Úlfar Hinriksson, framkvæmdastjóri Suzuki bíla, segir nýjan Wagon R+ rúmbetri og kraftmeiri en þann fyrri.
Úlfar Hinriksson, framkvæmdastjóri Suzuki bíla, segir nýjan Wagon R+ rúmbetri og kraftmeiri en þann fyrri.
"HÉR eru kannski ekki byltingarkenndar nýjungar í ár en margir áhugaverðir bílar samt," segir Úlfar Hinriksson, framkvæmdastjóri hjá Suzuki bílum.

"HÉR eru kannski ekki byltingarkenndar nýjungar í ár en margir áhugaverðir bílar samt," segir Úlfar Hinriksson, framkvæmdastjóri hjá Suzuki bílum. Á bás Suzuki var verið að afhjúpa nýjan Wagon R+ sem nú er orðinn meiri bíll en fyrsta kynslóðin sem kynnt var í Genf fyrir þremur árum.

Úlfar sagði ekkert skera sig sérstaklega úr í Genf að þessu sinni og engin ein lína ráðandi. En hvað með Suzuki bílinn nýja?

"Mér líst mjög vel á þennan nýja Wagon R+ og hann hefur nú alla burði til að njóta sannmælis en fram að þessu hafa menn haft tilhneigingu til að horfa framhjá þessum bíl þegar þeir eru að meta smábíla," segir Úlfar ennfremur.

Wagon R+ er nú með 1,3 lítra og 75 hestafla vél, er orðinn heldur stærri en fyrri gerðin og verður boðinn með handskiptingu og sjálfskiptingu. Úlfar segir bílinn nú kannski hafa færst því að vera nær venjulegum fólksbíl, hann sé ekki eins óvenjulegur útlits og fyrri gerðin. "Það var nokkuð um að fyrirtæki tækju bílinn til sendiferða en nú er hann mjög hentugur sem almennur fjölnotabíll af minni gerðinni."

Suzuki og Opel hafa samvinnu um bílinn og hafa tæknimenn Suzuki séð um hönnun yfirbyggingar en fulltrúar Opel um innréttingu. Suzuki smíðar sinn bíl í Ungverjalandi en Opel í Póllandi. Hvor framleiðandi um sig býður eigin vélar. Suzuki Wagon R+ er væntanlegur hingað til lands í sumar eða haust.

Í ræðu Yoshito Saito, stjórnarformanns Suzuki, á fundi í Genf kom fram að samvinnan við GM hefði farið mjög vaxandi og nú liti hún einnig dagsins ljós í Evrópu með Wagon R+ bílnum. Alls seldust 218 þúsund Suzuki bílar í Evrópu í fyrra sem er 9,3% aukning frá 1998.