Bílar og fólk voru í aðalhlutverki á sýningunni í Genf sem nú er haldin í 70. sinn. Frá upphafi hafa um 25 milljónir manna sótt sýninguna.
Bílar og fólk voru í aðalhlutverki á sýningunni í Genf sem nú er haldin í 70. sinn. Frá upphafi hafa um 25 milljónir manna sótt sýninguna.
NÝJUNGAR á alþjóðlegu bílasýningunni sem nú stendur í Genf eru nokkrar eins og áður og ef allt er talið eru þær kringum 100, þ.e. bæði nýir bílar, endurbætur og andlitslyftingar.

NÝJUNGAR á alþjóðlegu bílasýningunni sem nú stendur í Genf eru nokkrar eins og áður og ef allt er talið eru þær kringum 100, þ.e. bæði nýir bílar, endurbætur og andlitslyftingar. Má helst nefna nýjan Mitsubishi Pajero, nýtt útlit á fjölnotabílnum Galaxy frá Ford, endurnýjaðan Opel Omega með V8 vél, hugmyndabíl frá Saab svo eitthvað sé nefnt.

Sé aðeins nefnt það sem nú er frumsýnt í Evrópu eru það til dæmis nýr Stratus lúxusbíll frá Chrysler, fjölnotabíll frá Daewoo, Tribute sem er fjölnotasportbíll frá Mazda og Zafira frá Opel sem nú er líka aldrifsbíll.

Eins og áður sýna helstu framleiðendur heimsins þarna framleiðslu sína, aðallega bílaframleiðendur en líka fjölmargir sem bjóða fylgihluti og annað sem tilheyrir, alls 900 vörumerki 275 sýnenda frá 35 löndum.

Ekkert eitt skar sig úr í Genf að þessu sinni, engin ein lína réð ríkjum heldur var allt mögulegt þar að finna. Framleiðendur sýna hugmyndir, setja fram upplýsingar um rannsóknir sínar á öðrum orkugjöfum en bensíni sem þeir segja margir að verði komnir almennt í bíla á næstu fjórum til átta árum og fleira í þeim dúr.

Þegar fulltrúar þeirra eru spurðir um frekari sameiningar og samstarf gerast þeir íbyggnir á svip og segja ekkert nýtt í þeim málum en á síðari árum er talið að margar hugmyndir á þessu sviði kvikni einmitt í Genf. Þar eru allir í þessari iðngrein saman komnir og allir geta spjallað við alla og verið opnir fyrir hvaða hugmynd sem er. Hvað úr því verður er síðan allt annað mál.