Úlfarsá, eða Korpa, liðast í átt til sjávar. Til vinstri er Grafarholtið og framundan sér til Reykjavíkur.
Úlfarsá, eða Korpa, liðast í átt til sjávar. Til vinstri er Grafarholtið og framundan sér til Reykjavíkur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðasta haust gátu menn skoðað niðurstöður þriggja ára rannsóknaráætlunar sem borgaryfirvöld stóðu að til að skýra út vanda Elliðaánna. Þar lögðu rannsóknaraðilar fram ýmsar tillögur til úrbóta.

Síðasta haust gátu menn skoðað niðurstöður þriggja ára rannsóknaráætlunar sem borgaryfirvöld stóðu að til að skýra út vanda Elliðaánna. Þar lögðu rannsóknaraðilar fram ýmsar tillögur til úrbóta. Guðmundur Guðjónsson ræddi á dögunum við þá Þórólf Antonsson og Sigurð Guðjónsson hjá Veiðimálastofnun sem bentu á hvað brýnast er að taka á að þeirra mati. Þeir vöruðu einnig við að Úlfarsá gæti lent í svipaðri kreppu og Elliðaárnar, en enn væri ekki of seint að taka á umhverfismálum á þeim slóðum.

SKÝRSLAN sem sýnd var síðasta haust var að margra mati skref fram á við, en því miður mjög stutt skref og mörgum spurningum um framtíð Elliðaánna væri enn ósvarað. Varla var skýrslan kölluð svört, því hún bætti fáu við þá almennu vissu manna um alvarlega stöðu lífríkis ánna. Þó þótti mörgum merkilegt og skuggalegt þegar fiskifræðingar Veiðimálastofnunar drógu saman níu mismunandi atriði sem gátu skýrt hin miklu skörð sem höggvin hafa verið í laxastofn ánna. En í kjölfar birtingar skýrslunnar ákvað Reykjavíkurborg að fela Borgarverkfræðingi að sjá um framvindu málsins.

Ólafur Bjarnason hjá Borgarverkfræðingi sagði í samtali við Morgunblaðið að fyrsta skrefið hafi verið stigið strax, nauðsyn hefði verið talin á því að auka vatnsrennsli um vesturkvísl Elliðaánna og Orkuveitan hefði brugðist skjótt og vel við. Þar með hafi einhver búsvæði endurheimst. "Þetta var nú það fyrsta, en síðan höldum við áfram og á þessu ári hefst úttekt á frárennsli af götum borgarinnar sem rennur til Elliðaánna. Við höfum fengið fjárveitingu fyrir því verkefni og um það mun sjá sérfræðingur á vegum Gatnamálastjóra. Það er ógjörningur að segja til um hversu langan tíma úttektin mun standa, en mikilvægast er að koma henni af stað. Þetta eru fyrstu skrefin og þar fyrir utan verður haldið áfram að vinna við vöktun svæðisins. En við erum að velta fleiri hlutum fyrir okkur. Við höfum fengið ýmsar ábendingar, einkum og sér í lagi frá fiskifræðingum Veiðimálastofnunar. Eitt af því er að taka þátt í rannsókn þeirra á fullorðnum laxi og gönguseiðum á ósasvæðinu. Nú er komin tækni sem er svo ný að maður þekkir hana varla, en hún felst í því að mælimerki eru fest á fiskinn og nema merkin alls kyns upplýsingar um staðsetningu hans og fleira. Við höfum sagt sérfræðingum Veiðimálastofnunar að við viljum taka þátt í þessari rannsókn. Það þarf einnig að fylgjast með umhverfismati sem gert verður vegna Sundabrautar," sagði Ólafur.

Líffræðigleraugun

Þeir Sigurður Guðjónsson og Þórólfur Antonsson eiga að baki 10-12 ára rannsóknir á laxinum og lífríki Elliðaánna og segja það ekkert launungarmál að þeir séu orðnir áhyggjufullir fyrir margt löngu og vildu sjá hraðari handtök og meiri festu. "Við horfum á Elliðaárnar í gegn um líffræðilegu gleraugun, en peningabaukurinn er allt annað mál. Sem betur fer liggja þó fyrir nægar niðurstöður til að hægt er að byrja á einhverju, m.a. frárennslinu af götunum, sem allir vita að er einn versti mengunarþátturinn í ánum," segja þeir félagar, en víkja síðan að öðru sem þeir telja vera grundvallaratriði þar sem ástandið er orðið jafnalvarlegt og raun ber vitni.

"Það er ljóst að borgin verður að gera upp við sig hvernig hún vill standa að verndun Elliðaánna. Það gengur ekki upp að á meðan einn armur borgarinnar er að gera eitt, sem miðar að vernd, þá sé annar að gera eitthvað allt annað sem er hvetjandi til hins gagnstæða. Nærtækt dæmi er að á sama tíma og vísindamenn eru fengnir af borgarráði til að gera úttektir á lífríkinu með það fyrir augum að bjarga ánum og Borgarverkfræðingi er falið að sjá um framvindu næstu missera, þá er annar armur borgarinnar að skipuleggja nýjan skeiðvöll við árnar með tilheyrandi raski, mannvirkjum, bílastæðum og fleiru. Ekki minnkar álagið á Elliðaánum við það. Þarna verður síðan Landsmót hestamanna í sumar. Rétt ofar eru komin ný hesthús skammt frá árbakkanum og upp við Elliðavatn er Kópavogsbær kominn með heilmikla byggð. Þarna má glöggt sjá að alla samræmingu vantar. Það er ósvinna ef ein höndin er að byggja upp og hin að rífa niður á sama tíma. Þá verða bæjarstjórnirnar tvær, í Reykjavík og Kópavogi, að ráða ráðum sínum saman."

Draga línu

Þeir félagar halda áfram og segjast hafa viðrað nýlega hugmynd sem þeir telja nauðsynlega til að stemma stigu við þróuninni svo hægt sé að snúa taflinu við.

"Við viljum að dregin verði lína, segjum hundrað metra út frá ánni, frá vatni og til sjávar, og allt verði stoppað á þessu svæði. Ekkert verði leyft nema í sérstökum tilvikum og þó færi best á því að engar undanþágur væru veittar. Síðan verði byrjað að vinna til baka, uppræta það sem komið er, eða færa til betri vegar. Við gætum kallað þetta "árhelgi" og ætti fyllilega við sem regla, ekki einungis við Elliðaárnar og Úlfarsá. Við sjáum víða um land hvernig þrengt er að árbökkum, t.d. á Blönduósi og Hellu og víðar

Er nú ekki heldur seint í rassinn gripið með Elliðaárnar?

"Það er auðvitað varla til nokkur 100 metra skiki á svæðinu sem er alveg laus við byggð, mengun eða annað sem veldur álagi á lífríkið, en hugmyndin er að draga línu sem markar þessa árhelgi. Þá eru menn að segja, "nú er stopp. Það verður ekki gert meira hér án þess að taka fyllsta tillit til lífríkisins". Það er síðan hægt að vinna til baka, og auk þess standa menn betur að vígi þegar fram á veginn er horft. Breiðholtið er t.d. ekki að fara neitt og sama má segja um Árbæ, en menn geta tekið tillit til umhverfisáhrifa t.d. þegar byggð verður aukin á Norðlingaholti og víðar. Við sjáum ekki aðra leið í stöðunni."

Hafið þið kynnt þessar hugmyndir?

"Þetta er í burðarliðnum hjá okkur og ekki orðið að formlegum tillögum eins og sagt er. En við höfum vissulega viðrað þetta hér og þar, m.a. í borgarkerfinu og hugmyndin hefur fengið góðar undirtektir. Ég held að menn séu byrjaðir að kveikja á mikilvægi málsins. Það hefur orðið mikil hugarfarsbreyting innan borgarkerfisins varðandi mikilvægi umhverfismálanna."

Eins og fram kom í máli Ólafs Bjarnasonar hjá Borgarverkfræðingi eru uppi hugmyndir um að hengja mælimerki bæði á gönguseiði og fullorðna laxa og fá botn í hvaða leiðir laxinn fer og hvað hann er lengi á ósasvæðinu. Ólafur sagði að hans stofnun myndi vilja koma að slíkri rannsókn með fiskifræðingunum og það kom fram að þeir Sigurður og Þórólfur eru sjálfir og óumbeðnir að reyna að öngla saman styrkjum til að standa straum af rannsóknunum. Þeir segja að þeir vildu gjarnan að hlutirnir væru þannig að þeir væru beðnir um að annast slíka rannsókn og að fjármagnið væri tryggt, en eins og haldið væri á málum væri það nánast unnið í frístundum þeirra að reyna að fjármagna slíka rannsókn.

"Það þarf að hreinsa ósasvæðið upp og finna út hvað laxinn er lengi á því svæði, á því er ekki nokkur vafi. Veiði hefur mjög dregist saman í ánum síðustu árin og það er erfitt að átta sig á því hvaða þættir það eru sem vega þyngst. Margir þættir geta spilað saman. Heimtur hafa verið mun lélegri en áður síðustu sumur og þar sem svipaða sveiflu er ekki að finna í öðrum ám í nágrenni Reykjavíkur, t.d. Úlfarsá, Leirvogsá og Laxá í Kjós, minnka líkurnar á því að slæmt ástand í hafinu valdi því laxastofni ánna hafi hnignað. Þá er það ástandið í ánni sjálfri, fara gönguseiðin verr undirbúin til hafs úr þessari á en öðrum og hvers vegna? Ýmislegt bendir til að það sé áin sjálf eða ósinn, eða bæði. Aðrir þættir geta síðan spilað inn í, kýlaveikin sem kom fyrst upp 1995 gæti leikið hlutverk og við vitum ekki nema að laxastofninn hafi einnig orðið fyrir erfðafræðilegu áfalli. Við getum þannig byrjað á því að draga svona verndunarstrik við ósinn, sagt hér er stopp og við byrjum að vinna til baka, t.d. með því að finna út hvort seiðin eða fullorðni laxinn verði fyrir fjörtjóni í ósnum. Þegar vitneskjan liggur fyrir er hægt að grípa til aðgerða."

Er ekki kostnaður alltaf líklegur til að koma í veg fyrir að bætt verði úr því sem aflaga hefur farið?

"Náttúru- og umhverfisvernd verður væntanlega alltaf einhvers konar þyrnir í augum þeirra sem halda um budduna. Þá greinir á við hina um hvað sé nauðsynlegt og hvað ekki. Þetta er eilífðarvandamál, en allir virðast þó sammála um að reyna að bjarga Elliðaánum," segja þeir félagar.

Hvað með Korpu?

Lengi hefur mest verið talað um Elliðaárnar, "Perlu Reykjavíkur" og hversu merkilegt það sé að gjöful laxveiðiá renni innan borgarmarkanna. Og seinni árin nánast í miðri borginni. Raunin er hins vegar sú, að laxveiðiár Reykjavíkur eru tvær en ekki ein. Úlfarsá, eða Korpa eins og hún er gjarnan kölluð manna í millum. Korpa litla er með merkilegustu laxveiðiám landsins og óvenjugjöful miðað við smæð hennar. Langt er síðan það fór að þrengja verulega að henni og vart hafa farið framhjá nokkrum manni umræður um gatnamálagjöld og lóðaútboð í nýju hverfi á Grafarholti. Þar mun sum sé rísa íbúðabyggð sem teygir sig langleiðina niður á Korpubakka með tilheyrandi frárennsli af götum. Mosfellsbær á eitthvað land norðan að Korpu og það land verður nýtt í náinni framtíð, m.a. undir iðnaðarhverfi. Þeir Sigurður og Þórólfur eru því ekki þeir einu sem sjá fyrir sér að farið gæti fyrir Korpu eins og Elliðaánum. Þó sé ekki of seint að bregðast við og koma í veg fyrir slíkt slys, en þá verði að hafa hraðann á og nýta reynsluna af Elliðaánum.

"Þarna er nýtt hverfi í vændum, en það er til marks um breyttan þankagang að það ber nú á tilraunum til að stemma stigu við mengun. Þannig er gert ráð fyrir svokölluðum settjörnum sem frárennslisvatn af götum verður leitt út í. Í tjörnunum verða dúkar og möl sem munu sía eiturefnin út vatninu áður en það rennur út í ána. Þetta er sænsk aðferð sem ekki hefur verið reynd hér á landi áður og þótt við vitum ekki hvernig hún muni koma út hér á landi þá er þetta til marks um nýja hugsun. Það er bæði gleðilegt og lofsvert. Menn gætu haldið að það væri vont fyrir ána að fá vatnið, jafnvel þótt búið sé að sía mikið af eitrinu úr, en áin er vatnslítil og þarf að fá vatnið. Nú þegar er mikill hluti árvatnsins tekinn við stíflu Áburðarverksmiðjunnar fyrir neðan Vesturlandsveg og notað sem kælivatn fyrir verksmiðjuna. Það er síðan leitt til sjávar í lögn. Áin tapar á þennan hátt miklu af vatni sínu og ber þess merki neðan stíflu, hún er þar afar vatnslítil, svo mjög að í þurrkum á laxinn mjög erfitt með að ganga í ána úr sjónum," segja þeir Þórólfur og Sigurður.

Um þetta atriði og önnur varðandi stöðu Korpu gagnvart vaxandi byggð segir Friðþjófur Árnason fiskifræðingur, sem unnið hefur skýrslu um búsvæði laxfiska í Úlfarsá (Korpu) fyrir Borgarverkfræðing, eftirfarandi:

"Helsta röskunin sem orðið hefur á vatnasviði Úlfarsár til þessa er vatnstaka áburðarverksmiðjunnar með tilheyrandi mannvirkjum. Þó nokkur rýrnun varð á laxveiðinni í kjölfar byggingar stíflu áburðarverksmiðjunnar. Vatnstaka hennar hafði áhrif á seiðabúskap vegna tapaðra uppeldissvæða í kjölfar aukinna sveiflna í vatnsmagni fyrir neðan stíflu og tilfærslu á veiði frá einum veiðistað til annars. Með aukinni byggð í nágrenni árinnar er vissulega hætta á að frekari neiðkvæðra áhrifa gæti. Sérstaða árinnar miðað við margar aðrar laxveiðiár er hversu lítið vatnasviðið er og þar af leiðandi lítið rennsli. Fyrir vikið er áin viðkvæmari fyrir hvorutveggja, mengandi efnum vegna afrennslis frá íbúðabyggð og minnkandi rennsli ef rigningarvatni er veitt burt frá ánni. Til að halda vatnsmagni árinnar í sem upprunalegustu horfi er því mikilvægt að veita sem mestu af rigningarvatni svæðisins aftur til árinnar en samhliða því að gæta þess vel að öll mengun sé í lágmarki annaðhvort með því að hreinsa vatnið af mengunarefnum á leiðinni eða veita því vatni sem mest hætta er á að sé mengað, t.d. affalli af götum, beina leið til sjávar."

Síðar bætir Friðþjófur við þetta eftirfarandi orðum: "Miklar framkvæmdir eru hafnar vegna fyrirhugaðrar íbúðabyggðar í norðurhlíðum Grafarholtsins og vafalaust eiga þær eftir að aukast á komandi árum. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir heildaráhrifum allra framkvæmdanna því þó einstakar framkvæmdir hafi ekki teljandi áhrif á vistkerfi Úlfarsár geta samanlögð áhrif margra slíkra framkvæmda haft óbætanlega röskun í för með sér. Mikilvægt er að draga lærdóm af þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið í Elliðaánum og nýta þær í þágu Úlfarsár í framtíðinni."

Hundrað skurðir

Þeir félagar segja, að ástæða sé til að hafa áhyggjur af gangi mála við Korpu, því dæmið sé fullkomlega sambærilegt því sem menn þekkja við Elliðaárnar að því leyti að landið beggja vegna árinnar muni verða jafnmikið notað, áin sé enn viðkvæmari heldur en Elliðaárnar, ekki síst vegna þess að byggðin við Korpu sé og verði öll á vatnasviðinu sjálfu, en ekki í jöðrunum eins og við Elliðaárnar. Þá sé alltaf erfiðara um vik þegar tveir þurfi að taka ákvarðanirnar, í þessu tilviki Reykjavík og Mosfellsbær. Þá séu fleiri hagsmunir þarna á ferðinni, m.a. svínabú, gróðrastöð og fleira.

"Það þarf að gefa orðum Friðþjófs gaum þegar hann talar um að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir heildaráhrifum allra framkvæmdanna. Það er einmitt umhverfismat sem þarna þarf að gera. Okkur skilst að slíkt sé ekki á döfinni og kemur það okkur og fleirum spánskt fyrir sjónir að heil íbúðarbyggð í nábýli við viðkvæmt náttúrufar sé ekki sett í umhverfismat á sama tíma og vegspotti með brú uppi við Hafravatn þarf í mat. Við þurftum að gefa umsögn vegna umhverfismats vegna byggingar Gullinbrúar, en tvö stór hverfi í Grafarvogi og nú það þriðja á Grafarholti þurfa ekki slíkt mat. Svona ósamræmi getur ekki verið af hinu góða. Við getum tekið sem dæmi settjarnirnar. Reynslan kann að leiða í ljós að þær muni skila vatninu í viðunandi ástandi til árinnar, þ.e.a.s. undir mengunarmörkum. En svo stækkar byggðin og fleiri tjarnir bætast við. Þá vita menn ekkert nema að samanlögð áhrif tjarnanna verði banvæn fyrir lífríki árinnar. Þetta er vandinn í hnotskurn. Við erum að berjast við eitt vandamál í einu. Við erum kannski spurðir um einn skurð og hvað eigum við að segja? Einn skurður, jú það getur ekki skaðað. En svo eru skurðirnir orðnir hundrað," segja þeir Sigurður Guðjónsson og Þórólfur Antonsson.