BONO VOX, söngspíra írsku hljómsveitarinnar U2, er ekki við eina fjölina felldur í listiðkan og alllengi hefur hann daðrað við leiklistina. Hann hefur þó ekki komið við sögu í kvikmyndum svo neinu nemi, en ber að mestu leyti ábyrgð á myndinni The Million Dollar Hotel og ekki nema viðeigandi að hann leggi til tónlistina líka.

Ekki er það bara að Bono leikur í The Million Dollar Hotel, heldur skrifaði hann handrit myndarinnar og leggur henni til tónlist, ýmist einn eða í samfloti við félaga sína í U2 og fleiri góða gesti. Hann segist hafa fengið hugmyndina að myndinni þegar þeir Edge, gítarleikari U2, voru myndaðir á þaki hótels sem myndin dregur nafn sitt af. Í framhaldi skrifaði hann sögu um alríkislögreglumann sem rannsakar dularfullt dauðsfall í hóteli ógæfumanna í Los Angeles árið 2001.

Bono leitaði til Mels Gibsons um að hann yrði með í myndinni og loks kom svo Wim Wenders að sem leikstjóri. Verkaskipting fólst síðan í því að Bono legði til handrit myndarinnar og tónlistina líka eins og heyra má af diski sem kom út fyrir stuttu og ber nafn hennar.

Flest laganna eru með Million Dollar Hotel-sveitinni, eða MDH Band, en Bono syngur í nokkrum laganna með þeirri sveit, aukinheldur sem fullskipuð U2 á tvö lög á plötunni. Reyndar á sveitin annað lagið ekki nema að hluta því rithöfundurinn Salman Rushdie á lagið, en Bono semur textann.

Fleiri koma við sögu á skífunni, þar á meðal gamall félagi þeirra U2-pilta, Daniel Lanois, sem kemur fram í þremur lögum, Bill Frisell og fleiri, en þess má og geta að Milla Jovovich syngur eitt lag á skífunni, Lou Reed slagarann Satellite of Love, og menn yfirleitt á því að hún ætti að láta það eiga sig.