Í SJÓNVARPINU eru oft auglýsingar sem hvetja fólk til mjólkurdrykkju og er sagt að kalkið í mjólkinni sé nauðsynlegt til uppbyggingar og viðhalds beina. Einnig er tekið fram að til þess að kalkið nýtist þurfi D-fjörefni. Þetta er nú gott og blessað.

Í SJÓNVARPINU eru oft auglýsingar sem hvetja fólk til mjólkurdrykkju og er sagt að kalkið í mjólkinni sé nauðsynlegt til uppbyggingar og viðhalds beina. Einnig er tekið fram að til þess að kalkið nýtist þurfi D-fjörefni. Þetta er nú gott og blessað. Reyndar skil ég ekki hvernig stendur á því að konur í Hong Kong eru með meiri beinþéttni en íslenskar konur miðað við aldur. Skyldu þær drekka mjólk? Mig grunar að þær drekki enga mjólk. Þær fá hins vegar meira sólarljós á sig en íslenskar konur, en fyrir áhrif þess getur líkaminn myndað sitt eigið D-fjörefni. Sýnt hefur verið fram á að D-fjörefni er mjög mikilvægt til uppbyggingar beina. Hér á landi er unnt að velja úr ýmsum D-vítamíngjöfum sem fæðubótarefnum sem þörf er á, einkum yfir veturinn. Þá dettur manni fyrst í hug lýsi. En lýsi er ekki allt eins. Það eru ekki allir sem taka eftir því að í hákarlalýsi er nánast ekkert D-fjörefni. Þeir sem taka hákarlalýsi hafa tröllatrú á því og taka yfirleitt ekki annað lýsi þar sem þeir eru jú að taka lýsi. Að vísu er hákarlalýsi hollt í hófi þar sem það inniheldur mjög mikið af A-vítamínum.

Nú er ég af þeirri kynslóð sem gekk í gegnum þá þolraun í barnaskóla í mörg ár að hellt var daglega ofan í mig lýsi í skólanum. Vafalaust má ég þakka fyrir þetta enda losnaði ég við beinkröm, að vísu einnig með aðstoð sólarljóssins sem nú er litið hornauga. Eftir lýsispíninguna fékk ég þvílíkt ógeð á lýsi að ég hefi nánast ekki tekið það síðan. Hins vegar var Frískamín vinsælt hjá mér í mörg ár. Það inniheldur líka D-fjörefni og er framleitt af Lýsi hf. en þeir nota þó ekki lýsi í þá framleiðslu. Nú hef ég skyndilega uppgötvað að Krakkalýsi sem Lýsi hf. framleiðir er alveg bragðlaust og skilur ekki eftir óbragð í munninum allan daginn eins og þorskalýsið í gamla daga. Þetta finnst mér frábær framleiðsla og mæli með því að viðkvæmir taki það inn.

Nú er það svo að ekki má taka of mikið hvorki af A- né D-fjörefni. Þá er ég með vissar athugasemdir. Þegar ég var ung var fólki ráðlagt að taka eina matskeið af þorskalýsi (15 ml) eða eina barnaskeið af ufsalýsi (10 ml). Þetta eru núna taldir of stórir skammtar. Á þorskalýsisflösku stendur að fólki sé ráðlagt að taka eina til tvær teskeiðar á dag.

Til þess að fá frekari upplýsingar hringdi ég í Lýsi hf. og fékk viðtal við Jón Ögmundsson efnafræðing og spurði hvers vegna fólki væri ráðlagt að taka jafnvel 2 teskeiðar af þorskalýsi en það er tvöfaldur ráðlagður dagskammtur (RDS) samkvæmt merkingu á þorskalýsisflöskunni. Hann tjáði mér að munur væri á ráðleggingum frá Manneldisráði og því sem kveðið er á um í "reglugerð um merkingar matvæla á Íslandi", en þar eru 5 míkrógrömm ráðlagður dagskammtur. Manneldisráð ráðleggur fólki hins vegar að taka í mesta lagi tvær teskeiðar af þorskalýsi á dag en í þeim eru 10 míkrógrömm af D-fjörefni (samsvarandi 400 alþjóðlegum einingum, 200% RDS).

Nú vakna einnig spurningar um uppsöfnuð eiturefni. Það er t.d. vitað að díoxín safnast fyrir í lifur sjávardýra. Er þetta efni fjarlægt bæði úr þorskalýsi og þá sérstaklega úr hákarlalýsi, en hákarlalifur hefur mælst með margfalt meira magni díoxíns en þorskalifur að fræðingar hafa tjáð mér er fást við mengunarrannsóknir. Er magn díoxíns undir leyfilegum mörkum í bæði þorskalýsi og hákarlalýsi.

Gott væri að fá svör við þessu frá framleiðendum.

Unnur Skúladóttir.

Snjóþota í óskilum

LILLABLÁ snjóþota er í óskilum á Flyðrugranda. Upplýsingar í síma 551-3742.

Kápa týndist á Nelly's

GRÁ, hnésíð kápa týndist á Nelly's laugardagskvöldið 26. febrúar sl. Kápan hefur það sérkenni að talan á bakinu er öðruvísi en á framan. Skilvís finnandi er vinsamlegast beðinn að hafa samband við Huldu í símum 698-7366 eða 557-9295.

Kápa tekin í misgripum

SÍÐASTLIÐIÐ laugardagskvöld, 26. febrúar, var ný svört kápa tekin í misgripum á Sportkaffi. Kápan er grá, hnésíð með klauf að aftan. Í annarri erminni var silfurgrár trefill og útprjónaðir vettlingar. Þeir eru brúnir í aðallit með svörtu, hvítu og gráu munstri. Vettlingarnir eru prjónaðir af ömmu vinkonu minnar og eru í miklu uppáhaldi. Fundarlaun. Upplýsingar í síma 695-9663 eftir kl. 17 eða 565-4275. Adda.

Hvolpar fást gefins

ÞRÍR tólf vikna gamlir hvolpar, búsettir í Vík í Mýrdal, fást gefins á góð heimili. Þeir eru blandaðir af Labrador og Border Collie, svartir, hvítir og brúnir að lit. Upplýsingar gefur Gunnar í síma 487-1465.

Kisa í óskilum

LÍTIL svört kisa fannst í Mosfellsbæ þriðjudaginn 29. febrúar sl. Hún er með hálsól, en ómerkt. Upplýsingar gefur Katrín í síma 861-2565.

Köttur fæst gefins

MJÖG fallegur 6 mánaða bröndóttur kisi fæst gefins á gott heimili. Hann er kelinn enda heitir hann Keli. Upplýsingar í síma 565-5607.