Þess minnist ég, að mér og þessum heimi kom misjafnlega saman fyrr á dögum. Og beggja mál var blandið seyrnum keimi, því báðir vissu margt af annars högum.

Þess minnist ég, að mér og þessum heimi

kom misjafnlega saman fyrr á dögum.

Og beggja mál var blandið seyrnum keimi,

því báðir vissu margt af annars högum.

Svo henti lítið atvik einu sinni,

sem okkur, þessa gömlu fjandmenn sætti:

að ljóshært barn, sem lék í návist minni,

var leitt á brott með vofveiflegum hætti.

Það hafði veikum veitt mér blessun sína

og von, sem gerði fátækt mína ríka.

Og þetta barn, sem átti ástúð mína,

var einnig heimsins barn - og von hans líka.

- - -

Steinn Steinarr.