Paul McCartney á marga unnendur úr röðum tónlistarmanna
Paul McCartney á marga unnendur úr röðum tónlistarmanna
ENN eru gerðar skífur þar sem tónlistarmenn votta heldri spámönnum virðingu sína með því að flytja vel og miður vel valin lög þeirra. Nú er röðin komin að Paul McCartney virðingarvotti.

ENN eru gerðar skífur þar sem tónlistarmenn votta heldri spámönnum virðingu sína með því að flytja vel og miður vel valin lög þeirra.

Nú er röðin komin að Paul McCartney virðingarvotti. Það eru að megninu til amerískir nýrokkarar sem það gera og má þar helsta geta Foo Fighters, sem glíma við "Jet", Ben Folds Five spreyta sig á "Listen To What The Man Said" og Barenaked Ladies taka "Junk". Ennfremur mun Echo & The Bunnymen bregða við með hinu hugljúfa "My Love" svo og tveimur listamönnum sem sótt hafa ríkulega í brunn MacCartneys, þeim Neil Finn fyrrverandi Crowded House-manni og Karl Wallinger í líki sveitar sinnar World Party, sem ætlar að flytja sína útgáfu af "Teddy Boy". Spennandi verður síðan að sjá útkomu samstarfs milli XTC og gamanleikarans Johns Cleese sem ætla að flytja "Uncle Albert/Admiral Halsey".

Rúsínan í pylsuendanum verður síðan útgáfa Beach Boys-goðsagnarinnar og góðvinar McCartneys, nefninlega Brians Wilsons á laginu "Dear Boy" sem Bítillinn fyrrverandi flutti upprunalega á "Ram" frá 1971.

Sannarlega fríður hópur fólks sem vonandi sýnir vinsælasta lagahöfundi allra tíma tilhlýðilega virðingu. Gert er ráð fyrir að útgáfa verði með haustinu.