"Mig langaði frá blautu barnsbeini að gera myndir og umgangast málverk. Blýanturinn var mitt uppáhald og mín ástríða - hann var fyrsta verkfærið, sem ég þekkti. Ég vissi, að með honum var hægt að gera myndir.

"Mig langaði frá blautu barnsbeini að gera myndir og umgangast málverk. Blýanturinn var mitt uppáhald og mín ástríða - hann var fyrsta verkfærið, sem ég þekkti. Ég vissi, að með honum var hægt að gera myndir. Svo lærði ég svolítið að teikna og komst í skóla. Þá hitti ég einu sinni einn af meisturunum, og hann var ósköp hlýr og spáði vel fyrir mér. Hann sagði við mig: "Hvað ætlar þú að mála?" "Verkafólk," sagði ég. Meistarinn þagði, svo sagði hann: "Já, það á líka sínar ánægjustundir."

Ég skildi ekki fullkomlega þessa athugasemd, en Gunnlaugur Scheving hélt áfram: "Þú veizt vel, að það eru svo margir listamenn, sem hafa gert myndir af verkafólki," sagði hann, "og menn mála það stundum gróft, dálítið brútalt. Þú hefur séð þessar myndir og kannast við þær. En er ekki gott að minnast þess, að verkafólkið, alþýðan, á einnig sínar góðu stundir þrátt fyrir stritið. Og það á líka sína drauma.

Svona töluðu meistararnir í den tid, þegar ég var um tvítugt. Þá hlustuðu byrjendur og viðvaningar á þá, sem eldri voru og yfirveguðu hvert orð, því maður vissi, að reynsla þeirra og þekking gat orðið ungu fólki að gagni."

Við vorum í vinnustofu Gunnlaugs Scehvings að heimili hans, Nesvegi 78, og virtum fyrir okkur hverja stórmyndina eftir aðra, mig minnir að þær hafi verið fjórar eða fimm, sem hann sýndi mér, tvær þeirra hafði ég ekki séð áður. Það var gaman að horfa á málverk með Gunnlaugi og hlusta á hann útskýra, hvað fyrir honum vakti, kynnast litum, fyrirmyndum - og kannski þjóðsögulegu ívafi, ótruflaður af listsögulegum orðaleppum.

Gunnlaugur sagði, að hann hefði verið beðinn um að gera fimm myndir í nýja Kennaraskólahúsið og hefði hann að mestu unnið að þeim síðan. Auk þess hefði hann málað nokkrar myndir aðrar, flestar smærri, en þó fékk ég að sjá stóra mynd, sem var ekki ætlað að hanga á veggjum þessa virðulega skólahúss. Gunnlaugur sagði mér, að hann hefði sótt nafnið á hana í þuluna góðu "Sæl, Máría, guðs móðir". Hvað sem allri myndbyggingu leið - og auðvitað var hún aðalatriðið - vakti ávallt fyrir honum "að segja sögu". Og hann fór ekki dult með það.

Fjórar kennaraskólamyndanna hafa daglega lífið að inntaki og uppistöðu, en sú fimmta, Jónsmessunæturdraumur huldukýrinnar, er ævintýramynd og á uppruna sinn einnig í gamalli þulu. Ég hafði orð á því, að mér þætti eitthvað himneskt við kúna, þar sem hún lætur sig dreyma um álfheima. Gunnlaugur sagði, að hann hefði strax farið að hugsa um þessi ævintýr, þegar hann var beðinn um að mála myndirnar í skólann. Honum datt jafnvel í hug að mála fyrst Jónsmessunæturdraum huldukýrinnar, en það varð þó úr, að hann lét hana bíða, þangað til hann hafði lokið við hinar. Áður en hann hófst handa orti hann þulu - "til að komast í snertingu við fólkið", eins og hann sagði, eða öllu heldur til að finna andblæinn af veröld og draumum alþýðunnar, manneskjunnar réttara sagt: "Þetta er ekki beinlínis minn heimur," sagði hann þegar við virtum myndina fyrir okkur. "Ja, ekki nema að því leyti, að ég er hluti af fólkinu," bætti hann við. "Ég hef aldrei komizt frá fólkinu, eða hvað ég á að segja: aldrei viljað losna úr tengslum við það. Allar þessar myndir sem ég hef málað af sjó og landi eru gerðar með það fyrir augum að kanna bakgrunninn fyrir aðrar myndir, sem ég hef málað síðar af fólkinu og umhverfi þess."

Gunnlaugur skýrði fyrir mér, hvað listmálari þyrfti að vita, ef hann ætlaði t.d. að mála mynd af sjó: hann verður að þekkja sjóinn og ljósið og veðrið. Það verður alltaf að vera ákveðið veður í myndum til að stemningin falli inn í umhverfi þeirra og sögu. "Mér mundi aldrei detta í hug að mála mynd af fólki við heyskap í rigningu eða þoku," sagði hann. "En slíkt veðurfar á vel við í sjávarmyndum. Dumbungur og þoka er veiðilegt veður."

M.