[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Hótel Europa er í Ruhpolding í Þýskalandi, rétt við landamæri Austurríkis og Þýskalands," segir Helga Sigrún Sigurjónsdóttir, en þangað fór hún nýlega og áði í nokkrar nætur á hótelinu, sem er í eigu Íslendinga.

"Hótel Europa er í Ruhpolding í Þýskalandi, rétt við landamæri Austurríkis og Þýskalands," segir Helga Sigrún Sigurjónsdóttir, en þangað fór hún nýlega og áði í nokkrar nætur á hótelinu, sem er í eigu Íslendinga.

Hún segir að hóteldvölin hafi verið ánægjuleg, ekki síst í ljósi þess að allir sem vinna á hótelinu eru íslenskir.

"Ég þekkti aðeins til fjölskyldunnar sem rekur hótelið og vissi því að það var rekið af Íslendingum en ég vissi ekki að allt starfsfólkið væri íslenskt.

4 kynslóðir sjá um reksturinn

Það eru fjórar kynslóðir sem sjá um reksturinn og ættarnafn fjölskyldunnar er Häsler því hún er að hluta til af þýskum ættum þótt allir séu fæddir á Íslandi. Áður rak fjölskyldan City hótel í Reykjavík. Karitas er ættmóðirin ef svo má að orði komast og Isle dóttir hennar er hótelstýran og hún sér um reksturinn ásamt dóttur sinni Karítas Sóleyju. Yngsti fjölskyldumeðlimurinn er sex ára sonur Karítasar Sóleyjar, Gerald, sem veitir leiðsögn um hótelið.

Hótelið rúmar um 55 gesti og þar er líka veitingastaður en matreiðslumeistarinn er íslenskur, Hans Häsler og eiginkona hans Valgerður starfar einnig við hótelreksturinn.

Einnar klukkustundar akstur frá München

Helga Sigrún ók frá Frankfurt að hótelinu og segir að ferðin hafi tekið sig um fimm klukkustundir. "Þeir sem ætla að fljúga til München á næstunni eru einungis um eina klukkustund að aka til bæjarins en hann er m.a. þekktur skíðabær og stutt í gott skíðaland.

Annars er þetta mjög rólegur og notalegur bær en íbúarnir eru um 6.500 talsins. Margir Þjóðverjar fara þangað til að hvílast og endurnærast frá amstri hversdagsins. Í næsta nágrenni er síðan Arnarhreiðrið sem Hitler lét reisa og þeir sem hafa áhuga á að skoða kastala geta skoðað kastala Lúðvíks 14 sem er á þessum slóðum. Gestir geta líka fengið mjög góðar leiðbeiningar hjá eigendunum um allt sem markvert er að skoða í nágrenninu.

Fjallasýnin er einstök í þessum bæ og allt umhverfi eins og á póstkorti.

Ég gisti á öðrum hótelum á leið minni um Þýskaland en fannst gott að koma þarna, móttökurnar voru frábærar og það var notalegt að geta talað íslensku eftir að hafa reynt að bjarga sér á bjagaðri þýskunni. Börnin voru hrifin af því að geta spjallað við alla á sínu tungumáli. Það er þægilegt að vera þarna með börn, sundlaug á hótelinu, sauna og önnur þægindi.

Þetta er vandað hótel, herbergin eru rúmgóð og auk þess er hægt að leigja íbúðir ef vill."

Eru íslenskir réttir á matseðlinum?

"Ekki varð ég vör við það en íslenskt brennivín stendur til boða og það er borið fram í íslensku horni. Ég sá að það var vinsælt því nokkrir pöntuðu það á meðan ég staldraði þarna við."

Íslenskum gestum fer fjölgandi

Hafa margir Íslendingar gist á þessu hóteli?

"Nei, ég held að enn sem komið er hafi fáir Íslendingar komið á hótelið en þó sögðu eigendurnir mér að þeim færi fjölgandi, þetta spyrðist út svona eins og gengur. Mér var sagt að meðal annars væri von á konu á norðan sem kæmi með hóp af fólki með sér."

Er dýrt að gista á hótel Europa?

"Ég held að miðað við staðsetningu sé verðið mjög sanngjarnt. Einstaklingsherbergi eru samkvæmt lista á rúmlega 3.000 krónur eða og tveggja manna herbergi frá um 4.000 krónum. Íbúðirnar kosta um 8.800 krónur á sólarhring. Síðan eru oft tilboð í gangi."