MARTIN Everett er kannski helst þekktur fyrir það að segja allt, fyrir að draga ekkert undan um geðflækjur sínar og vandamál. Að minnsta kosti var það uppi á teningnum þegar hljómsveit hans, The Eels, sendi frá sér sína síðustu plötu fyrir tveimur árum. Á nýrri plötu er hann aftur á móti heldur léttari í bragði.

Everett, sem jafnan kallast E, spreytti sig á sólóferli og gerði tvær prýðisskífur áður en hann söðlaði um, stofnaði Álana og komst á samning hjá stórfyrirtæki. Fyrsta skífa sveitarinnar gekk prýðilega, en önnur ekki eins vel; var fulldrungaleg fyrir almennar vinsældir. Á morgun kemur svo út þriðja skífa sveitarinnar, Daisies Of The Galaxy.

E er fremstur meðal jafningja í sveitinni, semur öll lög og texta, útsetur og leikur meira að segja á flest hljóðfæri. Þannig má segja að áðurnefnd önnur plata sveitarinnar, Electro-Shock Blues, hafi verið meira eða minna sólóskífa hans, en um líkt leyti og hann samdi lögin á skífunni gekk hann í gegnum ýmsa erfiðleika, systir hans svipti sig lífi og móðir hans var helsjúk af krabba. Veikindi móður hans urðu og til þess að lítið varð úr tónleikahaldi vegna skífunnar, sem seldist fráleitt eins vel og fyrri platan.

Segja má að E hafi verið í hljóðveri lungann af síðasta ári að semja og taka upp lögin sem skila sér á Daisies of the Galaxy á morgun. Hann heldur um taumana að vanda en fær nú aðstoð frá nokkrum tónlistarmönnum öðrum, þar á meðal Grant Lee Phillips, sem eitt sinn leiddi sveitina sálugu Grant Lee Buffalo, og Peter Buck REM-manni. Þá sást til E utan hljóðversins, var hann einn á ferð og lék þannig á nokkrum tónleikum hér og þar án hljómsveitar. Þrátt fyrir það er Eel enn hljómsveit, eða kannsi er réttara að segja dúett, því trymbillinn sem stofnaði Eels með E á sínmum tíma, Jonathan "Butch" Norton, er enn á sínum stað.