DRÁTTARBÁTURINN Bjarni lóðs frá Hornafirði tók vélarvana bát, Jóhann Gíslason, í tog á föstudagsmorgun 70-80 sjómílur suður af landinu. Var Jóhann að koma frá Ghana í Afríku þar sem hann hefur verið við botnfiskveiðar frá 1996.

DRÁTTARBÁTURINN Bjarni lóðs frá Hornafirði tók vélarvana bát, Jóhann Gíslason, í tog á föstudagsmorgun 70-80 sjómílur suður af landinu. Var Jóhann að koma frá Ghana í Afríku þar sem hann hefur verið við botnfiskveiðar frá 1996.

Landhelgisgæslan hefur fylgst með ferðum Jóhanns Gíslasonar frá því á fimmtudag en þá töldu skipverjar að þeim mundi ekki duga olía til að ná til hafnar á Íslandi á siglingunni frá Ghana. Til stóð í upphafi að Bjarni lóðs færi með olíu til móts við Jóhann en allt bendir til að óhreinindi í olíunni, sem eftir var um borð í skipinu, hafi verið það mikil að olíusíur hafi stíflast með þeim afleiðingum að skipið hafi orðið vélarvana.

Bjarni lóðs kom að Jóhanni á fjórða tímanum á föstudagsmorgun og gekk vel að koma taug í hann og var gert ráð fyrir því að hann kæmi til hafnar með veiðiskipið í eftirdragi um miðjan dag í gær. Mun þetta vera lengsti aðstoðarleiðangur dráttarbátsins af þessu tagi.