Burgos hefur til að mynda að geyma eina stórfenglegustu dómkirkju Spánar, reista á fjórum löngum öldum í lok miðalda.
Burgos hefur til að mynda að geyma eina stórfenglegustu dómkirkju Spánar, reista á fjórum löngum öldum í lok miðalda.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sjálfsagt hafa ekki margir Íslendingar sótt heim borgina Burgos á Norður-Spáni. Þröstur Helgason átti leið um þessa litlu en sögulegu borg og áði á hóteli sem kennt er við sjálfa þjóðhetju Spánverja, El Cid.

ÞEIR sem eiga leið um borgina Burgos í Kastillu- og León-héraði á Norður-Spáni ættu að staldra við. Borgin lætur lítið yfir sér við fyrstu sýn en hefur upp á ýmislegt að bjóða, en einkenni sín hlýtur hún að miklu leyti af því að vera áningarstaður kristinna pílagríma á leið til hinnar heilögu borgar í Galisíu, Santiago de Compostela. Burgos hefur til að mynda að geyma eina stórfenglegustu dómkirkju Spánar, reista á fjórum löngum öldum í lok miðalda.

Við dómkirkjutorgið stendur Hotel Mensón del Cid sem óhætt er að mæla með. Hótelið er ekki aðeins vel staðsett í hjarta borgarinnar heldur einnig afar viðkunnanlegt. Allur aðbúnaður er sömuleiðis hinn besti.

Hótelið er kennt við frægustu hetju spænskrar sögu og bókmennta, El Cid, sem grafinn er í dómkirkjunni. El Cid var uppi á elleftu öld og vann sér það helst til frægðar að berja á Márum sem herjuðu á landið. El Cid var goðsögn í lifanda lífi en hann hét réttu nafni Rodrico Díaz de Vivar en elsta varðveitta söguljóð Spánar, El Cantar de mío Cid, hélt goðsögninni lifandi.

Fyrrverandi prentsmiðja gerð upp

Hótelið stendur gegnt kirkjunni og úr herbergjum á efri hæðum er afar fallegt útsýni yfir hana og torgið.

Á síðari hluta fimmtándu aldar var prentsmiðja í húsakynnum hótelsins. Prentararnir voru lærisveinar Gutenbergs en þekktastir eru þeir sennilega fyrir að hafa prentað eitt af fyrstu spænsku málfræðiritunum árið 1485. Ritið nefnist Gramática de Ándrés Guitierrez de Cerezo og er eitt eintak þess nú varðveitt í konunglegu spænsku bókhlöðunni.

Hótelið er í eigu Alzaga-fjölskyldunnar en upphaflega rak hún veitingastað í húsinu. Hótelið hefur nýlega verið gert upp en fullt tillit var tekið til hinnar löngu sögu byggingarinnar. Framhlið þess er til að mynda óbreytt og veggir hússins, sem reistir voru á sextándu öld, voru látnir halda sér.

Matseðillinn á veitingastað hótelsins er sömuleiðis í hefðbundnum kastilljönskum stíl. Hann endurspeglar látlausan glæsileikann sem einkennir hótelið og allt umhverfi þess. Mæla má með Da Teresa súpunni, þorskinum, plankasteikinni og rjómabúðingnum og vínunum frá Ribera del Duero. Máltíð kostar á bilinu 2.000-2.500 krónur.

Herbergi hótelsins eru rúmgóð og vel búin. Sérstaklega skal mælt með því að fá herbergi með útsýni yfir dómkirkjutorgið. Herbergi eru 55 talsins og kostar nóttin á bilinu 4.800-8.000 krónur. Sex svítur eru á hótelinu og kostar nóttin tæpar 10.000 krónur.