Kvennaskólinn í Reykjavík. Í þessu húsi hlustaði Ólafur á söng kvennaskólameyjanna.
Kvennaskólinn í Reykjavík. Í þessu húsi hlustaði Ólafur á söng kvennaskólameyjanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvaða augum litu ungir menn á konur í lok nítjándu aldar? Guðrún Guðlaugsdóttir skoðar skrif Ólafs Davíðssonar um þetta efni í dagbókarbrotum hans frá árinu 1882.

Þegar veðrið er vont og allt gengur á afturfótunum er ekki ónýtt að eiga sér "ævintýraheim" þangað sem hægt er að leita. Í þeim heimi er alltaf gott veður og allt sem gerist skemmtilegt, áhugavert og rómantískt. Margir eiga slíkan "ævintýraheim" en umhverfið í honum er æði misjafnt. Sumir leita í draumóra, aðrir í ýmiskonar tómstundastarf, tónlistin er mörgum athvarf og bækur enn öðrum - spilamennska og útivera - allt getur þetta orðið umhverfi í "æfintýraheimi" og margt margt fleira. "Ævintýraheimurinn" getur til dæmis verið bók sem inniheldur lýsingar á liðnum tíma, ekki síst er tímabilið fyrir, um og eftir 1900 heillandi. Þá var svo margt að gerast og veröldin öll svo vonglöð. Ein er sú bók sem gaman er að lesa í þessu skyni - það eru dagbókarbrot og sendibréf Ólafs Davíðssonar þjóðsagnasafnara sem gefin voru út árið 1955 undir nafninu; Ég læt allt fjúka. Í þessum ritsmíðum Ólafs kennir ýmissa grasa, í bland er hann að segja frá því sem gerist og gerir það svo vel að umhverfið sprettur beinlínis bráðlífandi undan penna hans og á hinn bóginn er hann að lýsa hugsunum sínum og þroskaferli.

Það er mjög margt hægt að skoða og fræðast um í skrifum Ólafs, ekki síst opnar hann með skrifum sínum lesanda innsýn inn í þetta tímabil, hann er nefnilega að lýsa daglegu lífi og setur sig hreint ekki í neinar sparistellingar. Aðstæður og umhverfi er kallað til á þann eðlilega hátt sem frásagnir af hversdagslegum athöfnum kalla á. Skoðanir sínar er hann líka óhræddur við að trúa dagbókinni fyrir. Það er því af mörgu að taka, en í þessari grein langar mig til þess að fjalla lítillega um sýn hans og skólafélaga hans á konur - eins og hún kemur fram í dagbókarbrotunum..

Lærði skólinn var karlaríki

Í lærða skólanum í Reykjavík var algert karlaríki þegar Ólafur Davíðsson stundaði þar nám á árunum 1877 til 1882 - er hann tekur stúdentspróf. Eftir það lá leið hans til Kaupmannahafnar þar sem hann um árabil stundaði nám í náttúrufræði og varð margfróður í flestum greinum þjóðlegra fræða. Hann hvarf þó heim próflaus 1895.

Ólafur var fimmtán ára þegar hann kom til náms við lærða skólann. Með honum voru í námi margir þjóðfrægir menn, svo sem Bogi Th. Melsteð sagnfræðingur, dr. Jón Þorkelsson þjóðskjalavörður, Sigurður Thoroddsen fyrsti íslenski verkfræðingurinn og Níels R. Finsen, sem varð frægur læknir. Bestu vinir Ólafs voru m .a. Ólafur og Geir Sæmundssynir frá Hraungerði, sem báðir urðu prestar, Gísli Guðmundsson frá Bollastöðum, og svo Brynjólfur Kúld, sem var mikill vinur Ólafs. Hann var sonur Eiríks og Þuríðar Kúld, þau eignuðust á annan tug barna en misstu þau öll í æsku nema Brynjólf og dótturina Jóhönnu. Jóhanna dó vanfær að sínu fyrsta barni ung að árum en það átti fyrir Brynjólfi að liggja að verða mikill óreglumaður og dó hann á fertugsaldri allslaus og orðinn hálfgerður útigangsmaður. Ólafur varð heldur ekki langlífur, dó árið 1903 fjörutíu og eins árs að aldri. En sem betur fór vissu þeir félagar ekki hve skammlífir þeir yrðu þegar þeir voru að spásséra um götur Reykjavíkur á skólaárum sínum og ræða um sjálfa sig og skoðanir sínar á hinum ýmsu málefnum sem tengdust bæjarlífinu, skólann, félögunum og reykvískum blómarósum þess tíma.

Það er þó svei mér notandi...

Árið 1882 eru skólasveinar í lærða skólanum 128, Ólafur er í fæði í Þerney hjá Gróu nokkurri Oddsdóttur en er að öðru leyti sjálfs sín. Þann 25. marz rakar Ólafur sig sjálfur með hálfum huga enda óvanur skeggrakstri en nú dugar ekki annað en fara að flikka upp á útlitið því senn stendur til að halda árlegan dansleik skólans. Þremur dögum seinna horfir Ólafur á dansæfingu. "Fjandi er það leiðinlegt, að ég skuli ekki kunna að dansa. Það er þó svei mér notandi að líða með blessuðum elskunum yfir gólfið eða himininn, því ég er viss um, að mér fyndist ég vera kominn upp í 7. himin, ef ég héldu utan um fagra meyju með höndunum og léti náttúrlega hugann vera einhvers staðar nærri henni",segir hann á eftir í dagbókinni. Þann 11. apríl var svo dansleikurinn haldinn sem hinir dansleiknu vinir Ólafs voru að æfa sig fyrir. "Ég dansa ekki og er ekki vel inni í dansteknik, svo ég get ekki almennilega sagt hvernig dansinn gekk," segir hann. Ekki vantaði þó að Ólafur virti fyrir sér dansfólkið - ekki síst stúlkurnar. "Mér finnst annars að kvenfólkið missi mikið af yndisljóma þeim, sem á að hvíla yfir því , þegar vér lítum á það úr lítilli fjarlægð. Þá hljótum vér að sjá, hve fegurð þess er ófullkomin, og oss hlýtur að stökkva hæðnisbros, er vér rifjum upp fyrir oss hinar ljúffengu lostætu lygaklausur, sem skáldin hafa látið og láta rigna ofan yfir það. Ég tala einungis í líkamlegu tilliti. Aftur fer því stórum fram, er vér lítum á það úr fjarska eða nánd, er vér skoðum það í huga vorum eða snertum. Karlmaðurinn, sveinninn getur víst ekki bundist þess, að hafa einhverja óljósa hlýleika tilfinningu fyrir kvenfólkinu,"skrifar Ólafur að ballinu loknu.

Ætli ég leyfi nafna það?

Og Ólafur heldur áfram að ganga úti með vinum sínum og ræða um kvenfólk og kvennafar, milli þess sem hinir ungu og upprennandi menn reykja einn og einn vindil sem þeir aura saman fyrir og borða vanillukransa sem þeim þykja lostæti mikið en eru svo "fjandi dýrir". Eitt kvöldið gekk Ólafur með nafna sínum Sæmundssyni síðar presti upp að Skólavörðu og heim til hans á eftir. "Ólafur sagði, að ég hefði lofað sér því, að hann mætti kyssa konuna mína, NB ef hún yrði nokkur. Ég mundi ekki eftir því en ég sagði að ég mundi leyfa honum það, ef ég væri eins skapi farinn, þegar ég er giftur og ég er nú. Ætli ég verði það? Ætli ég leyfi nafna það?

Aldrei kom til þess að að á þetta loforð reyndi því Ólafur Davíðsson giftist aldrei og eignaðist engin börn.

Nektin verður þeim skólafélögum að umræðuefni vorið 1882. "Við Brynjólfur töluðum um, að hve miklu leyti og hvers vegna maður yrði sérneraður þegar kvenfólk sæi mann beran, eða lítt klæddan.Brynjólfur Kúld sagði skólabræðurm sínum lífsreynslusögu þessu tengt: Hann kom heim til sín um kvöld og uggði ekki að sér. Hann gekk inn um bakdyrnar og ætlaði inn í daglegu stofuna. Brynjólfur var vanur að ganga hægt. Svo var enn. Dyrnar að daglegu stofunni, þær vissu að bakdyrnunum, voru hálfopnar og lagði glampa út um þær. Hvað sér Brynjólfur, þegar hann kemur í dyrnar? Frökenarnar Friðriksen voru þar fyrir og ekki sem best fallnar til að láta sjá sig, því ein þeirra var einungis í skyrtu, en ein var alls ber. Þær sáu ekki Brynjólf til allrar hamingju, enda brá hann sér á burt sem snarast.

Sjódónar og dömur

Skömmu síðar brá Ólafur sér á söng hjá Hörpumönnum. Þarna var margt karla og kvenna. "Það er ég viss um að sá væri ríkur maður, sem ætti eins margar krónur og blik þau voru, er þar voru gefin. Það var líka ómögulegt annað en gefa blik, þarna var ómögulegt að þverfóta fyrir kvenfólki. Það rakst á mann og maður mátti til að reka sig á það etc. Maður mátti til að líta vandlega á það, er það gekk fram hjá manni. Ég hugsaði margt skrítilegt út af þessum mannmúg. Gaman væri, ef allt fólkið færi í skollaleik, á því sviði sem það er á, en sú hugsun endar ekki fallega, ef hún er þrædd út í æsar. Það hlýtur að detta hrönnum saman í þrengslunum, og það sér hver heilvita maður, að ekki fer vel á því, að herrar og griðkur, sjódónar og dömur kútveltast hvað innan um annað á götunni. Margt slíkt hugsaði ég," skrifar Ólafur í dagbókina sína. Nokkru síðar skrifar hann að mátulegt væri fyrir hann að vera 5 ár á háskólanum og vera svo 5 ár á ferðum og ævintýrum. "Þá væri ég þrítugur, og þá væri mátulegt fyrir mig að giftast ets..."

Eftir því spjallast hún meira

Þann 9. maí 1882 áttu þeir Ólafur og Brynjólfur Kúld innvirðulegt samtal um hvað það væri að forfæra: "Ég hugði að sá "forfærði sem færi þess á flot við ó-konu sína, að hafa við sig holdlegt samræði, hvort sem hún væri tigin eða ótigin, en Brynjólfur hugði, að sá einn forfærði, sem færi þess á flot við konu, er áður væri óspjölluð. Nei, sagði ég, því hvað veit hann, hvort konan er spjölluð eða óspjölluð, er hann falar hana. Eftir því sem kona á oftar samræði við menn, eftir því spjallast hún meira og eftir því verður erfiðara fyrir hana að bæta ráð sitt." Þetta kvöld háttaði Ólafur kl. 11.45 dauðlúinn í fótunum. Bað og sofnaði."

Margar griðkonur heiðarlegar

Þann 11. maí hlustar Ólafur á söng í kvennaskólanum. "Ég sat niðri í stofu og gat ekki einu sinni horft framan í söngmeyjarnar fyrir mannmúgnum, sem fyllti söngsalinn og söngsalsdyrnar. Það hefði þó verið nokkuð fyrir mig, fysiógnóminn sem er svo interessaður fyrir öllu, er snertir kvenfólkið," segir Ólafur. Hann gekk út með vinum sínum eftir sönginn. "Ég taldi upp fyrir þeim þær ógiftu stúlkur, er ég tæki ofan fyrir hér í bænum. Þær voru milli 10 og 20." Vinur Ólafs kvaðst taka ofan fyrir öllum sæmilega búnum stúlkum, hvort sem þær væru griðkur eða griðkur ekki. "Hver veit annars nema þessar fínu frökenar séu verri og spilltari en margar griðkur í raun réttri. Það er annars ekki rétt að nefna óheiðarlega og illa kvenkosti griðkur, því að margar griðkonur, vinnukonur, eru heiðarlegar og góðar stúlkur," segir Ólafur.

Sama kvöld átti Ólafur í enn einu samtalinu við vin sinn Brynjólf Kúld. "Við Brynjólfur töluðum um ýmislegt. Hvort maður mundi vilja ganga að eiga stúlku, sem maður elskaði, ef maður væri viss um að hún elskaði mann ekki. Brynjólfur var á því. Mér fannst það vera komið undir því, hvernig stúlkan væri sköpuð (skap)." Ólafur kvartar um litla reynslu á þessu sviði. "Brynjólfur sagði að mér væri óhætt að vera viss um það, að ég myndi elska áður en fjarska langt um liði. Má vera. Að minnsta kosti langar mig til að elska, því að elskulausa manninn vantar fjarska mikið af lífsreynslu, þar sem hann þekkir hvorki "Livets Lysesta Höjder eller mörkeste Dybder."

Langir, teygandi og sjúgandi

Kvöldið eftir er þetta efni enn á dagskrá hjá Ólafi og félögum hans. Þeir velta fyrir sér hvað innileiki við óskylda meyju gæti verið mikill án þess að meyjan spjallaðist eða unnusti hennar hefði ástæðu til að álíta að sér væri óréttur gjör. "Okkur kom saman um það, að koss gjörði ekkert til, og þó fannst okkur báðum að við vildum ekki láta náungann kyssa unnustu vora." Kossarnir eru líka krufðir og Ólafur kemst að þeirri niðurstöðu að kossarnir yrðu vera "langir, teygandi og sjúgandi, ef nokkur nautn ætti að vera í þeim." Þá velta þeir félagar fyrir sér hvort menn hefðu leyfi til að hafa holdlegt samræði við kvenmann, bara í því skyni að fræðast. Ólafur efast en félagi hans, er Gísli hét Brynjúlfsson og varð háskólakennari síðar, áleit að slíkt framferði væri óleyfilegt og vildi meina að "instinktið"gæfi mönnum nokkurn veginn ljósa hugmynd um slíkt. Niðurstaða Gísla var að hann vildi heldur reynsluna en hugboðið ef hann ætti kost á. "var viðræða okkar hin skemmtilegasta að því er mér þótti," segir Ólafur í lok þessa dagbókarpistils.

Verst af öllu að vera kviksettur

Þann 17. maí les Brynjólfur Kúld upp fyrir Ólaf sögu sína Torfi. "Eftir henni er allt spillt hér, karlar og konur. Heiðvirt fólk er undantekning. Brynjólfur þykist hata "koketteri", hverju nafni sem það nefnist, en ég hygg að kurteist og fjörugt samlíf í milli karla og kvenna geti varla átt sér stað án snerts af "koketteríi". Ólafur klykkir út í lokin með þeirri niðurstöðu sinni að "koketterí" eða dufl við stúlkur, í því skyni að tæla þær til eiginorðs eða óleyfilegra ástaratlota sé andstyggilegt.

Í bland við allar þessar umræður um kvenfólk og kvennafar þá eru alls konar umræður aðrar. Eitt kvöldið ræða þeir Ólafur og Hraungerðisbræður ýmsar bana-aðferðir. "Verst af öllu væri að vera kviksettur," segir Ólafur. "Ég minnist sögu sem mamma sagði mér um Valgerði ömmu mína. Hún varð einu sinni alveg eins og liðið lík, köld og hreyfingarlaus og föl, nema vinstri litli fingurinn. Hann var lifandi. Allir héldu að amma væri dáin, og hún var farin að óttast að hún yrði kviksett. En þá færðist allt í einu líf í hana út frá fingrinum." Í lok umræðnanna fóru þeir félagar að þreifa eftir hjartslætti hvers annars. "en oss var ómögulegt að finna hjartað í mér. Vér fundum engan hjartslátt, þótt vér þreifuðum um allt brjóstið og alla hliðina á mér,"skrifar Ólafur.

Útlenda kvenfólkið fegurra

Eftir þetta gerast þeir atburðir að Ólafur siglir út til Kaupmannahafnar til náms og varla er hann farinn að ganga þar um stræti þegar hann tekur að skoða kvenfólkið þar í landi með sama áhuga og stúlkurnar í Reykjavík. "Mér þykir líka útlenda kvenfólkið, sem ég hef séð í Leith og Edinborg og hér, miklum mun fegurra að jafnaði en kvenfólkið heima. Fyrst og fremst ber það sig betur. Það er eins og beinir og himingnævandi turnar í samanburði við moldarkofa, og svo er það fríðara í andliti," segir hann. Nú er Ólafur kominn í framandi umhverfi og tekur þar með að skoða aðstæður íslenskra kvenna öðrum augum en áður var. "Það mundi t.d. þykja ósvinna, ef íslenskir kvenmenn lærðu að synda." Honum vex nú í augum að kvennskólameyjarnar í Reykjavík máttu ekki fara út þá er rökkva tók og hefðu raunar ekki útfararleyfi nema af skornum skammti meðan bjart væri. "Slíkt væri svíviðrileg meðferð og drepandi fyrir meyjarnar sjálfar." Ólafur rifjar í þessu sambandi upp sögu af Valgerði forstöðukonu Kvennaskólans á Laugalandi. "Bókasafn lærimeyjanna eignaðist Verðandi (tímarit gefið út af Hafnarstúdentum). Hún (Valgerður) hefur þann sið, að hún rífur upp úr bókum skólans öll þau blöð, er hún vill að lærimeyjarnar lesi ekki. Svo reif hún alltaf upp úr Verðandi eftir því sem hún las, og seinast var ekki eftir nema tóm kápan."

Student, kom ind

Því miður nutu ýmsar stúlkur í Kaupmannahöfn ekki slíkrar verndar sem hinar íslensku kvennaskólameyjar. Ólafur og Jón nokkur Stefánsson dr. phil gengu fram á ýmislegt sem einkum Ólafi óaði við. "Loksins komum við að Eyjargötu. Það fór einhver hryllingur í gegnum mig, þegar ég kom að rangalanum. Mig hryllti við svívirðingu þeirri, er mannkynið væri sokkið niður í. Þarna stóðu flyðrurnar fyrir dyrum og báðu þá, er um götuna gengu, að koma inn. Ég var með stúdentshúf. "Student, kom ind,"sagði ein þeirra. Þessi orð hlupu í gegnum haus og merg á mér. Þau voru töluð með þýðum og fögrum málrómi, sem sæmdi saklausri stúlku. En hver hafði þennan málróm? Flyðra, opinber kvenmaður, svívirðileg skepna, skömm mannskynsins. Flyðrunar eru reyndar ekki eins mikil skömm fyrir mannfélagið og hið opinbera og lögin, sem neyða ef til vill nokkurn veginn saklausar stúlkur til að verða flyðrur."

Skyldur að segja konuefni sínu frá öllu

Eftir að hafa lesið ritið Höfuðstrauma eftir G. Brandes veltir Ólafur fyrir sér sakleysinu. "Nú dufla landar hér í Höfn, án þess að bera snefil af ást til duflkvenna sinna. Athæfi þeirra er því ekki rétt. Það spillir og stúlkunum, er það kemur niður á. Þó á það sér víst sjaldan stað. Stúlkurnar eru oftast orðnar spilltar áður," skrifar Ólafur. Í lok þess dagbókarpistils segir hann. " En mér finnst, að ef duflmaður vill giftast, þá sé hann skyldur að segja konuefni sínu frá öllu sínu dufli, svo að hún viti, að hverju hún gengur."

Hugmynd að glasafrjógvun?

Eins og fyrr kom fram varð Ólafur Davíðsson smám saman margfróður um hin ýmsu efni, þjóðleg sem náttúrufræðileg. Hann var líka greinilega vísindalega þenkjandi og á undan sinni samtíð á stundum. Í samræðum við landa í Höfn sem snerust um klám á íslensku og dönsku varð eftirfarandi hugmynd Ólafs til: "Mér datt í hug, hvort sæði, er karlinn A. hefði framleitt fyrir utan konuna B., gæti myndað barn hjá henn, ef því væri á einhvern hátt komið í snertingarsamband við egg hennar." Þarna er Ólafur greinilega að brydda upp á glasafrjógvunaraðferðinni. "Þetta þótti félögum mínum dónaleg hugmynd en ég hélt því fram að vísindin þekktu ekki dónaskap," segir Ólafur.

Lífsreglur

Miðvikudaginn 13. nóvember 1882 setti Ólafur sér eftirfarandi lífsreglur: 1. Að fara á fætur á morgnana kl. 7. en hann hafði þá sjaldan risið úr rekkju fyrr en kl. 9) 2. Að rita þessa dagbók dag hvern, þá er ég hef gengið eitthvað mér til hreyfingar og hressingar. 3. Að hafa heilbrigðisleikfimi dag hvern. 4. Að fara að gjöra eitthvað. (Ætli að maður gæti ekki unnið svo sem 11 tíma, hvílt sig 5 og sofið 8. Ég get víst varla unnið lengur augnanna vegna. Annars er ekkert til fyrirstöðu.) 5. Að fara að lesa blöð samfleytt, svo ég viti, hvað gjörist í kringum mig." Ekki veit ég hvernig fór með hinar lífsreglur Ólafs en víst er að önnur lífsreglan entist ekki lengi, dagbókarpistlar hans eru aðeins tveir eftir að þessi regla var sett.

Einrænn og nokkuð þunglyndur

Það kom fram fyrr í þessum skrifum að Ólafur Davíðsson giftist aldrei. Hann er fyrst og fremst þekktur nú fyrir þjóðsagnasöfnun sína sem var mikil að vöxtum. Frænka hans Hulda Á. Stefánsdóttir skólastjóri segir í ævisögu sinni talsvert frá Ólafi, þar kemur fram, eins og reyndar í bréfum til föður hans, að hann var drykkfelldur um of. Hulda telur að hann hafi að eðlisfari verið bæði einrænn og nokkuð þunglyndur.

Fremur bágt að lifa

Eftir að heim kom hélt Ólafur áfram sínum fræði- og söfnunarstörfum. Efnaður varð hann ekki af störfum sínum. Hann sendi eitt sinn skáldkonunni Ólöfu frá Hlöðum þessa vísu, sem hún eignaði honum sjálfum:

Græt ég lágt, en hlæ þó hátt,

hef ei mátt að skrifa.

Nú er fátt um fínan drátt

og fremur bágt að lifa.

Ólafur varð ekki langlífur eins og áður gat. Hann hafði boðið Huldu litlu frænku sinni með sér í fjöruferð en móður hennar þótti of kalt fyrir hana að fara það. Ólafur fór því einn og kom ekki aftur. Hann drukknaði í Hörgá 6. september 1903. Síðasti bærinn sem hann kom við á, áður en hann fór að Hörgá, var Hlaðir í Glæsibæjarhrepppi. Ólöf skáldkona þar var síðasta manneskjan sem hann talaði við í þessu lífi. Hægt var að rekja slóð hans niður að ánni og það voru hófför í háum bakka, þar sem hann hafði farið niður af. Ólafur arfleiddi Huldu litlu frænku sína að jurtasafni sínu og þjóðsagnasafni - það safn hefur haldið nafni hans á lofti fram á þennan dag.