Myndin er frá efri hluta Straumfjarðarár og er sögð dæmigerð fyrir svæðið sem um ræðir. Ef vel prentast má sjá menn standa á báðum bökkum.
Myndin er frá efri hluta Straumfjarðarár og er sögð dæmigerð fyrir svæðið sem um ræðir. Ef vel prentast má sjá menn standa á báðum bökkum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á meðan laxinn á í vök að verjast í flestum af nágrannalöndum okkar nemur hann nýjar lendur á Íslandi.

Á meðan laxinn á í vök að verjast í flestum af nágrannalöndum okkar nemur hann nýjar lendur á Íslandi. Fiskvegir hér á landi eru ótalmargir og í fjölmörgum ám er laxaseiðum sleppt í ólaxgenga fossa til að "nýta beitina", eins og fiskifræðingar kalla það. Sums staðar endar svo með því að laxinum er gert kleift að komast á þessi áður óaðgengilegu svæði. Dæmi eru Austurá ofan Kambsfoss og Langá ofan ótal fossa. Næst á dagskrá gæti verið Straumfjarðará ofan Rjúkanda.

Ástþór Jóhannsson, ábúandi á Dal, á bökkum Straumu, sagði í samtali við Morgunblaðið að áin ofan Rjúkanda væri afar falleg og líkleg til laxveiða. Seiðum hefur verið sleppt á þeim slóðum síðustu árin, enda skilyrði verið talin góð. Ástþór sagði að þegar ljóst varð að Vatnaheiðavegur yrði lagður yfir landareign hans hefði hann talið nauðsynlegt að fylgja því eftir með því að opna laxinum leið, enda væri það bæði náttúrunni og landeigendum til hagsbóta. Félagar hans í Veiðifélagi Straumfjarðarár hafi verið því sammála og því hefði Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur í Borgarnesi, verið fenginn til að athuga svæðið, gera þar búsvæðamat og og úttekt á möguleikum svæðisins sem laxveiðisvæðis. Vert er þó að geta, að vart yrði gerður laxastigi í Rjúkanda nema að aðgerðunum fylgdi fiskvegagerð í Dalsfossi, sem er tveimur kílómetrum neðar. Dalsfoss var sprengdur árið 1978 og varð hann þá fiskgengur, en þó, að því er virðist, aðeins við viss skilyrði. Yrði ráðist í laxastigagerð í Rjúkanada, sem er um það bil 12 metra hár og fallegur foss, yrði að vinna verkið betur í Dalsfossi. Fyrir ofan Rjúkanda er fimm kílómetra árkafli fram að Baulárvallavatni þar sem Straumfjarðará hefur göngu sína undir því nafni.

25% veiðiaukning?

Ef við gluggum í niðurstöður í skýrslu Sigurðar Más stendur eftirfarandi um arðsemi umræddrar fiskvegagerðar:

- Með fiskvegi í Rjúkandafossi er áætluð um 25% aukning í seiðaframleiðslu á vatnasvæðinu. Sé miðað við fulla nýtingu laxins til hrygningar og seiðauppeldis má því gera ráð fyrir samsvarandi aukningu í laxgengd og laxveiði. Árin 1974-1998 var meðalveiði árinnar um 350 laxar. Sé litið til langs tímabils er því líklegt að meðalveiði gæti aukist í 430-440 laxa.

- Með opnun á efsta svæði árinnar yrði allt að því tvöföldun á fjölda veiðistaða í ánni. Svæðið ofan við Rjúkandafoss hefur einnig stórbrotna náttúru og er líklegt til veiða og útivistar af þeim sökum. Nú eru nýttar ríflega þrjár stangir á dag til veiða í vatnakerfinu og er líklegt að fjölga megi um eina stöng miðað við núverandi fyrirkomulag.

- Núverandi nýting á efsta svæði árinnar með sleppingum á sumaröldum laxaseiðum myndi hverfa og áin yrði að fullu sjálfbær til seiðaframleiðslu. Þetta myndi lækka núverandi rekstrarkostnað miðað við þá nýtingu sem tíðkast hefur undanfarin ár.

- Aðgengi að efsta svæðinu ofan við Rjúkandafoss verður væntanlega mjög gott vegna fyrirhugaðrar lagningu svokallaðs vegar um Vatnaheiði, en veglínan liggur um Dufgusdal.

Svo mörg voru þau orð Sigurðar Más og það kemur einnig fram í skýrslu hans að áætlaður kostnaður við gerð umrædds laxastiga myndi hlaupa á bilinu 18 til 20 milljónir.