Gary Kasparov
Gary Kasparov
5. mars 2000

OZ.COM stendur fyrir afar glæsilegu netskákmóti sunnudaginn 5. mars á ICC-skákþjóninum. Þetta er eitthvert veglegasta netskákmót sem haldið hefur verið og ánægjulegt er að Íslendingar skuli taka forystuna á þessu sviði. Þar sem teflt er á Netinu geta skákmenn hvaðanæva úr heiminum tekið þátt í mótinu svo framarlega sem þeir hafa netaðgang. Það virðast reyndar flestir skákmenn hafa og ekki er óalgengt að sjá ýmsa bestu skákmenn heims að tafli á Netinu. Það sem gefur þessu móti sérstakt gildi er að sigurvegarinn öðlast rétt til þátttöku á Heimsmótinu í skák, sem haldið verður í Kópavogi 1.-2. apríl. Meðal þátttakenda á mótinu verða þeir Kasparov og Anand, þannig að það er til mikils að vinna.

Viðbrögð skákmanna sýna að þeir kunna vel að meta þetta framtak OZ.COM. Mótið er opið skákmönnum með alþjóðleg skákstig sem skráðir eru á ICC. Yfir 200 skákmenn eru skráðir til leiks, þar af 42 stórmeistarar og 34 alþjóðlegir meistarar. Búast má við að enn eigi eftir að bætast við þennan hóp. Meðal skráðra þátttakenda eru Michael Adams (2.715), Nigel Short (2.683), Peter Svidler (2.672) og Sergei Shipov (2.640), en alls eru 9 skákmenn með yfir 2.600 stig.

Full ástæða er til að hvetja íslenska skákmenn til að taka þátt í þessu móti og freista þess að tryggja sér sæti á Heimsmótinu. Tefldar verða 9 umferðir eftir svissneska kerfinu og tímamörkin verða 5 5, þ.e. upphafstíminn er 5 mínútur og síðan bætast við 5 sekúndur eftir hvern leik. Taflið hefst klukkan 18 á sunnudag, en nánari upplýsingar má fá á ICC. Sigurvegarinn fær ferð til Íslands og uppihald ásamt $500. Verðlaun verða annars sem hér segir:

2. vl. $700

3. vl. $500

4. vl. $300

5. vl. $200

6.-8. vl. $100

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðunni.

Eins og áður segir er þetta mót undankeppni fyrir Heimsmótið sem haldið verður í Kópavogi 1.-2. apríl. Það eru Skáksamband Íslands, L.M. Ericsson, OZ.COM og Íslandssími sem standa að mótinu.

Atkvöld á mánudag

Taflfélagið Hellir efnir til atkvölds mánudaginn 6. mars og hefst mótið kl. 20.

Fyrst eru tefldar 3 hraðskákir þar sem hvor keppandi hefur 5 mínútur til að ljúka skákinni og síðan þrjár atskákir, með tuttugu mínútna umhugsun.

Sigurvegarinn fær verðlaun, mat fyrir tvo frá Pizzahúsinu. Þá hefur einnig verið tekinn upp sá siður að draga út af handahófi annan keppanda, sem einnig fær máltíð fyrir tvo hjá Pizzahúsinu. Þar eiga allir jafna möguleika, án tillits til árangurs á mótinu.

Þátttökugjald er kr. 300 fyrir félagsmenn (kr. 200 fyrir 15 ára og yngri) og kr. 500 fyrir aðra (kr. 300 fyrir 15 ára og yngri). Teflt er í Hellisheimilinu, Þönglabakka 1.

Skákkeppni stofnana og fyrirtækja

Skákkeppni stofnana og fyrirtækja hefst þriðjudaginn 7. mars kl. 20 hjá Taflfélagi Reykjavíkur. Keppnisfyrirkomulag ræðst af þátttöku, en stefnt er því að tefla níu umferðir eftir Monradkerfi. Hver sveit skal skipuð þremur skákmönnum auk varamanna sem eru starfsmenn viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Tefldar verða atskákir, 30 mín. á skák.

Bikarkeppnin: Skákþing Garðabæjar

Skákþing Garðabæjar árið 2000, sem er hluti af bilarkeppninni í skák, verður haldið dagana 9. til 12. mars næstkomandi.

Fyrstu 3 umferðirnar verða með atskákarfyrirkomulagi og verða þær tefldar fimmtudaginn 9. mars, en síðan verða tvær kappskákir tefldar á laugardaginn 11. mars og mótinu lýkur svo 12. mars, en þá verða einnig 2 kappskákir.

Tekið verður sérstakt tillit til þeirra skákmanna sem keppa á Íslandsmótinu í atskák sem sett var á þessa helgi og ef um árekstra verður að ræða í seinni skák frestast þær skákir til kl. 18.

Dagskrá mótsins er eftirfarandi:

9.3. fimmtud. kl. 19:30. 1.-3. umf. atskákir.

10.3. föstud. Frí vegna Íslandsmótsins í atskák.

11.3. laugard. kl. 10 4. umf.

11.3. laugard. kl. 18 5. umf.

12.3. sunnud. kl. 10 6. umf.

12.3. sunnud. kl. 17 7. umf.

Tímamörkin í löngu skákunum eru 90 mínútur á 30 leiki og 30 mínútur til að klára. Verðlaun:

1. sæti. 12.000 kr.

2. sæti. 8.000 kr.

3. sæti. 5.000 kr.

Teflt verður í Garðaskóla.

Daði Örn Jónsson