Frá Skíðalandsmóti Íslands á Ísafirði.
Frá Skíðalandsmóti Íslands á Ísafirði.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það tekur aðeins rúmar 40 mínútur að fljúga til Ísafjarðar frá höfuðborginni. Fjörðurinn býður upp á gott skíðasvæði og það hafa ófáir landsmenn nýtt sér enda metsala á vetrarkortum skíðasvæðisins í vetur.

Ísafjörður er við Skutulsfjörð og þar mótast náttúrufegurðin meðal annars af sæbröttum fjöllum og löngum og djúpum dölum. Skíðasvæði fjarðarins er að finna í Seljalandsdal og í botni Tungudals. "Umhverfi skíðasvæðisins minnir um margt á skíðasvæði í Evrópu og Skandinavíu. Göngubrautirnar liggja til dæmis í gegnum skógi vaxnar hlíðar í miðju sumarbústaðalands Ísfirðinga," segir Rúnar Óli Karlsson hjá Ísafjarðarbæ. "Nýjar lyftur eru í Tungudal og verið er að gera mælingar á nýjum lyftustæðum. Búið er að koma fyrir lýsingu á gönguskíðasvæðinu á Seljalandsdal og í brekkunum í Tungudal. Um þessar mundir er síðan verið að setja upp lýsingu á göngusvæðinu í Tungudal. Í dalnum er að finna fjölbreyttar brekkur fyrir skíða- og brettafólk, bæði troðnar og ótroðnar. Á sínum tíma var skipuð nefnd um framtíðaruppbyggingu skíðasvæðisins og er hún enn að störfum.

Mikil gróska er hjá Skíðafélagi Ísfirðinga og réðst foreldrafélagið í þá miklu framkvæmd að reisa nýja og glæsilega skíðamiðstöð í Tungudal ásamt bæjaryfirvöldum. Stefnt er að því að hún verði tilbúin næsta vetur. Þar verður meðal annars veitingasala og gistiaðstaða. Gamli skálinn sem þar er núna verður þá færður upp á Seljalandsdal og mun verða þjónustumiðstöð fyrir gönguskíðamenn," segir Rúnar.

Á að bæta við lyftu?

"Mikil endurskipulagning hefur átt sér stað á svæðinu og núna er verið að athuga grundvöll fyrir því að bæta við nýju svæði framar og ofar í Tungudalnum og bæta við lyftu," segir Kristinn Lyngmó, forstöðumaður skíðasvæðis Ísfirðinga. "Þar er nú meðal annars verið að mæla snjóþykkt og annað sem þarf að hafa í huga þegar ráðist er í svona framkvæmdir. Við höfum alltaf troðið göngubrautirnar uppi í Seljalandsdal og þar er í rauninni framtíðaraðstaða fyrir göngumenn því þar kemur snjór snemma. Með nýja svæðinu framar og ofar í Tungudalnum fáum við brekkur fyrir alla en það hefur okkur í raun vantað. Við erum með byrjendabrekkur og svo brekkur fyrir þá sem eru lengra komnir. Þetta er allt verið að skoða. Skíðasvæðið er mjög vel sótt og ég hef aldrei selt annað eins af vetrarkortum og nú," segir Kristinn.

Skíðavika 2000

"Sterk hefð er fyrir hinni árlegu skíðaviku en hún er haldin yfir páskana," segir Rúnar. "Fyrr á árum kom fólk alls staðar að af landinu með Gullfossi til að upplifa skíðaparadísina hér og taka þátt í því menningarefni sem í boði var. Í dag er notast við aðra samgöngumöguleika en þess má geta að það tekur sex til sjö klukkutíma að keyra hingað frá höfuðborginni og einungis 40 mínútur að fljúga. Flugfélag Íslands flýgur til Ísafjarðar oft á dag," segir Rúnar.

"Vesturferðir á Ísafirði bjóða upp á skíðagönguferðir fyrir hópa. Þá er farið upp á heiðarnar og gengið um svæðið. Þetta geta verið ferðir frá tveimur, þremur tímum og upp í dagsferð," segir Sigríður Kristjánsdóttir, rekstrarstjóri Vesturferða. "Við höfum verið með fasta liði í tengslum við skíðavikuna. Þá erum við með skíðagönguferð frá Aðalvík til Hesteyrar á Hornströndum en það er dagsferð. Annars er skíðavikan uppfull af alls konar uppákomum bæði í bænum og á skíðasvæðinu.

Má meðal annars nefna páskaeggjamótið fyrir börnin og Garpamótið fyrir fólk eldra en 35 ára. Svo er það menningarhliðin en þá erum við til dæmis með djasskvöld. Þess má geta að um þessar mundir er verið að bjóða upp á sérstakan skíðapakka til Ísafjarðar á vegum Flugfélags Íslands, bílaleigunnar Hertz og Hótel Ísafjarðar," segir Sigríður.