Á fljótsbakkanum gegnt stíflustæðinu við Sandouping reyna karlar að vekja athygli ferðalangs á minjagripum. Í mistrinu er 500 metra breið renna fyrir Yangtze en þar fyrir aftan rís stíflan. Árið 2006 verður veggurinn orðinn á hæð við möstrin milli mannanna
Á fljótsbakkanum gegnt stíflustæðinu við Sandouping reyna karlar að vekja athygli ferðalangs á minjagripum. Í mistrinu er 500 metra breið renna fyrir Yangtze en þar fyrir aftan rís stíflan. Árið 2006 verður veggurinn orðinn á hæð við möstrin milli mannanna
Leiðsögumaðurinn sem fer með mig til Sandouping, þar sem stílan er í byggingu, segir mér að kalla sig Suðurfljót, eða South-river; það sé bein þýðing á nafni hans.

Leiðsögumaðurinn sem fer með mig til Sandouping, þar sem stílan er í byggingu, segir mér að kalla sig Suðurfljót, eða South-river; það sé bein þýðing á nafni hans. Hann talar framúrskarandi ensku og starfaði um skeið sem túlkur fyrir erlenda verkfræðinga við virkjunina. Tengdaforeldrar hans hafa unnið þar frá upphafi, sem og margir aðrir ættingjar hans og vinir. Stærsti hluti verkamannanna er hins vegar tengdur hernum.

Ökumaðurinn okkar er með hvíta hanska og ekur greitt hraðbrautina góðu milli Yichang og Sandouping. Jarðgöng liggja gegnum fjöllin sem mynda austurhlið Gljúfranna þriggja en síðan víkkar fljótsdalurinn og við erum komnir inn á framkvæmdasvæðið. Bændur búa í nýjum húsum í hlíðum, nokkrar fjölskyldur í hverju, ræktaðir skikar með ávaxtatrjám teygja sig upp í fjöllin en neðar strita gröfur og þungavinnuvélar við að leggja vegi um sléttara land. Þar verður framtíðarbyggðin í Sandouping, segir Suðurfljót mér; "um 200.000 manna bær. Og enn einu sinni í þessari ferð ber ég íslensk og kínversk stærðarhlutföll saman í huganum.

Við rennum inn í nýlegt hverfi, með háum húsum og breiðum strætum. "Þetta hverfi var reist fyrir umsjónarmenn framkvæmdanna," segir Suðurfljót. "Hér vinna verkfræðingarnir og skipuleggjendurnir, hér búa þeir einnig með fjölskyldum sínum og hér eru góðar íbúðarblokkir fyrir alla erlendu sérfræðingana.

Við höldum áfram og förum hjá gríðarlega stórum grjótnámum sem ganga langt inn í fjallshlíðar; risaflutningabílar aka í halarófum inn á og út af svæðinu, þeir síðarnefndu með jarðveg á pallinum og stefna að stíflunni. Í námunum eru ótal menn að störfum og risastórar vinnuvélar á ferð. Mengunin, sem Suðurfljót segir mér að sé að hluta vetrarþoka, er ákaflega þykk og útsýnið lítið, varla meira 500 metrar. En þá erum við komnir að sjálfu stíflustæðinu og förum upp á háa hæð, milli stíflunnar sjálfrar og skipastiganna miklu. Þar er móttökumiðstöð fyrir gesti. Stærsti granítskúlptúr landsins segir sögu fljótsins, mikið verk og fagurlega hoggið, og saga Þriggja gljúfra stíflunnar er skráð á risastóran skúlptúr í bókarlíki á kínversku og ensku. Kínverskir ferðalangar, aðallega skólabörn á þessum napra vetrardegi, mynda hvert annað við listaverkin og við nákvæmt líkan af svæðinu eins og það verður þegar stíflan verður fullbúin.

Það er tilkomumikið að svipast um af þessari miklu hæð og virða fyrir sér framkvæmdir mannanna eins og þær gerast umfangsmestar. Til norðurs gefur að líta Yangtze-fljótið, ábúðarmikið og brúnt, þar sem það kemur niður gegnum gljúfrið. Austan megin við hæðina er horft niður á skipastigana sem eru í byggingu. Þetta eru ólýsanlega stórar rennur úr stáli og steypu sem búið er að koma fyrir innan í hæð sem rist hefur verið í tvennt; hópar vekamanna hér og þar eins og litlir maurar. Lengra til austurs rísa hæðirnar með námunum og á milli byggingar, rafmagnslínur, efnishaugar, farartæki á ferð. Til suðurs sést fljótið renna burt, neðri hluti skipastiganna og gríðarmikil hæð sem verður fjarlægð til að opna stigana. Alls staðar eru líka menn að bisa og bardúsa, byggingar og framkvæmdir. Til vesturs teygir stíflusvæðið sig síðan út í fljótið. Næst eru háir turnar, þar sem skipalyftan verður, prýddir skiltum með nöfnum alþjóðlegra fyrirtækja sem framleiða tæki og búnað í stífluna. Síðan hverfur stífluveggurinn, með öllu því raski sem honum tilheyrir út í gráa móðuna; mengun byrgir sýn til suðurbakka fljótsins þótt hann sé ekki nema í rúmlega tveggja km fjarlægð. Það gengur mikið á þarna fyrir neðan mig, látlaus dynur vélarhljóða, skellir og brestir. Stíflan hefur fyrst verið grafin niður í jörðina einhverja tugi metra; hér skiptir styrkur og festa öllu máli; mótstaðan við allt þetta vatn sem mun leggjast á vegginn, en nú er hún tekin að rísa upp af yfirborðinu og eftir nokkur ár gnæfir hún í 186 metra hæð.

Ég sótti árangurslaust um að fá að skoða mig um inni á svæðinu, fæ þó að fara heldur nær og litast um af útsýnispalli við skipalyftuna. Framkvæmdasvæðið sjálft er svo umfangsmikið og allt svo stórt að nánast er ógjörningur að lýsa því. Enda er þetta mesta framkvæmd í Kína síðan Kínamúrinn var reistur; mesta mannvirki sem byrjað er að reisa á tuttugustu öld! Við ökum yfir splunkunýja, stóra hengibrú, á suðurbakkann og nemum staðar í vegarkantinum og horfum yfir á framkvæmdirnar. Nokkrir gamlir menn reyna að vekja athygli á minjagripum sem þeir eru að selja og bakvið þá sigla ferjur eftir hálfs kílómetra breiðri rennunni sem enn er opin fyrir fljótið að renna óheft um.

"Þetta er stórkostlegt afrek," segir Suðurfljót dreyminn. "Stíflan mun breyta svo miklu fyrir mannlífið á þessu svæði. Við fáum svo miklu meiri orku; vissirðu að stjórnvöld hafa á síðustu árum hvatt fólkið hér til að eyða meira rafmagni til að venja það við? Fólkinu hefur fjölgað mikið kringum stífluna, en það er líka vegna þeirra sem hafa verið fluttir til. Reyndar er atvinnuleysi orðið svolítið vandamál í Yichang. Yfirvöld reyna að leysa það með því að búa til störf við gatnahreinsun og þvílíkt. En þetta eru vandamál sem við þekktum ekki áður; þetta fylgir samkeppninni og breyttu viðskipaumhverfi."

Suðurfljót segist hafa það ágætt sjálfur, það sé mikið að gera í ferðaleiðsögn og svo sé eiginkona hans læknir; vinni við að greina kyn í fóstrum. Þau eiga einn son, "hann er frekar ódæll, dekurkrakki," segir Suðurfljót brosandi. "En veistu, ég kem úr sveit, héðan ofan úr fjöllunum og eldri bróðir minn tók við jörðinni, ræktar ýmislegt og hann hefur það miklu betra en við þótt hann sé bóndi. Bóndinn er líka svo öruggur, þessar hagsveiflur hafa ekki áhrif á hann, hann er sjálfum sér nægur."

En Suðurfljóti er líklega ekki kunnugt um skoðanakönnun sem birt var í kínversku blöðunum viku fyrr, og snerist einmitt um afstöðu landsmanna til breytinganna á kínversku samfélagi. Þar kom fram að einungis 2% kínverska foreldra vilja að börnin sín leggi fyrir sig landbúnaðarstörf, í því sé ekki framtíð. Einhverjir verða að leggja okkur til matinn, við verðum að skoða þetta og breyta hugmyndum fólks, sögðu talsmenn stjórnvalda. En fólkið horfir á uppganginn í borgunum, á efnuðu yfirstéttina sem er í mesta lagi 5% landsmanna, sem eru þó 60 milljónir. Fólkið sér peninga verða til, rafmagn og aðra möguleika, það sér að gamlir draumar eins og stífla í Gljúfrunum þremur, geta ræst. Kína og Kínverjarnir, sem eru komnir yfir 1.200 milljónir, eru á hraðri leið inn í nýja tíma og engin leið að snúa þeirri þróun við.