Meryl Streep; segist ekki búa yfir neinni sérstakri tækni en treystir á innsæið.
Meryl Streep; segist ekki búa yfir neinni sérstakri tækni en treystir á innsæið.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandaríska leikkonan Meryl Streep hefur tvisvar hlotið óskarsverðlaun og tólf sinnum verið tilnefnd til verðlaunanna, m.a. fyrir nýjustu mynd sína, "Music of the Heart". Arnaldur Indriðason skoðaði feril leikkonunnar sem oft er sögð vera öllum öðrum fremri.

Aðeins einni leikkonu hefur tekist að vera tilnefnd til óskarsverðlaunanna jafnoft og Streep en það er Katharine Hepburn. Streep er iðulega lýst sem fremstu kvikmyndaleikkonun Bandaríkjanna og tilnefningarnar tólf segja sína sögu. Nú síðast hlaut hún tilnefningu fyrir leik sinn í myndinni "Music of the Heart" þar sem hún leikur tónlistarkennara. Hún hefur auðvitað leikið í miðlungsmyndum innan um og saman við en samt yfirleitt haldið sínu og meira en það. Þegar henni tekst best upp er engin betri eins og þær tvær bíómyndir sýna sem hafa gefið henni Óskarinn, Kramer gegn Kramer og "Sophie's Choice".

Leið ekki vel í Hollywood

Hún býr á búgarði í Conneticut ásamt eiginmanni sínum til meira en tuttugu ára og fjórum börnum. "Mér líður ekki vel ef ég er lengi í burtu frá þeim," segir hún í nýlegu viðtali við The Sunday Telegraph. "Ég hef komið mér upp þeirri reglu að vera aldrei lengur í burtu frá þeim en tvær vikur í senn. Annars fer allt í vitleysu."

Hún heldur sig í öruggri fjarlægð frá Hollywood-lífinu. "Sem listamanni er mér nauðsynlegt að finna einhverja leið til þess að líta framhjá frægðinni," segir hún í viðtalinu, "en samt að fylgjast vel með því sem er að gerast. Annars missir maður hæfileikann til þess að tjá sig. Það hendir fólk. Það lokar sig inni í stóru húsunum sínum á Hollywood-hæðunum vegna þess að það er orðið dauðleitt á því að glápt er á það og það man ekki lengur hvernig það er að vera bara venjulegur."

Streep gerði tilraun til þess að búa í Hollywood og hún entist í þrjú ár. Það var í upphafi tíunda áratugarins. "Mér leið ekki vel þar. Það eru engar árstíðir í Los Angeles. Ég vil vita af haustinu og finna það koma. Ég vil sjá þar sem fjöllin mæta himninum eins og Karen Blixen skrifaði (Streep lék hana eftirminnilega í Jörð í Afríku). Það dregur úr manni allan mátt að búa í því andrúmslofti sjálfsánægjunnar sem ríkir í kvikmyndaiðnaðinum. Það er óþolandi. Við erum ekki svona rosalega mikilvæg heiminum þótt við höldum svo sannarlega að við séum það. Ég er ánægð með að verk mín hljóti viðurkenningu en við höfum gert talsvert meira úr okkur en efni standa til. Það er allt svo stórfenglegt og fötin eru svo ofboðsleg og umtalið um hvernig allir eru til fara og líta út er allsráðandi og menn gera allt til þess að vera sem mest áberandi. Mér líður illa í slíku umhverfi."

Eitt af því sem Streep er þekkt fyrir sem leikkona er að hún getur leikið hvern sem er hvaðan sem hann er í heiminum. Henni hefur verið hælt á hvert reipi fyrir að tala með nánast hvaða hreim sem hún kýs af jafnmikilli sannfæringu. Þannig hefur hún notað pólskan hreim í "Sophie's Choice" og "The Deerhunter" enskan í "Plenty", viktoríanskan í "The French Lieutenant's Woman", ítalskan í Brúnum í Madisonsýslu, danskan í Jörð í Afríku, írskan í "Dancing at Lughnasa" og glimrandi fínan ástralskan hreim í einni af sínum allra bestu myndum, "A Cry in the Dark".

Glæsilegur ferill

En henni leiðist greinilega að tala um hreiminn. "Mér finnst að fólk ætti fyrir löngu að vera farið að tala um alla aðra sem hafa sérhæft sig í sérstökum hreim. Ég gerði meira af því en aðrir á ákveðnu tímabili en núna hafa aðrar tekið við eins og Susan Sarandon, Angelica Huston og Nicole Kidman. Það talar enginn um þær en það tala allir um það ef ég leik með erlendum hreim."

Madonna var fyrst ráðin í hlutverkið sem Steep síðar hreppti í "Music of the Heart", sem er nokkuð kyndugt þegar litið er til þess að Madonna hreppti að lokum það hlutverk sem lengi var talað um að Meryl Streep færi með í söngleiknum Evítu þegar hann var kvikmyndaður. "Þetta er ákaflega lítill bær," segir leikkonan og meinar Hollywood.

Streep er fædd árið 1949 og lagði stund á leiklist frá unga aldri. Hún byrjaði þó ekki að leika í kvikmyndum fyrr en árið 1977 þegar hún fékk lítið hlutverk í Júlíu á móti Jane Fonda. Árið eftir hreppti hún sína fyrstu óskarsverðlaunatilnefningu þegar hún fór með aðalkvenhlutverkið í "The Deerhunter". Árið eftir lék hún í þremur bíómyndum og þar á meðal Kramer gegn Kramer á móti Dustin Hoffman. Mótleikarinn Hoffman sagði á sínum tíma að hann kynni ekki vel við Streep sem mótleikkonu. "Ég þoldi hana ekki," lét hann hafa eftir sér á sínum tíma, "þótt ég beri mikla virðingu fyrir henni sem leikkonu".

Streep er spurð út í þessi orð hans í viðtalinu í Telegraph og gefur ekki mikið fyrir þau. "Hann er gamall vinur minn. Stundum er erfitt að lýsa kærleika á prenti. Ég veit hvað hann er að segja. Þetta er bráðfyndið. Hann var svo brjálaður út í mig. Hann spilar mikið tennis og er algjört íþróttafrík og hann lítur á leiklistina eins og keppnisíþróttir."

Hún hreppti annan Óskar fjórum árum síðar þegar hún lék fórnarlamb útrýmingarbúða nasista í "Sophie's Choice", pólska konu sem stóð frammi fyrir hryllilegu vali frammi fyrir nasistunum. "Ég á auðvelt með að sýna tilfinningar mínar," segir Streep. Í "Sophie's Choice" las ég aðeins einu sinni yfir atriðið í búðunum þar sem konan þarf að velja á milli (hvort af tveimur börnum hennar fari í gasklefana) og ég hreinlega gleymdi því aldrei. Ég vildi ekki lesa það aftur svo ég lék mér við litlu stelpuna, sem fór með hlutverk dótturinnar, þangað til þeir sögðust vera tilbúnir fyrir atriðið.

Byggir á innsæi

Fleiri safarík hlutverk fylgdu í kjölfarið í myndum eins og "Silkwood" og Jörð í Afríku en haft hefur verið eftir leikstjóra þeirrar myndar, Sidney Pollack, að Streep geti "látið sig hverfa inn í aðra persónu". Þá má nefna Járngresi þar sem lék á móti Jack Nicholson og "Postcards From the Edge" þar sem hún söng í fyrsta skipti á ferlinum.

Þegar nær dró tíunda áratugnum fór góðum kvenhlutverkum fækkandi í Hollywood þegar stórmyndaæðið tók að verða allsráðandi og Streep varð minna áberandi. Hún hafði fengið gagnrýni á sig fyrir að vera köld og fjarlæg og sumir gerðu gys að hæfileika hennar til þess að tala með erlendum hreim. Árið 1994 gekk hún í lið með hinum allsráðandi hasarmyndaframleiðendum og lék aðalhlutverkið í hasarmyndinni "The River Wild". Svo virðist sem góðum kvenhlutverkum sé að fjölga aftur því Streep hefur verið talsvert áberandi í myndum að undanförnu.

Hún segir að hún búi ekki yfir neinni sérstakri leiktækni. "Ég byggi mest á innsæi. Í hvert skipti sem ég byrja að leika finnst mér að ég hafi gleymt öllu sem ég kann en ég kunni aldrei neitt til þess að byrja með og hvernig er hægt að gleyma einhverju sem maður aldrei vissi?"

Streep mun hafa í nógu að snúast á næstunni. Nokkur verkefni eru í farvatninu en í einu þeirra mun hún leika á móti Michael Douglas. Myndin sú heitir "Still Life" og Streep lýsir henni sem "miskunnarlausri úttekt á löngu hjónabandi. Ég leik stelpuna hans Michaels."

Hún segir að leiklistin haldi henni á beinu brautinni. "Ef ég hefði hana ekki væri ég örugglega komin með magasár. Ég hef sparað stórar fúlgur sem annars færu í sálfræðinga. Og ég fæ meira að segja borgað fyrir það."

Höf.: Arnaldur Indriðason