MATT JOHNSON, sá er leiðir hljómsveitina The The, bindur bagga sína ekki sömu hnútum og samferðmennirnir og mörgum þótt erfitt að fylgja honum eftir í tilraunamennsku og sérkennilegheitum. Frá Johnson/The The hafði ekkert heyrst svo lengi að flestir tödu hann vera búinn að syngja sitt síðasta en annað kom á daginn á dögunum þegar hann sendi frá sér skífuna NakedSelf.

Matt Johnson ólst upp við tónlist í íbúð fyrir ofan krá sem faðir hans átti í Lundúnum. Á kránni spiluðu ýmsir merkir tónlistarmenn, þar á meðal Howlin' Wolf, Kinks og Muddy Waters, sem hafði sitt að segja í tónlistaruppeldi piltsins. Hann var og fljótur til að hefja úrvinnnslu áhrifanna því ellefu ára gamall var hann búinn að stofna fyrstu hljómsveitina og fimmtán ára var hann kominn í vinnu sem hljóðmaður í hljóðveri.

Eftir ýmiss konar tilraunir í hljómsveitarrekstri stofnaði Johnson fyrstu gerð af The The 1979 og fór aldrei á milli mála hver réð ferðinni og reyndar var nafnið snemma bara yfirvarp yfir sólóferil hans. Fyrsta smáskífan kom út það ár á vegum 4AD og til að uppfylla samninga kom fyrsta breiðskífan líka út á vegum 4AD.

Fram eftir níunda áratugnum þótti The The með merkilegi sveitum og hljómplötur hennar í hávegum á meðal hljómsveitapælara. Plötur eins og Mind Bomb, Infected og Dusk teljast almennt fyrirtaks verk, en eftir að Dusk kom út kom ekki frá Johnson plata með frumsömdu efni í sjö ár, eða þar til út kom sú skífa er kveikja þessarar samantektar, NakedSelf.

Hugsanlega hefur dregið úr útgáfugleði Johsons að hann var lengi ekki á útgáfusamningi, en hann var fljótur að taka við sér þegar honum bauðst að gefa út hjá Nothing Records, fyrirtæki Trents Reznors úr Nine Inch Nails. Fyrsti skammtur af því er NakedSelf og hefur fengið prýðisdóma víða um heim.