Kristinn Björnsson keyrir hér á fullri ferð í Kranjskagora í vetur.
Kristinn Björnsson keyrir hér á fullri ferð í Kranjskagora í vetur.
"ÉG er að skíða betur en í fyrra og er öruggari með mig en áður," segir Kristinn Björnsson, skíðamaður úr Leiftri og keppandi í heimsbikarnum í svigi, aðspurður um stöðu í heimsbikarkeppninni í svigi í vetur. Heldur hefur hallað undan fæti hjá Kristni upp á síðkastið eftir að hafa gengið vel á fyrri hluta keppnistímabilsins. Hann hefur aðeins skilað sér niður í báðum ferðum í einu móti af síðustu fimm

Þrátt fyrir ákveðið mótlæti er ég öruggari en áður. Nú hef ég komist í gegnum fyrri ferð á sex mótum, en aðeins á þremur í fyrra. Eins er tæknin betri en áður þannig að ég er bjartsýnn, en auðvitað þykir mér leitt að ná ekki að komast í gegnum fleiri mót en raun ber vitni um. Til dæmis á mótinu í Suður-Kóreu. Þá leið mér vel, æfingar voru góðar og eins fann ég mig vel í upphitun, brautin var hörð og góð þannig að ég var afar óánægður með sjálfan mig þegar ég féll úr keppni."

Af mótum frá áramótum

Kristinn segist vera ánægðastur með frammistöðu sína í Camonix í Frakklandi og þokkalega sáttur við sinn hlut í Wengen þótt hann hafi ekki náð að ljúka keppni í síðari ferð. "Síðan veiktist ég fyrir mótið í Kitzbühel og lá veikur í viku og það hafði veruleg áhrif á þrekið með þeim afleiðingum að ég var svo gott sem í einn mánuð að ná mér á strik aftur. Ég var orðinn hress og sterkur þegar kom að mótinu í Yongpyong og því var útkoman þar vonbrigði."

Gott samstarf við Svía

Tvö mót eru eftir í svigkeppni heimsbikarsins og sagðist Kristinn vera bjartsýnn á þau. Næst verður keppt að kvöldlagi í Schladming í Austurríki á fimmtudag og loks í Bormio á Ítalíu hinn nítjánda. "Ég horfi björtum augum fram á veginn því ég finn að ég er betri en í fyrra þrátt fyrir að ég hafi verið að falla úr keppni. Í fyrra var ég að skíða illa og það hafði slæm áhrif á mig."

Samstarfið við sænska skíðalandsliðið hefur gengið vel á keppnistímabilinu, að sögn Kristins, og mun betur en í fyrra. Einkum kemur það til að nú eru menn farnir að þekkja hver annan betur. "Það hefur hjálpað mér mikið. Auk þess eru Svíarnir komnir með nýjan þjálfara og hann og Haukur Bjarnason, þjálfari minn, ná vel saman og bera saman bækur sínar. Þá hafa orðið framfarir hjá Svíunum sem verða til þess að að ég fæ meiri keppni og um leið meira út úr æfingum. Ég vona að framhald verði á samstarfi okkar við sænska liðið, það hefur komið vel út."

Kristinn kom til landsins á miðvikudaginn og dvelur hér í nokkra daga, en hann segist ekki hafa verið hér á landi síðan í júní í fyrra. Hefur hann m.a. farið norður í Ólafsfjörð til þess að hitta ættingja, vini og stuðningsmenn sína og síðast en ekki síst unga skíðamenn í heimabænum. Segir Kristinn það veita sér mikinn styrk að finna þann stuðning sem hann hefur orðið var við.

"Ég geri mér grein fyrir að vel er fylgst með mér hér heima og að það eru beinar útsendingar frá heimsbikarnum. Það íþyngir mér ekki og mér hefur betur og betur tekist að létta þeirri "pressu" af mér og reyna að nota hana frekar á jákvæðan hátt þannig að athyglin og áhuginn sem er fyrir mér verkar hvetjandi á mig, fremur en hitt. Mér þykir gott að finna fyrir stuðningnum og vera um leið óhræddur við að gera mistök og læra af þeim í stað þess að láta þau vinna gegn mér."

Keppir í Skálafelli

Kristinn segist síður en svo vera af baki dottinn og hann ætli sér óhikað að vera með í keppni þeirra bestu áfram. "Það tekur sinn tíma að komast í gang, öðlast reynslu og ná í hóp þeirra allra bestu. Eins og er horfi ég til Ólympíuleikana í Salt Lake City eftir tvö ár, en þótt ég geri áætlanir til þess tíma eru þeir leikar alls ekki hugsaðir sem einhver endapunktur á mínum ferli síður en svo."

Að heimsbikarkeppninni lokinni kemur Kristinn til Íslands og keppir á nokkrum alþjóðlegum mótum sem fyrirhuguð eru hér á landi í lok þessa mánaðar og í byrjun apríl auk þess sem hann verður að vanda með á skíðalandsmótinu sem að þessu sinni fer fram í Skálafelli.

"Eftir Landsmótið hefur mér verið boðið á árlegt mót í samhliðasvigi sem Norðmaðurinn, Finn Christian Jagge, stendur fyrir og er til stuðnings krabbameinssjúkum börnum í Noregi. Þetta er annað árið í röð sem mér er boðið að vera mér. Það er skemmtilegt mót þar sem flestir þeir bestu eru með. Síðan fer maður að huga að næsta keppnistímabili," segir Kristinn Björnsson, skíðamaður úr Leiftri.

Eftir Ívar Benediktsson