Hér er ekki verið að spá um hann um næstu áramót, eins og sértrúarsöfnuðir gera. Tíminn er nægur til að pakka niður dóti og koma sér til annarra sólkerfa.

Hér er ekki verið að spá um hann um næstu áramót, eins og sértrúarsöfnuðir gera. Tíminn er nægur til að pakka niður dóti og koma sér til annarra sólkerfa. Aðeins hafa athuganir seinni ára bent til að "einungis" kunni að vera um milljarður ára til stefnu, í stað fjögurra, fimm, eins og halda mætti við fyrstu athugun. Þessi niðurtalning á æviárum heims okkar hefst með kenningum Einsteins um að efni ummyndist í orku. Breski stjarneðlisfræðingurinn Eddington komst að hvernig orkuútstreymi sólar og fastastjarna var þannig til komið, og smám saman þróuðust æ trúverðugri líkön af því hvernig kjarnabruninn hið innra í þeim þróast með tímanum. Þessi líkön sýna hvernig bruninn vex í stórum dráttum með aldri stjarnanna, en ferlið er allt háð upphafsstærð þeirrar fastastjörnu sem í hlut á.

OKKAR sól er meðal minni fastastjarna algeimsins, sem gerir hana öllu langlífari en stjörnur verða að jafnaði. Hún er talin um 4,6 milljarða ára gömul, og verða alls um ellefu milljarða ára, uns hún endar ævi sína sem hvítur dvergur með stjörnuþoku utan um, sem er orðin til úr sprengingu er fylgir fjörbrotum hennar. Sú hætta er steðjar að oss mönnum og öðru lífi jarðar felst ekki einungis í þessum endalokum, eftir rúma 5 milljarða ára, heldur steðjar hún að miklu fyrr. Í fyrsta lagi er útgeislun sólar ekki stöðug, heldur sveiflukennd, en í heild vaxandi þessar ármilljónirnar og vex áfram allt fram að sprengingunni. Í öðru lagi sést hættan af því að skoða afar viðkvæm varmajafnvægiskerfi jarðarinnar. Talið er að aukning um hvert eitt prósent í útgeislun sólar valdi um tveggja prósenta aukingu á meðalhita jarðar. Auknum meðalhita jarðar fylgir aukin úrkoma og vindur og þarmeð aukin veðrun. Hún losar um kalsíum úr bergi jarðar. Það bindur aftur kolefni loftsins í krítarsamböndum hafanna. Slíkt dregur úr gróðurhúsahrifum, og ætti aftur að valda kælingu. Þannig er um að ræða svonefnda neikvæða baktengingu (e. feedback), og þekkt er að slíkt leiðir alltaf til að viðhalda stöðugleika. Jafnvel er talið að þetta ferli sé öflugasti hitastillirinn af öllum í hinu fína hitastillikerfi jarðarinnar. En það eru takmörk fyrir því hve miklu má bæta við yl til jarðarinnar til að þessi hitastillir fari úr lagi. Trúverðug líkön yfir þróun sólarinnar benda til að þessi hitastillir sé farinn úr skorðum eftir um milljarð ára, og þegar hann fari, sé allt farið úr skorðum svo að um munar. Kolefni lofthjúpsins klárist, þar eð það hafi allt sest að í krítarlögum á sjávarbotni, og um sinn þar á undan þrífist ekkert nema jurtir afar nægjusamar á kolefni. Aukin geislun verði til að vatnsgufa andrúmsloftsins klofni, en vegna léttleika síns sleppi vetnið frá jörðu, og eftir verði því ber botn úthafanna, ekki ósvipað því sem þeir væru ef við dældum ofan af þeim sjónum í dag. Þetta allt væri löngu afstaðið þegar að því kæmi að sólin tæki á síðasta æviskeiði sína að stækka, uns hún næði út fyrir jarðbrautina. Einhverjir hafa talið að létting hennar vegna kjarnabrunans gæti bjargað okkur, í því að minni massa móðurhnattar fylgi stærri brautarradíus fylgihnatta, og jörðin kæmist þar með út fyrir þá fjarlægð sem Mars er í nú. Þetta er þó vafasamt, og skiptir okkur engu, því að við verðum hvort eð er öll uppþornuð eða flúin til annarra heima.

eftir Egil Egilsson

Höf.: eftir Egil Egilsson