Margrét tekur þátt í sýnikennslu á notkun smokka í þorpi í Mósambik.
Margrét tekur þátt í sýnikennslu á notkun smokka í þorpi í Mósambik.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alnæmi hefur breiðst út með gífurlegum hraða í Afríku og ógnar nú framtíð álfunnar. Árið 1998 dóu þar tíu sinnum fleiri úr alnæmi en af völdum stríðs. Talið er að í þeim löndum, sem verst hafa orðið úti, sé fjórðungur fullorðinna smitaður af HIV-veirunni sem orsakar alnæmi. Margrét Þóra Einarsdóttir vann í Mósambík um tíma og kynntist aðstæðum.

SAMKVÆMT upplýsingum frá alnæmissamtökum Sameinuðu þjóðanna, UNAIDS, eru 34 milljónir manna í heiminum smitaðar af HIV-veirunni, sem orsakar alnæmi. Þar af eru 22 milljónir Afríkubúar. Löndin 21, sem hafa flest alnæmistilfelli í heiminum, eru öll í Afríku. Í mörgum þeirra eru þriðjungslíkur á að barn sem kemur í heiminn, deyi af völdum alnæmis á lífsleiðinni. Verst er ástandið í löndum sunnan Sahara og er talið að í Botsvana, Namibíu, Sambíu og Simbabve séu 20-26% af fólki á aldrinum 15-49 ára HIV-smituð.

Þessar hræðilegu upplýsingar er erfitt að melta þegar maður býr við allsnægtir í þjóðfélagi eins og á Íslandi. Fyrir flestum eru þetta einungis tölur á blaði. Þegar ég fór sjálf til Mósambík í Afríku kynntist ég hins vegar fólkinu á bak við þessar tölur. Fólki sem er eins og við, börn, unglingar, foreldrar, afar og ömmur, eini munurinn er að þau fæddust annars staðar í heiminum við mun lakari aðstæður. Staðreyndirnar urðu sérstaklega áþreifanlegar þegar ég kom til Mósambík í annað sinn og frétti að fjórar manneskjur sem ég hafði kynnst tveimur árum áður væru látnar af völdum alnæmis. Þessar fregnir slógu mig talsvert því þetta var allt fólk á besta aldri, með framtíðaráform rétt eins og ég.

Alnæmi ógnar efnahagslegri og félagslegri þróun í Afríku

Það er ekkert nýtt af nálinni að hræðilegir sjúkdómar stráfelli íbúa heilu byggðarlaganna í Afríku. Malaría drepur u.þ.b. jafn marga og alnæmi og ýmsir barnasjúkdómar, sem mætti fyrirbyggja, drepa milljónir annarra. Það sem skilur alnæmi frá þessum sjúkdómum er að það leggst þyngst á ákveðinn aldurshóp. Í grein í The Economist (maí 1997) segir að það ógnvæglegasta við sjúkdóminn sé að hann leggist á afkastamesta fólkið í samfélaginu, þá sem mest hefur verið fjárfest í hvað varðar menntun og starfsreynslu. Í Simbabve eru t.d. 80% alnæmissmitaðra á aldrinum 15-49 ára. Þetta þýðir að sjúkdómurinn mun þurrka út fólkið sem stendur undir efnahag þjóðarinnar og skilja eftir munaðarlaus börn og gamalmenni. Það mun orskaka mikinn samdrátt í þjóðarframleiðslu, þekking mun tapast og auðlindir sem gætu nýst til fjárfestinga verða notaðar í heilsugæslu, jarðarfarir og aðstoð til munaðarlausra. Ástandið er mjög alvarlegt og er alnæmi á góðri leið með að afmá alla framþróun sem orðið hefur í þessum löndum síðustu áratugi. Lífslíkur fólks hafa minnkað í sumum löndum niður í tölur sem ekki hafa sést síðan fyrir 1960.

Munaðarlausum börnum fjölgar gífurlega

Fyrir tíð alnæmis voru um 2% allra barna í þróunarlöndunum munaðarlaus en árið 1997 hafði þessi tala skotist í 7% í mörgum Afríkuríkjum. Talið er að í dag séu 11,2 milljónir barna í heiminum munaðarlausar af völdum alnæmis og að 95% þeirra búi í Afríku sunnan Sahara. Gert er ráð fyrir að í þessum löndum verði 25-33% barna munaðarlaus árið 2010.

Í Afríku er ekkert félagslegt kerfi sem tekur að sér munaðarlaus börn, heldur er það fjölskyldan sem stendur undir allri byrðinni. Afar og ömmur munaðarlausra barna hafa takmarkað fjármagn og þrek til að hugsa um þau. Mörg börn hafa því engin önnur úrræði en að flykkjast til borganna í leit að vinnu eða til að betla á götunum. Börn í þriðja heiminum sem misst hafa foreldra sína úr alnæmi eru í mikilli fjárhagslegri óvissu, eru oft vannærð og eiga á hættu að veikjast eða verða fyrir barðinu á kynferðislegu ofbeldi. Það er ekki nóg með að þau þurfi að takast á við persónulegan missi, heldur þurfa þau að berjast við fordóma, skömm og misrétti sem oft tengist sjúkdómnum. Börnin einangrast oft félagslega og eiga þess engan kost að ganga í skóla.

Fólk þekkir ekki smitleiðir

Daglega smitast yfir 15.000 manns í heiminum af HIV-veirunni og af þeim búa 95% í þróunarlöndunum. Mósambík er eitt af þeim löndum þar sem alnæmi breiðist mjög hratt út. Fyrir því er engin ein ástæða. Orsakirnar eru margar og samtvinnaðar. Það sama gildir um alnæmi og marga aðra sjúkdóma svo sem lömunarveiki, berkla og niðurgang. Fólk þekkir ekki smitleiðir og veit því ekki hvernig á að varast þá. Margir hafa ekki aðgang að heilsugæslu og ríkið er hreinlega of fátækt til að menntun og heilbrigði þjóðarinnar hafi forgang í fjárlögunum. Það eru einungis 8 ár síðan borgarastyrjöld lauk í Mósambík og landið reis úr rústum. Þjóðin sem þar býr er ein sú fátækasta í heiminum og þeir fjármunir sem til eru fara í uppbyggingu og greiðslu á erlendum lánum.

Skortur á menntun á þátt í útbreiðslu alnæmis

Menntun í Mósambík er á mjög lágu stigi, aðeins 23% kvenna eru læs og 58% karla. Stærsti hluti þjóðarinnar býr úti á landsbyggðinni. Fólkið vinnur flestum stundum á akrinum og sér ekki tilgang í að mennta börn sín, sérstaklega ekki stúlkur. Á mörgum svæðum vantar skóla og kennara. Af þessum sökum er mjög erfitt að koma upplýsingum til almennings um hvernig verjast eigi alnæmi. Þegar fólk kann ekki að lesa þýðir ekki að senda því upplýsingar á prenti og ef það hefur ekki rafmagn er lítið gagn í að sjónvarpa upplýsingum. Það er líka mjög erfitt að útskýra sjúkdóm eins og alnæmi fyrir þeim, sem vita sáralítið um líffræði og hafa aldrei heyrt talað um ónæmiskerfi. Fólk á ákaflega erfitt með að trúa að þessi sjúkdómur sé til, því að hann hefur ekki augljós einkenni sem birtast í öllum tilfellum. Hann veikir ónæmiskerfið svo smitaðir verða veikari fyrir öðrum sjúkdómum eins og malaríu, berklum eða lungnabólgu. Það eru því þessir sjúkdómar sem leggja fólk í gröfina og frásagnir um sjúkdóm sem heitir alnæmi eru teknar lítt trúanlegar.

Frjálst kynlíf á þátt í útbreiðslu alnæmis

Í Mósambík þykir mjög eðlilegt að skipta títt um rúmfélaga og telst ekkert athugavert að eiga marga rekkjunauta á sama tíma. Þar sem alnæmi smitast við kynmök verður hættan á smiti meiri eftir því sem rúmfélögum fjölgar. Fjölkvæni er ekki óalgengt og oft eiga menn nokkur viðhöld líka. Þegar ég ræddi þetta við Mósambíkbúa fékk ég þau svör að þetta væri eðli fólksins og hefð í landinu. Ég fékk einnig þau svör að menn yrðu pirraðir og jafnvel veiktust ef þeir stunduðu ekki kynlíf af kappi og að það væri ekkert annað við að vera á kvöldin eftir að myrkur væri skollið á en að stunda ástalíf. Ég heyrði einnig að menn yrðu fyrir aðkasti ef þeir létu sér nægja að sofa bara hjá einni konu og félagi minn sagði mér stoltur frá því þegar hann var yngri og átti fimm kærustur. Ég spurði hann þá hvort þær hefðu vitað hver af annarri en hann sagðist hafa verið heppinn og bætti svo við að pabbi hans hefði átt þrjár konur sem allar bjuggu á landareign hans. Annar innfæddur var að segja frá því þegar hann fór út að skemmta sér með kærustunni sinni og þegar hann var spurður af hverju hann hefði ekki farið út með konunni sinni svaraði hann: ,,Konunni, hver hefði þá átt að hugsa um börnin?"

Smokkar taldir hættulegir

Í Mósambik er ekki hefð fyrir notkun verja. Þegar áróður hófst um notkun smokka urðu til margar efasemdasögur hjá almenningi eins og að Simbabvebúar framleiddu smokka með alnæmissmiti í til að ná sér niðri á mósambísku þjóðinni. Aðra sögu heyrði ég um að sjúkdómurinn alnæmi væri tilbúningur Vesturlandabúa til að plata Afríkubúa til að stunda öruggt kynlíf og þannig stöðva fjölgun þeirra. Verjur eru víða seldar og þó þær kosti ekki mikið á fólk almennt svo litla peninga að því finnst smokkar munaðarvara sem hægt er að vera án. Þróunarsamtök og heilsugæslustöðvar hafa brugðist við þessu með því að fara út í þorpin, halda fræðsluerindi um mikilvægi þess að nota smokka og dreifa þeim síðan ókeypis.

Réttindi kvenna lítil

í Mósambík og er oftast litið á þær sem eign eiginmannsins, hann má því meðhöndla þær eins og honum hentar. Stúlkur eru aldar upp með það að leiðarljósi að þjóna manninum. Þær telja sig ekki hafa rétt til að neita körlum um neitt, hvort sem þeir sækjast eftir kynferðislegu samneyti við þær eða einhverju öðru. Þær hafa því ekki vald til að verja sig gegn sjúkdómum eins og alnæmi. Vændi er oft fylgifiskur fátæktar, sérstaklega í löndum þar sem konur eru ómenntaðar og hafa lága þjóðfélagsstöðu eins og tilfellið er í Mósambík. Vændi á sinn þátt í útbreiðslu alnæmis.

Hefðir og venjur sem auka útbreiðslu alnæmis

Alnæmi smitast við blóðblöndun. Í Mósambík er mjög sterk hefð fyrir því að fara til galdralækna ef eitthvað bjátar á. Þeir lækna með því að ná sambandi við forfeðurna og finna út orsök veikindanna. Hún getur verið illir andar sem þarf að reka á brott, bölvun frá nágrönnunum eða eitthvað annað. Lækning felst oft í því að taka blóð úr fólki með áhöldum sem ekki hafa verið sótthreinsuð. Fjöldaathafnir tíðkast einnig, þar sem fólk er skorið til blóðs með sama hnífnum án þess að hann sé hreinsaður á milli.

Andatrú og hjátrú eru mjög rótgróin í þjóðarsálinni í Mósambík. Þess vegna er yfirnáttúrulegum hlutum oft kennt um dauðsföll. Búðareigandinn í þorpinu mínu dó t.d og skildi eftir sig þrjár eiginkonur. Dánarorsökin var talin vera ósamkomulag og afbrýðisemi þeirra á milli. Ein þeirra átti að hafa lagt á hann bölvun sem drap hann. Að sama skapi kennir fólk oft yfirnáttúrulegum hlutum um dauðaorsök þegar þeirra nánustu deyja ungir úr alnæmi.

Mér var einnig sagt að sumir læknar segðu ekki sjúklingum sínum frá því að þeir væru HIV-smitaðir. Þeir vilja ekki segja sjúklingi að hann muni deyja og að hvorki sé hægt að lækna hann né aðstoða. Þetta leiðir til þess að þeir sem eru HIV-sýktir halda áfram að þjást án þess að vita af hverju og gera sér ekki grein fyrir að þeir geta borið veiruna áfram til annarra.

Snúum vörn í sókn

Það sem ræður úrslitum um afdrif alnæmis í framtíðinni er hvort brugðist er við vandanum eða ekki. Staðan er ekki vonlaus því 200 milljónir fullorðinna Afríkubúa eru ekki HIV-smitaðar og það þarf að virkja þetta fólk til að standa saman um að verja sig og aðra gegn alnæmi. Leiðtogar margra Afríkuþjóða hafa hingað til ekki brugðist við sem skyldi. Þagað hefur verið yfir vandamálinu í mörgum löndum. Sumstaðar hefur útbreiðsla sjúkdómsins ekki verið viðurkennd, af hræðslu við að ferðamenn hættu að koma þangað. Ríkisstjórnirnar eru þó að gera sér grein fyrir að það þarf að bregðast við vandanum af alvöru, ekki einungis með orði heldur líka með fjármagni. Það þarf að dæla upplýsingum um sjúkdóminn og varnir við honum inn í þjóðfélögin. Rannsóknir sýna að þar sem það hefur verið gert hefur dregið úr alnæmissmiti. Í Úganda hefur unnist stórsigur í baráttunni gegn alnæmi. Forsetinn Yoweri Museveni hóf mikla herferð gegn sjúkdómnum fyrir nokkrum árum. Fræðslu um alnæmi var komið inn í menntakerfið og fólk sent út í samfélögin til að fræða almenning. Þetta bar árangur og tilfellum um alnæmissmit fækkaði gífurlega.

Vandamál sem varðar alla heimsbyggðina

Richard Holbrooke, fulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að Vesturlandabúar verði að veita Afríku athygli. Heimsálfan verður þarna áfram og hröð útbreiðsla alnæmis mun ekki einskorðast við Afríku í framtíðinni. Ef við gerum ekkert núna, verðum við að taka á vandamálinu seinna. Þá verður orðið miklu hættulegra, dýrara og erfiðara að eiga við það.

UNAIDS beitir sér fyrir sameiginlegu, alþjóðlegu átaki gegn alnæmi. Takmark UNAIDS er að varna útbreiðslu alnæmis, aðstoða þá sem eru sýktir og aðstandendur þeirra og reyna að draga úr áhrifum sjúkdómsins á samfélögin. Mörg önnur samtök reka verkefni í Afríku, sem miðast að því að fræða fólk um sjúkdóminn, koma smokkum á markað, gera fólki kleift að fara í alnæmispróf og fá ráðgjöf ef það greinist sýkt. Dæmi um þetta eru samtökin Humana, People to People. Ég kynntist starfi þeirra þegar ég var að vinna í kennaraskóla á þeirra vegum í Mósambík. Þegar kennaranemarnir útskrifast og fara að kenna úti í þorpunum eru þeir gjarnan einu menntuðu manneskjurnar á staðnum og gegna því lykilhlutverki hvað fræðslu varðar. Þess vegna er alnæmisfræðsla hluti af náminu sem er bæði bóklegt og verklegt. Hluti verklega námsins er að fara út í þorpin, vekja athygli á þessum sjúkdómi og fræða fólk um hvernig beri að varast hann. Ég ætla að greina frá einni slíkri ferð.

Kennaranemar standa fyrir herferð gegn alnæmi

Undirbúningurinn stóð í nokkra daga. Búnir voru til borðar með áletrunum, veggspjöld teiknuð, söngvar og dansar æfðir og leikrit samin um efnið. Að honum loknum var gengið á markaðinn í þorpinu þar sem fólk seldi varning sinn. Nemendurnir staðnæmdust við enda markaðarins og myndaðist strax hringur af fólki í kringum þá. Þeir hengdu borðana upp í tré, stilltu sér upp í hálfhring, sungu og stigu dansspor í leiðinni. Þorpsbúa dreif að til að sjá hvað gengi á. Eftir það sýndu nemendurnir leikrit og fluttu stuttar ræður. Einn af nemendunum kom til mín og bað mig um að aðstoða sig við eitt leikritið og ég samþykkti það. Þegar ég gekk með honum inn í hringinn lét hann sem ég væri kærastan hans og hlógu áhorfendur dátt þegar hann tók utan um mig og lét vel að mér. Síðan stakk hann priki milli lappanna á sér og dró upp smokk og bað mig um að aðstoða sig við að koma honum á prikið. Mér varð ekki um sel en lét ekki á neinu bera meðan hann útskýrði fyrir fólkinu í smáatriðum hvernig ætti að nota smokk og hvers vegna. Hann sagði jafnframt að allir gætu fengið alnæmi, hvort sem þeir væru ríkir eða fátækir, svartir eða hvítir. Þessi herferð sýndi mér að það er vel hægt að koma skilaboðum til fólks og fræða það þó að ekki séu til staðar sterkir fjölmiðlar eins og við erum vön úr okkar samfélagi. Að vísu tekur þetta meiri tíma og mannskap en það er engin ástæða til að gefast upp og gild ástæða fyrir alla, líka okkur á Íslandi að láta okkur þetta mál varða.

Höfundur er kennari.