljandi veitingahús, mörg mjög góð, og klúbbar í sérstöku hverfi í miðborginni.

Eiffel-turn borgarinnar er turninn mikli, KL-tower, sem er 421 metri á hæð, þangað streyma túristar til að virða fyrir sér borgina en þar er hins vegar ekki góður veitingastaður. Turninn var lengi hæsta bygging í heimi en það á ekki við lengur. Í ágúst sl. var Petronas Twin Tower-byggingin formlega opnuð. Þarna eru m.a. höfuðstöðvar Petronas-olíufélagsins. Petronas Twin Tower eru tvö háhýsi, 452 metra há á 88 hæðum, tengd með byggingu sem er í 175 metra hæð. Petronas Twin Tower er nýtt tákn Kuala Lumpur-borgarinnar (nafnið þýðir forug ármót), sem hefur verið í stöðugum vexti síðan kínverskir tin-námumenn settust að við ármótin, sem hún dregur nafn sitt af, árið 1857.