Jason Priestly
Jason Priestly
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KONA nokkur í Svíþjóð er grunuð um að hafa pantað leigumorðingja í gegnum Netið til að koma eiginmanni sínum fyrir kattarnef. Þar með er ekki öll sagan sögð því hún mun hafa boðist til að borga greiðann með blíðu.

KONA nokkur í Svíþjóð er grunuð um að hafa pantað leigumorðingja í gegnum Netið til að koma eiginmanni sínum fyrir kattarnef. Þar með er ekki öll sagan sögð því hún mun hafa boðist til að borga greiðann með blíðu. Lögregla í Bandaríkjunum hafði samband við sænsk yfirvöld er hún kom auga á auglýsingu á heimasíðu konunnar. Konan sem er 42 ára að aldri óskaði eftir sjálfboðaliða til að hrinda eiginmanni sínum í veg fyrir lest og bauðst til að borga með blíðu sinni í staðinn. Hún er nú yfirheyrð af lögreglu og gæti verið dæmd í fangelsi til margra ára.

Priestley fluttur til London

Leikarinn Jason Priestly sem lék í þáttunum Beverly Hills 90210 er fluttur til London. Þar mun hann feta í fótspor annarra stjarna úr Hollywood og spreyta sig á sviðinu á West End. Leikritið kallast Side Man og er sýnt í Apollo-leikhúsinu. Hann lék á sviði áður en hann fór í sjónvarpið en hefur ekki komið á fjalirnar í heilan áratug. Hann mun leika aðalpersónuna í verkinu sem er djass-tónlistarmaður á barmi taugaáfalls.

Hundar eru líkir börnum

Eftir þúsunda ára þróun hefur besti vinur mannsins, hundurinn, þróast út í það að verða einn af fjölskyldunni samkvæmt grein í tímaritinu New Scientist. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar í Búdapest er greinilegt að hundar tengjast eigendum sínum á sama hátt og börn tengjast foreldrum sínum. "Líkt og smábörn eru mismikið háð og tengd foreldrum sínum eru hundar mismikið tengdir eigendum sínum," sagði Adam Miklosi við Lorand Háskólann í Búdapest. Samkvæmt könnuninni eru börn tilbúin að kanna nýtt umhverfi ef móðir þeirra er nærstödd en verða miður sín ef hún fer og það sama má segja um hunda og eigendur þeirra.

Santana fær sitt eigið torg

Í AUTLAN de Navarro, fæðingarstað mexíkóska tónlistarmannsins Carlos Santana, er fyrirhugað að gera styttu af honum og koma henni fyrir á torgi sem helgað verður honum. Einnig verður gata í bænum nefnd eftir honum. Santana flutti ungur að árum til Bandaríkjanna þar sem hann hóf tónlistarferil sinn sem spannar nú um 30 ár. Í heimabænum búa um 80 þúsund manns og eru allir spenntir yfir byggingu torgs til heiðurs honum.