Formannafundur Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks hefur samþykkt tillögu um boðun verkfalls á landsbyggðinni frá og með 30. marz nk.

Formannafundur Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks hefur samþykkt tillögu um boðun verkfalls á landsbyggðinni frá og með 30. marz nk. Forsenda þess, að af verkfallinu verði er að það verði samþykkt í 39 aðildarfélögum þessara samtaka. Verkfallsboðunin nær hins vegar ekki til félagssvæðis Eflingar í Reykjavík, Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur.

Þessi verkfallsboðun vekur upp ýmsar spurningar. Er eitthvert tilefni til að boða verkfall nú? Hefur raunverulega reynt á það í samskiptum vinnuveitenda og viðkomandi verkalýðsfélaga, hvort samningar geti náðst? Telja forráðamenn Verkamannasambands Íslands og Landssambands iðnverkafólks, að það séu forsendur fyrir því að ná öðrum og betri kjarasamningum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum?

Það er ákaflega erfitt að átta sig á rökunum fyrir verkfallsboðuninni. Í landinu ríkir mikið góðæri. Fólk hefur það almennt gott, þótt afrakstri góðærisins sé vissulega misskipt. Sá mismunur verður hins vegar ekki jafnaður við það samningaborð, sem þarna er um að ræða. Eitt af því sem haft getur úrslitaáhrif í þeim efnum er að samkomulag takist um að þjóðin, eigandi auðlindarinnar í hafinu í kringum landið, fái sanngjarnar greiðslur fyrir rétt útgerðarinnar til að nýta auðlindina.

En einmitt vegna þess, að góðæri ríkir geta verkalýðsfélög og vinnuveitendur tekið sér rúman tíma til að ná samkomulagi.

Miðað við þær umræður, sem fram fara um ástand atvinnumála á landsbyggðinni er ekki hægt að sjá með hvaða móti viðkomandi verkalýðsfélög geta tryggt félagsmönnum sínum meiri kjarabætur en líklegt er að verkalýðsfélögin á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum telja sig geta náð.

Þvert á móti er ekki ósennilegt að ef það tækist mundu atvinnufyrirtækin smátt og smátt flytja sig um set og flytja starfsemi sína í aðra landshluta. En langlíklegast er að verkfall á landsbyggðinni mundi einfaldlega veikja þau atvinnufyrirtæki, sem þar eru starfrækt svo mjög, að þau ættu sér ekki viðreisnar von. M.ö.o. verkfall á landsbyggðinni er líklegt til að veikja atvinnulífið þar enn meir og stuðla að enn frekari fólksflutningum til suðvesturhornsins.

Þegar málið er skoðað ofan í kjölinn er þess vegna erfitt að skilja þær aðgerðir, sem Verkamannasambandið og Landssamband iðnverkafólks er nú að efna til utan suðvesturhorns landsins.

Það er líka afar ólíklegt svo ekki sé meira sagt að jarðvegur sé fyrir þessum aðgerðum hjá hinum almenna launamanni. Spurningin er hins vegar sú, hvort viðhorf almennings í þessum byggðarlögum muni endurspeglast í atkvæðagreiðslunni, sem fram á að fara. Reynslan er sú, að tiltölulega fámennur hópur tekur þátt í atkvæðagreiðslum sem þessum. Það gæti þó hugsanlega breytzt, ef í ljósi kæmi, að forystumenn umræddra verkalýðssamtaka væru svo gersamlega úr takt við vilja hinna almennu félagsmanna, að þeim síðarnefndu ofbyði. Þá gæti það gerzt, að þátttaka í almennri atkvæðagreiðslu yrði mjög mikil. Ef verkfallsboðun við þessar aðstæður yrði samþykkt í atkvæðagreiðslu, sem almenn þátttaka yrði í væri það hins vegar vísbending um að meiri gremja sé til staðar í grasrótinni í samfélagi okkar en menn hafa áttað sig á.

Úr því sem komið er er hins vegar ástæða til að hvetja félagsmenn umræddra verkalýðsfélaga til að taka virkan þátt í atkvæðagreiðslunni, svo að ekki fari á milli mála, hver vilji launþega í viðkomandi byggðarlögum er.

Það hefur verið ljóst í allmörg undanfarin ár, að launþegafélögin bæði hér og annars staðar standa á ákveðnum tímamótum. Þeim hefur gengið misjafnlega vel að aðlaga sig breyttum aðstæðum og nýjum þörfum félagsmanna sinna. Mörgum hefur þótt vinnubrögð sumra þeirra a.m.k. einkennast af viðhorfum og afstöðu fyrri tíma.

Launþegafélögin þurfa, eins og allir aðrir, að tileinka sér ný vinnubrögð og starfa í takt við hugsunarhátt nýrra kynslóða. Sá tími er löngu liðinn, að verkalýðsfélögin séu að heyja harða baráttu fyrir lífshagsmunum fátæks fólks. Fátækt er enn til á Íslandi en hana er að finna annars staðar en áður var.

Það ætti t.d. að vera markmið launþegafélaganna að stuðla að stöðugri endurmenntun félagsmanna sinna, svo að þeir verði gjaldgengir á vinnumarkaðnum og bæti kjör sín þannig.