Djuka yfirheyrður í fangabúðum Serba.
Djuka yfirheyrður í fangabúðum Serba.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á litla sviði Borgarleikhússins verður frumsýnt á morgun hollenska leikritið Mirad, drengur frá Bosníu. Hávar Sigurjónsson fylgdist með forsýningu og ræddi við leikarana og leikstjórann.

ÞAÐ er tvennt ólíkt að heyra sögu einstaklinga sem lent hafa í stríðsátökum eða afrúnnaðar tölur um mannfall á alls óþekktum stöðum í veröldinni. Saga Mirads, þrettán ára drengs frá Bosníu, er átakanleg saga pilts sem missir móður sína í hendur serbneskra hermanna, verður vitni að dauða föður síns og systur hans blæðir út í höndum hans.

Þóttist vera dauður

Dauða föður hans ber að með þeim hætti að þeir feðgar ásamt fjölda annarra bosnískra fanga eru reknir út á jarðsprengjusvæði og hann horfir á föður sinn springa í tætlur. Serbnesku hermennirnir skjóta svo þá til bana sem ekki verða jarðsprengjunum að bráð. Sjálfur læst Mirad vera dauður og um nóttina grefur hann það eina heillega sem hann finnur af föður sínum, höndina, og leggur síðan á flótta yfir endilanga Bosníu til Djuka, föðurbróður síns, og Fazilu, konu hans, í Sarejevo. Þeir eru síðan handteknir að nýju og Djúka er pyntaður og kvalinn í fangabúðum en Mirad er sleppt og kemst fyrir milligöngu Rauða krossins í flóttamannabúðir til Hollands. Þegar Serbar skipta á Djuka fyrir serbneska stríðsfanga fara þau Fazila til Hollands til að finna Mirad en hann er þá horfinn aftur til Bosníu í leit að móður sinni. Henni hafði verið haldið fanginni í nauðgunarbúðum Serba en hélt lífi. Þetta er sönn saga sem gerðist fyrir sjö árum, persónur leikritsins eru enn á lífi, særðar á sál og líkama. "Einu sinni hefur mig dreymt mömmu, að hún kæmi eins og venjulega heim frá markaðinum og færi að elda eins og allt væri eðlilegt," skrifar Mirad í bréfi til Fazilu, frænku sinnar.

Feykt burt eins og laufi af tré

Höfundur þessa átakanlega leikrits er Hollendingurinn Ad de Bont. Hann skrifaði verkið eftir dagbókum Mirads og skrifuðum frásögnum hans af atburðum, því Mirad treysti sér ekki til að tala um dauða föður síns og systur en bauðst til að skrifa það.

Sögumenn leikritsins eru Djuka og Fazila flóttamenn í Hollandi. Leikritið er því ekki aðeins saga af hræðilegu stríði heldur lýsir það einnig hversu erfitt og framandi er að lenda í ókunnugu landi sem allslaus flóttamaður.

"Ég er enginn flóttamaður, því ég hef ekki flúið. Mér var feykt burt eins og laufi af tré. Hver ætli flýi af frjálsum vilja, hver ætli yfirgefi heimili sitt, þorpið sitt eða bæ, landið sitt, án þess að kveðja, hlaupist burt frá fjölskyldu sinni, til þess að komast eitthvert þangað sem hann er ekki velkominn," segir Djuka.

Sýningin er ætluð fyrir nemendur efstu bekkja grunnskóla og verður hún boðin skólunum sem hluti af stærra verkefni, þar sem nemendum yrði veitt fræðsla um ástandið á Balkanskaga og einnig hin fjölþættu hlutverk Rauða krossins og Nýbúasamtakanna á Íslandi. "Þetta er allt í skoðun og þessir aðilar eru að setja niður fyrir sér hvernig best verður staðið að þessu. Við hér í leikhúsinu teljum að nauðsynlegt sé að fylgja sýningunni eftir með slíkri fræðslu þar sem sýningin vekur upp svo margar spurningar að ómögulegt er að skilja unglingana eftir með þær án nokkurra svara," segir Jón Hjartarson.

Óskiljanlegt stríð

"Þetta stríð í Bosníu er manni algjörlega óskiljanlegt. Það er ekki hægt að átta sig á því hvað var verið að berjast um. Sarejevo var stór alþjóðleg borg þar sem allir bjuggu saman og enginn virtist velta því fyrir sér hvort næsti maður væri Serbi, Króati eða Bosníumaður. Bosníumenn voru kallaðir múslímar sem virðist hafa verið út í hött þar sem þeir voru engir múslímar eins og við skiljum það," segir Ari. "Við töluðum við bosnískan lögreglumann sem hér er búsettur, giftur íslenskri konu. Hann er enginn múslími, heldur kristinn, en hann barðist gegn Serbum og særðist fjórum sinnum," segir Rósa Guðný.

"Mér finnst þetta verk vera góð áminning til okkar sem lifum í friðsamlegu samfélagi að flóttafólkið sem kemur til okkar á að baki þessa hræðilegu reynslu. Það kemur með hana með sér inn í þau samfélög þar sem það reynir að setjast niður sem flóttamenn. Þetta er mjög rækilega undirstrikað í verkinu," segir Jón.

"Við verðum að hafa í huga að flóttafólk hefur misst ástvini sína og kemur úr allt öðru samfélagi en hér er Sá sem bjó í Sarejevo á áreiðanlega mjög erfitt með að aðlagast íslenskum smábæ þar sem búa nokkur hundruð manns," segir Ari.

Með hræðilega lífs- reynslu að baki

"Höfundinum tekst að mörgu leyti mjög vel að sýna með beittum hætti hvernig venjulegt fólk sem flosnar upp verður að ganga við hálfgerðan betlistaf, þiggja sífellt af öðrum og kyngja stolti sínu og sjálfsvirðingu," segir Jón.

"Það má ekki gleyma því að allt er þetta gert af mikilli velvild og flóttamenn sem hingað hafa komið hafa átt mikla samúð. Þetta leikrit eykur vonandi á skilning áhorfenda á þeirri hræðilegu lífsreynslu sem flóttamennirnir hafa upplifað og hvers vegna þeir eru hingað komnir," segir Ari.

Þau liggja ekki á þeirri skoðun sinni að leikritið um Mirad sé ekki afþreying eða skemmtun. Þetta er saga sem tekur á og snertir tilfinningar áhorfenda. Enda á leikhúsið ekki síður skyldum að gegna í því efni heldur en eingöngu að sinna afþreyingarhlutverkinu sí og æ, en ábyrgðin gagnvart ungum áhorfendum er að fylgja efninu eftir með viðbótarfræðslu og upplýsingum. Þar reynir á skólayfirvöld að grípa þetta tækifæri sem nú býðst með leikritinu um Mirad, drenginn frá Bosníu.