Nýr RAV4 verður boðinn í fleiri útfærslum þegar hann kemur í lok júlí.
Nýr RAV4 verður boðinn í fleiri útfærslum þegar hann kemur í lok júlí.
YARIS Verso, nýr RAV 4, endurnýjaður Previa og tvíorkubíllinn Prius eru meðal nýjunga á bás Toyota. Skúli K. Skúlason sölustjóri kvaðst einkum ánægður með nýjan RAV4.

YARIS Verso, nýr RAV 4, endurnýjaður Previa og tvíorkubíllinn Prius eru meðal nýjunga á bás Toyota. Skúli K. Skúlason sölustjóri kvaðst einkum ánægður með nýjan RAV4.

Af þessum bílum er Verso sá eini sem kominn er á markað á Íslandi en RAV4 er væntanlegur í lok júlí og Previa með haustinu.

"Ég er ekki síst ánægður með nýjan RAV4 vegna þess að hann er nú rúmbetri, kraftalegri og hefur fengið fágaðra útlit og kannski má segja að hann hafi þroskast, enda er um að ræða bíl sem á sínum tíma skapaði þá tegund bíla sem jepplingar eru," segir Skúli er hann ræddi um það sem hann vildi undirstrika af því sem Toyota sýnir í Genf. RAV4 verður nú boðinn í fleiri útfærslum en fyrr. Aldrifsbíllinn verður fáanlegur þrennra og fimm dyra með nýrri tveggja lítra og 150 hestafla vél með svonefndri VVT-i tækni, sem minnst verður á síðar, og nú verður einnig í boði

framdrifsbíll bæði 3 og 5 dyra með 1,8 lítra og 126 hestafla vél. Skúli segir marga kaupendur kjósa RAV4, sem þurfa í sjálfu sér ekki á aldrifi að halda en velja hannekki síst af því hann er hár og góður sem ferðabíll.

Hlynur Ólafsson sölumaður var einnig með Skúla í för og sagði að ekki mætti gleyma MR2-sportbílnum, en umboðið hefur þegar pantað fjóra slíka bíla sem þeir félagar segjast sannfærðir um að muni seljast í hvelli. Skúli segir að pantaðir hafi verið fjórir litir, rauður, silfraður, svartur og gulur og segir þessa pöntun meira til gamans, en hann kveðst telja nokkurn markað fyrir sportbíla um þessar mundir.

"Verso er ný kynslóð bíla sem á eftir að ryðja sér mjög til rúms, því bíll af þessari gerð hefur hingað til ekki verið til í þessari stærð," segir Skúli og segir ótrúlega mikið pláss í bílnum. "Mér finnst það helst líkjast því að sitja í rútu því plássið er svo drjúgt." Salan í Evrópu hefur farið mjög vel af stað og segir Skúli að víða krefjist aðstæður, eins og bílastæðavandi og hagstæður rekstrarkostnaður, þess að menn velji bíla eins og Verso. Kvaðst hann bjartsýnn á söluna hérlendis.

Ný tækni í bensínvélum

Toyota hefur þróað nýja gerð bensínvéla sem nefnast Variable Valve Timing-Intelligent sem þýðir að opnunartími sogventla er breytilegur. Hefur það í för með sér betri brennslu og nýtingu á eldsneytinu, sem þýðir minni mengun og ekki síður meiri kraft. Vélar með þessari tækni eru nú í Yaris bæði 1,0 og 1,3 lítra vélunum, í nýrri kynslóð Corolla, Celica, MR2, RAV4 og Previa bílunum. Eins lítra vélin hlaut í fyrra virt og eftirsótt verðlaun verkfræðinga fyrir frábæra hönnun og gerð nýrrar kynslóðar véla. Þessari tækni verður einnig beitt í fleiri gerðum á næstunni.

Stefnt er að því að bjóða Previa frá og með næsta hausti og hefur þessi sjö manna framdrifsbíll nú fengið nýtt útlit, er boðinn með 2,4 lítra og 156 hestafla vél. Meðal hugsanlegra kaupenda eru til dæmis fjölskyldur með fjögur börn sem hafa ekki átt margra kosta völ í sex manna bílum. "Oft hefur fólk þurft að kaupa jeppa, sem fjölskyldan þarf ekki endilega á að halda, bara til að fá nógu mörg sæti. Previa er sérlega hentugur fyrir stórar fjölskyldur því hann er sjö manna og hentar líka vel þeim sem ferðast mikið, því hann hefur líka gott farangursrými."

Af Prius er það að segja að einn slíkur bíll hefur verið í prófun hjá nokkrum aðilum hérlendis. Prius er tvíorkubíll, er með 1,5 lítra bensínvél, rafal og rafmagnsmótor og vinna vélarnar annað hvort til skiptis eða saman. Bensínvélin knýr hjólin en öll umframorka er nýtt til að hlaða rafgeyma og sömuleiðis gerist það við hemlun. Orkan frá rafgeymunum kemur síðan til skjalanna þegar þörf krefur, t.d. við akstur í brekkum eða framúrakstur og þannig má ná bensíneyðslunni verulega niður, enda leggur framleiðandinn sérstaka áherslu á þetta atriði við kynningu á bílnum. Þegar lítið reynir á, til dæmis á löturhraða, þegar farið er niður brekku eða á rauðu ljósi er bensínvélin alls ekki í gangi. Skjár í mælaborðinu gefur ökumanni alltaf til kynna hvaða orkugjafi er í notkun.

Sala á Prius í Evrópu á að hefjast í haust og segir Skúli ráðgert að bjóða hann einnig til sölu á Íslandi.