[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar þriggja hæða ferjan, með þremur farrýmum, tveimur matsölum og karókíbar, með útsýni fram fyrir stefnið, leggst loks að bryggjuprammanum í Chongqing streyma farþegarnir um borð og finna káetur sína og kojur.

Þegar þriggja hæða ferjan, með þremur farrýmum, tveimur matsölum og karókíbar, með útsýni fram fyrir stefnið, leggst loks að bryggjuprammanum í Chongqing streyma farþegarnir um borð og finna káetur sína og kojur. Kippum af lifandi hænum, stórum svínakjötsbitum og kálhausum er snarað inn fyrir borðstokkinn - svo er siglt af stað niður Yangtze.

Af fljótinu andar nístandi kulda, enda hávetur í Mið-Kína. Fáir úti við á ferjunni en engu að síður heillandi að standa frammá eða í skjólinu afturá, hjá fánanum svarta sem eitt sinn var rauður og enn mótar fyrir gylltum stjörnum; horfa á landið síga hjá. Mikið er af verksmiðjum og iðnaðarmannvirkjum fyrir austan Chongqing en í húminu má sjá að smám saman taka við ræktarlönd í bröttum hlíðum.

Á fljótinu gefur að líta hvers konar fleytur. Þessar stóru ferjur eru áberandi en einnig reykspúandi svifnökkvar, bátar sem flytja fólk og skólabörn stuttar vegalengdir, smábátar fiskimanna og prammar sem dráttarbátar aðstoða gjarnan við að puða gegn straumnum. En svo leggst myrkrið yfir, siglt er eftir baujum og köld káeta bíður farþeganna.

Fyrir birtingu næsta dag stend ég einn í kolniðamyrkri efst í bröttum steintröppum fyrir ofan fljótið í borginni Fengdu; heimkynnum drauganna. Í myrkrinu nálgast lúðurhljómar og í flassljósi myndavélarinnar sé ég nokkra blásara, göngumenn og vörubíl; svo fara hljóðin hjá og myrkrið virðist þéttast.

Ég geng eftir þröngum götum og fólkinu fer fjölgandi, ljós kvikna hjá götusölum og tekið er að saxa kjöt og sjóða núðlur. Smábílar flauta og konur þjarka um verð á hænum; snúa síðan heim berandi lifandi fiðurféð á löppunum.

Fengdu er ein þeirra borga sem fara hvað verst út úr stíflugerðinni; meirihluti hennar hverfur. Vatnsborðið verður rétt fyrir neðan frægt musteri drauganna á hárri hæð, göturnar sem ég geng um þennan milda morgun verða eftir nokkur ár komnar á kaf. Verið er að byggja ný hverfi ofar; stórar blokkir, rúnar anda gömlu hverfanna. Svona er saga þeirra byggða sem við siglum hjá þessa daga. Hverfin næst yfirborði fljótsins eru þegar komin í niðurníðslu, fólkið stundum farið, enda til hvers að halda því við sem verður fljótlega sökkt? Ofar standa í bröttum hlíðum ljósmáluð ferköntuð háhýsi.

Meðfram fljótinu eru víða klappir, sorfnar af þúsunda ára rennsli vatnsins. Á þær, sem og berar fjallshlíðar og kletta, er víða búið að mála metramál sem sýnir hvað vatnið mun hækka. Þannig er auðvelt að sjá hvað fer undir og hvað sleppur.

Yangtze er lífæðin. Úr því er fiskurinn dreginn, konur þvo þvotta við vatnsborðið, börn eru að leik, karlar sækja sand á eyrar, vatni er dælt upp á gróðurlundi. Húsin standa í brekkum og hlíðum, ofan við flæðilínu venjubundins sumarstreymis. Á hæðum eru fallegir turnar, pagódur, stundum ævaforn bænahús.

Næsti viðkomustaður ferjunnar á eftir Fengdu er einmitt Shibaozhai, sem mætti útleggja sem Virki dýrmæta steinsins. Þar eru utaná og ofaná 120 metra háum kletti byggingar sem eru taldar meðal gersema kínveskrar byggingarlistar. Ég geng ásamt kínverskum samferðamönnum upp gegnum þorp, þar sem borð minjagripasala eru með öllum húsveggjum, og að hliðinu að musterinu á klettinum. Það er skreytt með myndum af dreka sem er fornt tákn Yangtze. Musterið var byggt snemma á átjándu öld og til að komast þangað þurftu munkarnir að lesa sig upp eftir keðju utan á klettinum. Árið 1819 var síðan byggt ellefu hæða stigahús utan á klettinn; ákaflega fögur bygging og ríkulega skreytt. Ofan af klettinum er tignarlegt útsýni yfir fljótið langt fyrir neðan, og þorp og sveitir umhverfis. Í kyrrðinni berst hanagal hingað upp og langt inn í land má sjá ræktaða græna stalla á milli húsa. Þegar lónið rís verður Shibaozhai eyja; landið og byggðirnar á stóru svæði í kring fara á kaf.

Í síðdeginu öslar ferjan áfram niður fljótið, um opnara land og ræktarlegra, með ótal þorpum og bændabýlum. Borgir birtast af og til og Wanxian er ein þeirra, hulin þykkari mengunarbrælu en ég hef séð á byggðu bóli. Meginhluti hennar fer undir vatn og hvergi þurfa fleiri að flytja en einmitt þar, meira en hálf milljón manna.

Þegar kvöldar er kveikt á karókíkerfinu og kínverskir farþegar á fyrsta og öðru farrými drekka þar te og syngja angurværa poppsöngva; bassinn styrktur af drunum vélarinnar þremur hæðum neðar. Í húminu sést landið hækka umhverfis, fjöllin verða hvassari og svo rennur skipið inn í hið fyrsta Gljúfranna þriggja.

Gljúfrin eru samtals um 210 kílómetra löng, breiðust um 300 metrar en þrengst tæplega 100. Í þeim getur munurinn á hæð vatnsyfirborðsins verið um 50 metrar yfir árið. Fyrsta gljúfrið, Qutang, er langstyst, aðeins um 8 km, en hér rennur vatnið hraðast. Ljósbaujur marka leiðina milli hárra fjallshlíðanna.

Hver máltíð við Yangtze var sem lítil veisla, þótt framreidd værri af götusölum, ef undan er skilinn morgunverðurinn í birtingu á ferjunni í Wushan: brimsaltir soðnir grænmetisstrimlar, gufusoðin brauðbolla og ristaðar salthnetur. Kex úr einkabirgðunum kom þá að góðum notum, því ferðinni var heitið í átta stunda skoðunarferð upp þverána Daning; að skoða Minni gljúfrin þrjú.

Þessi litlu systkini stóru gljúfranna eru um sextíu kílómetra löng og ramma inn forna þjóðleið eftir kristaltærri á. Svæðið, sem var fyrst opnað fyrir erlendum ferðalöngum fyrir fimmtán árum, þykir óspillt og er sérstaklega fallegt. Ég sigldi á flatbotna pramma með hópi Kínverja. Landsmenn eru þekktir fyrir vandaðan klæðaburð og eins var með ferðafélagana, jakkaföt og blankskór, tveir í fínum maófötum. Ég einn var í skjólgóðri úlpu og kuldinn beit mig ekki eins og hina; því fékk ég að sitja frammá. Stýrimaðurinn er aftast á þessum vatnafleytum en frammi eru menn með langa bambusstjaka með járnoddi, sem þeir þurfa að leggjast á til að ýta fleytunni yfir verstu flúðirnar því áin er víða mjög grunn og bátinn tekur niðri af og til. Þá þurftu farþegarnir nokkrum sinnum að fara í land og ganga fyrir mestu grynningarnir meðan tómir bátar puðuðu áfram.

Gljúfurveggirnir eru víða gífurlega brattir, minna helst á Dimmugljúfur við Kárahnjúka, nema hér var vatnið kyrrara. Þykk gróðurþekja er í hlíðum og svæðið rómað fyrir sjaldgæfar rætur og lækningajurtir. Apar sveifluðu sér milli trjáa og yfir öllu, hátt fyrir ofan ferðalangana birtist hver fjallstindurinn af öðrum og allir bera þeir nöfn sem sótt eru í líkingar við menn, skepnur eða guði: Níu-dreka-súla, Álfur-hendir-silkibolta, Guð-situr-á-lótusblaði. Nokkrir farþega- og vörubátar voru að puða upp strauminn þennan bjarta en svala dag. Í gljúfurveggjunum, langt yfir höfði okkar mátti sjá reglulega röð af holum í berginu, ummerki um veg úr timbri sem var byggður á miðöldum utaná klettunum, verkfræðilegt afrek sem her keisarans eyddi á 18. öld þar sem vegurinn var nýttur af uppreisnarmönnum á leið niður úr fjöllunum.

Á milli þröngu gljúfranna víkkaði landið og varð ræktanlegt, með bændabýlum, þorpum og tilheyrandi mannlífi. Ofar hvítbryddaðir fjallsranar; það hafði snjóað um nóttina. Á eyrum mátti sjá fólk binda upp hey og ganga frá súrsuðu grænmeti í miklar leirkrukkur. Og við flúðir, þar sem báturinn fór hægt yfir birtust börn og þau voru greinilega búin að átta sig á því hvernig mætti betla fé af ferðamönnum. Þau óðu berlæruð út í strauminn, og sveifluðu inn fyrir borðstokkinn löngum bambusstöngum með litlum netpoka á endanum sem ferðamennirnir settu smápeninga í. Börnin hlupu síðan með skrækjum og hlátrasköllum lengra upp með ánni, og komu sér fyrir þar sem þau næðu aftur til bátsins. Óneitanlega snjallt hjá þeim og þetta geta þau stundað í nokkur ár til viðbótar, eða þar til stíflan færir heimkynni þeirra og mikil ræktarlönd á kaf.

Þegar aftur var komið niður að Yangtze, til Wushan, sigldi ferjan af stað inn um þröngt skarð sem eins og lokaðist að baki henni; við vorum komin inn í miðgljúfrið, kennt við nornir; Wu Xia. Wu Xia er um 40 km langt og björgin til beggja handa svo brött að sólin nær varla að skína þar niður. Fjallstindarnir 12 á leiðinni eru rómaðir fyrir fegurð. Hér er farvegur Yangtze hlykkjóttur og stundum eins og fjöll loki leiðinni.

Í hlíðunum liggur ævaforn og þröngur vegur, sem breytist í úthoggna rás í klettaveggjum, varla meira en einn og hálfan metra á hæð á köflum. Þetta er slóði mannanna sem um aldir drógu stóra báta sem litla upp á móti straumnum í gegnum gljúfrin; sagt er að um síðustu aldamót hafi allt að hálf milljón manna unnið við þennan drátt. Öll þessi ummerki munu hverfa undir lónið. Þar sem hlíðarnar eru ekki eins brattar og þar sem gróður þrífst, eru víða ræktaðir stallar, og hvítmáluð hús standa á milli þeirra hátt í hlíðum. Þarna er ræktað korn og ávextir; epli, ferskjur, aprikósur og heslihnetur.

Þegar komið er út úr Wu Xia breikkar landið aftur um tíma, áður en siglt er inn í síðasta gljúfrið, Xiling. Búið er að kveikja á karókíkerfinu og nú er farþegum seldur aðgangur að salnum. Það er dregið frá gluggum og fólk situr og horfir á hamraveggina og fjöllin líða hjá, á fljótinu eru ferjur og fraktarar. Af og til stinga hjón sér út á pallinn frammi á stefni og taka mynd hvort af öðru; hvass og nístandi kaldur vindur þeytir skyggnishúfu af manni og út í fljótið. Eftir það er ég einn um að fara frammá.

Það er byrjað að skyggja þegar við brunum inn í Xiling-gljúfrið, sem er 76 km langt. Það er hið lengsta þeirra og hefur gegnum tíðina jafnframt verið hið hættulegasta fyrir umferð, með hringiðum, stríðum straumi og sogi, og áður fyrr voru þar hættulegustu flúðirnar. Þær hafa nú verið sprengdar burtu fyrir löngu. En sökum myrkurs sáum við bara fyrsta hluta gljúfursins; siglingaljós baujanna vísuðu leiðina og af og til ómuðu holtóna baul skipanna milli hamraveggjanna.

Síðar um kvöldið birtir óvænt yfir fljótinu. Rafljósamökkur framundan og við líðum hjá miklum steinsteyptum veggjum, þar sem byggingarkranar sveiflast til og tröllvaxnir vörubílar puða eftir vegum. Við erum við Sandouping, undir Þriggja gljúfra stíflunni miklu. Rennum eftir rásinni sunnar við framkvæmdasvæðið, þar sem verður lokað fyir árið 2006 og seinni hluti orkuversins rís. Þarna er komin mikil og ný byggð á bökkunum, og siglt undir gríðarmikla nýja brú. Stórt svæði er merkt framkvæmdunum, enda starfa þar 25.000 manns á vöktum allan sólarhringinn, og fyrir neðan stíflu er búið að leggja drög að 200.000 manna "bæ", eins og leiðsögumaður átti eftir að benda mér á nokkrum dögum síðar. Fyrir neðan Sandouping róaðist fljótið og mannabyggð á öllum bökkum, enda komin önnur stífla þar fyrir neðan, þar förum við með ferjunni niður gríðarmikinn skipastiga.

Gezhouba-stíflan er rennslisvirkjun, sú fyrsta sem lokaði fyrir Yangtze; eins konar æfing fyrir risastífluna 40 km ofar. Gezhouba er rúmlega 20 metra há og þurfa öll skip að fara um annan tveggja mikilla stiga. Við fórum í þann minni, þar sem vatnið féll um 24 metra á nokkrum mínútum. Stærri stiginn tekur allt að átta stórar ferjur í einu; mikið og máttugt mannvirki. Í dag er Gezhouba mesta virkjun í Kína, með 21 túrbínu og framleiðir 2.700 megavött af rafmagni. Hún stendur við borgina Yichang sem um aldir var eins konar hlið að Gljúfrunum þremur. Við Yichang var farmur stórra skipa sem komu austan frá Wuhan, eða alla leið frá hafi, fluttur í minni báta sem voru dregnir upp gljúfrin.

Yichang hefur blásið út á síðustu árum vegna framkvæmdanna við stífluna. Miklir peningar hafa flætt til svæðisins og uppbyggingin er mikil. Hraðbraut hefur verið þrædd gegnum fjöllin til stíflustæðisins, með fjölda jarðganga á leiðinni og þar á meðal tveimur þeim lengstu í Kína. Nýr flugvöllur hefur verið byggður og bíður ferðamannanna sem eiga að flæða yfir þegar stíflan verður tilbúin og fólk getur farið að skoða undrið. Ég byrja á að skoða skipastigana miklu við Gezhouba; stend uppi á þeim og sé skipin rísa til mín á ótrúlega skömmum tíma, og rýni síðan út í vetrar- og mengunarþokuna sem liggur yfir fljótinu og sé hina miklu stíflu teygja sig yfir það. Frá skipastigunum geng ég áleiðis út á stífluna, skil ekki táknin á skiltunum við hlið sem ég fer um, og er síðan stöðvaður af tveimur óðamála mönnum sem snúa mér við á veginum sem liggur eftir stíflugarðinum. Er bent að fara niður brekku og þar horfa þungvopnaðir verðir undrandi á mig; ég hef greinilega verið á bannsvæði.

Geng síðan inn í háhýsahverfi í byggingu og aftur niður að fljóti neðan stíflunnar. Sest niður milli örsmárra grænmetisskika sem búið er að koma fyrir á steyptum fljótsbakkanum; gamall maður vökvar reitinn sinn með fötu sem hann sekkur í skólprennu. Geng síðan áfram niður með straumnum, milli verksmiðja og fjölbýlishúsa, það er vetrarslabb á götum og ferðir mínar vekja athygli; að lokum er útskýrt fyrir mér að ferðamönnum sé meinaður aðgangur að þessu hverfi svo nærri virkjuninni.