Skógarþröstur
Skógarþröstur
Mannsævinni er gjarnan líkt við ferðalag, þótt menn greini á um, hvert ferðinni sé heitið. Stefán Friðbjarnarson staldrar við þessa líkingu með viðkomu í skáldsögunni Slóð fiðrildanna.

ÞAÐ eru ár og dagar síðan pistlahöfundur hefur lesið betri skáldsögu en "Slóð fiðrildanna" eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Bókin hefst á þessum orðum: "Ég er að búast til brottfarar." Það er sögumaður bókarinnar, Ásdís Jónsdóttir, sem talar. Hún er fædd á Kópaskeri, í litlu kauptúni á ströndu hins yzta hafs, en rekur, komin til vits og ára, sveitahótel í Englandi. Bókin lýsir forvitnilegri persónu og fléttar íslenzk örlög inn í sögu Evrópu á tímum heimsstyrjaldar og öfga.

"Ég er að búast til brottfarar" eru upphafsorðin. Lokaorðin minna hins vegar á leiðarlok:

"Á nóttunni dreymir mig iðulega sama drauminn. Ég er stödd í björtu tunglsljósi úti í garði. Tína mín (heimilishundurinn) er hjá mér. Handan lækjarins standa tveir hestar og horfa yfir til mín. Mér finnst ég sjá hvítuna í augum þeirra. Það er hrím á grösum, en samt er mér ekki kalt þegar ég legg af stað. Ég hef ekki gengið lengi þegar ég átta mig á því að ég styðst báðum höndum við grannan geislastaf frá tungli. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart og ég krýp ósjálfrátt niður og teikna með honum lítinn söngfugl í hrímið. - Þegar ég vakna, leggst einhvern veginn í mig að hann muni syngja að vori".

Á milli upphafs og endis bókarinnar, sem hér hefur verið vitnað til, er mögnuð íslenzk örlagasaga, fegurð og ljótleiki, hamingja og sársauki, hjartahlýja og þelið kalt. Frásegjandi, fædd á Kópaskeri, með sveitir Þingeyjarsýslu allt um kring, hefur að sjálfsögðu litið ægifegurð íslenzkrar náttúru: Ásbyrgi, Dimmuborgir, Goðafoss, Laxá, Mývatn, Slútnes, hverasvæðin við Mývatn o.s.frv. o.s.frv. Að ógleymdum klettaströndum Melrakkasléttunnar. Og að ógleymdri fegurðinni sem gott fólk geymir og gefur af.

Sögumaður sér einnig illskuna og ljótleikann í henni veröld, illsku og ljótleika heimsstyrjaldaráranna, helförina og atómsprengjuna. Hún lifir, eins við öll, baráttuna milli hins góða og illa, sem hvarvetna segir til sín: í umheiminum, í þjóðfélagi okkar - og á stundum í hugar- og sálarbaráttu okkar sjálfra.

Í Slóð fiðrildanna er hönnuði illskunnar lýst þannig: "Nei, sá liggur ekki á liði sínu, enda sést afrakstur verka hans daglega. Styrjaldir, sjúkdómar, dauði og hungurmorð; gylliboð og svik, öfund og fláræði. Einum er sigað á annan og mannfólkið sífellt dregið í dilka. Við heyrum hvísl í skúmaskotum og vitum að þar er lagt á ráðin. Nei, verk hans fara ekki fram hjá neinum. Hann er alltaf að, sá úr neðra. - En þú? Hvað með þig? Hvar ert þú þegar þín er þörf? Hvers vegna felur þú þig þá í þokunni?" Þannig spyr sögukonan sjálfa sig. Spurningar hennar eru til okkar allra.

Heimsstyrjöldin síðari er löngu liðin. En hvað um illskuna og öfgarnar, sem að baki hennar bjuggu? Hvað um Kosovo? Hvað um Tsjetsjníu? Hvað um hernaðarátök og hryðjuverk víða um heim, hungur tugmilljóna manna og ótímabæran dauða milljóna fólks úr sjúkdómum, sem hefði mátt vinna bug á, ef lærðir læknar og lyf hefðu verið fyrir hendi? Hvar vórum við þá, hvar erum við nú, hagsældarfólkið? Þar sem neyðin og þörfin hrópa á okkur? Eða erum við falin í velferðarþokunni?

Víst er margt vel gert til hjálpar þurfandi fólki á hörmungarsvæðum á 2000. ári frá Krists fæðingu. Sameinuðu þjóðirnar, Rauði krossinn, Hjálparstofnanir kirkjudeilda og heilbrigðisstofnanir margs konar vinna baki brotnu að hjálparstarfi. Þetta starf ber að meta og þakka. Það er hluti af fegurðinni og kærleikanum í tilverunni. Afskiptaleysi of margra - einstaklinga og þjóða - veldur því á hinn bóginn, að getan til að gera hið góða er takmörkuð.

"Ég er að búast til brottfarar." Þetta eru upphafsorð bókarinnar Slóð fiðrildanna. Við erum, hvert og eitt, alla ævina að búast til brottfarar. Gárungarnir segja að aðeinst tvennt sé öruggt og ófrávíkjanlegt í mannheimi: skattarnir og þessi brottför, þegar jarðarskeiðið er á enda gengið. Málið er: hvern veg búumst við til þessarar brottfarar? Ekki kann pistlahöfundur að greina frá hinni einu sönnu brottfararuppskrift. Og máski eru uppskriftirnar fleiri en ein og fleiri en tvær? En næsta víst er að í þeim öllum er hjálpsemin, miskunnsemin og náungakærleikurinn uppistaðan. Það sem við gerum "minnstu bræðrum" meistarans. Þess meistara sem ljær geislastafi ljóssins til göngunnar inn í fyrirheitna landið. Þangað sem fuglar syngja á vori eilífðar; líka hrímfuglar úr dimmum dal mannlegra mistaka.

Höf.: Stefán Friðbjarnarson