Magnús Björn Brynjólfsson
Magnús Björn Brynjólfsson
Er ekki kominn tími til, spyr Magnús Björn Brynjólfsson, að bændur þessa lands láti af forréttindum sínum gagnvart öðrum landsmönnum og játist undir sömu lög og aðrir þegnar?

JÓHANN J. Ólafsson, stórkaupmaður, ritaði í Mbl 5. feb. sl. og heldur þar fram að lög um þjóðlendur séu stjórnarskrárbrot.

Þó ekki sé ætlunin að gera innihald greinar hans að sérstöku umræðuefni, þá hefur hún eflaust vakið ýmsa til umhugsunar um öll þau fríðindi, styrki og sérhagsmuni, sem bændum hefur verið úthlutað með löggjöf í áraraðir á kostnað hins almenna skattgreiðanda í landinu.

Teikn á lofti

Þó eru teikn á lofti um að tímarnir séu að breytast sbr. t.d. hin nýju náttúruverndarlög nr. 44/1999.

Í þessum lögum eru margar athyglisverðar nýjungar fyrir hinn almenna bæjar- og borgarbúa, sem vert er að gefa gaum. Löngu var tími til kominn að opna almenningi óheftan og frjálsan aðgang að óræktuðu landi innan sem utan girðinga á landareignum lögbýla.

Hver kannast ekki við þann yfirgang bænda, sem viðgekkst í gegnum árin er þeir máluðu pappaspjöld og dreifðu við vegarkanta hér sunnanlands um bann við berjatínslu og bann við einnar nætur gistingu ferðalanga í tjaldi á óræktuðu en afgirtu landi fjarri heimahúsum lögbýla.

Lögin um náttúrvernd heimila nú óheftan umgang allra landsmanna um óræktað land innan girðingar á lögbýlum sér til heilsubótar, skemmtunar og skoðunar.

Að ósekju hefði mátt gera almannaréttinum hærra undir höfði eins og tíðkast á hinum Norðurlöndunum og ganga lengra í þessu efni.

Nú verður það hlutverk náttúruverndarmanna og -samtaka, sveitarfélaga, starfsm. ferðamála um allt land að ganga rösklega fram og kynna rækilega þessi auknu réttindi allra landsmanna fyrir sumarið.

Jarðalögin

Önnur lög eru þó hér til umfjöllunar, sem stórkaupmanninum hefði verið nær að fjalla um í grein sinni en það eru jarðalögin nr. 65/1976 eða nánar tilt. 13. og 14. gr. þeirra, en þær hljóða þannig:

13.gr: "Þar sem skipting jarðar hefur átt sér stað, og bú ekki rekið á úrskiptum jarðarhluta er ráðherra heimilt, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast, að leyfa eiganda og ábúanda jarðar þeirrar, sem skipt var úr, að fengnum meðmælum jarðanefndar og stjórnar Bændasamtaka Íslands að leysa til sín hinn úrskipta jarðarhluta og leggja hann til hinnar upphaflegu jarðar. Á sama hátt er eiganda og ábúanda nýbýlis heimilt að leysa til býlis síns það, sem eftir stendur af landi hinnar upphaflegu jarðar, sé ekki rekinn þar sjálfstæður búskapur. Séu nýbýlin fleiri en eitt, getur einn eigandi krafist þess lands, sem ónytjað er skv. framansögðu. Náist ekki samkomulag um verð, skal um mat og greiðslu bóta fara eftir lögum um eignarnám."

14.gr: "Nú er jörð í sameign, en einn sameigenda rekur bú á jörðinni og hefur þar fasta búsetu, og getur ráðherra þá, ef hagsmunir sveitarfélags krefjast, leyft honum að leysa til sín eignarhluta meðeigenda sinna, enda hafi jarðanefnd og stjórn bændasamtaka Íslands mælt með því. Náist ekki samkomulag um verð á hinum innleystu hlutum, skal fara um mat og greiðslu bóta eftir lögum um framkvæmd eignarnáms."

Samkvæmt þessum lagagreinum eru brotin skýlaus mannréttindi á meirihluta landsmanna. Þar er bændum eftirlitslaust og án skilyrða heimilað að hrifsa til sín eignir annarra, nánast bótalaust. Svo leyfir stórkaupmaðurinn sér að tala um valdníðslu og valdarán ríkisins til jarða, sem væntanl. eru án þinglýstra heimildarskjala eða þá skjala, sem haldin eru svo miklum annmörkum að ekki verða lesin nein eignarréttindi af þeim. Það er ekkert óeðlilegt að bændur verði að sanna eignarrétt sinn, skorti þá þinglýstar eignarheimildir þar um. Sá sem heldur fram eignarrétti, verður að sjálfsögðu að færa sönnur á réttindi sín.

Ég nefni hér sérstakl. 13. og 14. gr. jarðalaga, sem eru löngu orðnar úreltar og standast ekki nútíma kröfur um jafnræðisreglu og eignarréttarákv. stjórnarskrár. Jarðalögin hafa einungis orðið til skaða hingað til, - þau hafa skapað úlfúð og illindi milli náinna ættingja, splundrað fjölskyldum og gert það að verkum að bændur, sem annars áttu samúð og velvilja bæjar- og borgarbúa mega nú þola óvild og andúð.

Með þessum lagagreinum jarðal. er ábúanda jarðar heimilað að taka undir sig land sameigenda sinna nánast án nokkurrar ástæðu. Honum dugar eins og dæmin sanna einungis að halda fram þeirri fráleitu staðhæfingu "að hann þurfi á landinu að halda", jafnvel þó allar ytri aðstæður tali gegn honum eins og t.d. þegar nánast allan bústofn vantar í því formi að hann á engan mjólkurkvóta, lítinn kindakjötskvóta en nokkra tugi hrossa, sem eru algjörlega verðlaus, þar sem enginn vill leggja sér þau til munns.

Bandamennirnir

Og hvernig má það vera að bændur eiga svo auðvelt með að hirða eigur annarra sem búa í borg eða bæ? Jú, þeir eiga sér sterka bandamenn.

Jarðalögin skipa svo að umsagnaraðilar verði að mæla með innlausn bóndans vegna þess jarðarparts, sem hann ætlar að hirða af sameigendum sínum. Og hverjir eru þessir bakhjarlar ? Þeir eru:

1. Sveitarstjórn eða hreppur, þar sitja nágrannar bóndans og vinafólk.

2. Jarðanefnd, - þar situr annar hlutdrægur hópur aðall. nágrannar bóndans.

3. Samtök bænda, - allir vita hvern þau styðja.

4. Landbúnaðarráðuneytið, - óþarfi að fjölyrða um það á hvers bandi sá hópur embættismanna er.

En lesandi góður, hverjir eru þá talsmenn sameigendanna skv. lögunum ? Því er fljótsvarað , - þeir eru engir.

Ofangreindar stofnanir valda ekki hlutverki sínu með nokkrum hætti enda var þeim alls ekki ætlað það í upphafi. Þeim var ætíð ætlað að sigla undir fölsku flaggi og ganga á eignarrétt annarra landsmanna með duldu ofbeldi, sem jarðalögin beinlínis gáfu þeim heimild og skipun um. Sameigendur jarða, sem búa í bæjum og borg, munu aldrei fá hlutlausa umfjöllun og meðferð skv. þessum þjófaákvæðum jarðalaganna. Landbúnaðarráðuneytið hefur hvað eftir annað gengið fram fyrir skjöldu og afmáð mannréttindi með atbeina jarðalaganna og viðhaldið fullkomnum ójöfnuði í þessu landi með því að leyfa bændum að beita slíku ofríki að margir, sem hlut eiga að máli, falla í stafi og verða klumsa eins og hross, - slíkt er vonleysið.

Bóndi ætlar sér sumarhús borgarbúa

Með jarðalögunum er staðfest hyldýpi milli borgar- og bæjarbúa, sem kunna að eiga jarðarpart í lögbýlisjörð og þeirra ábúenda, er yrkja jörðina.

Nú er svo komið að landbúnaðarráðuneytið hefur úrskurðað að bóndi nokkur norður í landi megi innleysa allar eignir sameigenda sinna og gildir þá einu hvort um sumarhús á úrskiptum jarðarparti og séríbúð í stóru íbúðarhúsi er að tefla.

Þetta ættu nú að vera tíðindi fyrir félag sumarhúsaeigenda og alla þá er eiga sumarhús og íbúðir á landareignum lögbýla. Þeir munu vakna einn góðan veðurdag við það að bóndinn klappar þeim á öxlina og segir þeim að hundskast af veröndinni á sumarhúsinu, því nú sé þetta hans eign.

Og með hvaða rökum fær bóndinn þessa eign ? Jú, þar sem "ferðaþjónusta bænda" er orðin löggilt búgrein skv. samþykkt búnaðarþings, þá fellur sumarhúsið og séríbúðin undir hugtakið "búskapur" á sama hátt og kjötframleiðsla bóndans, allt skv. skilgreiningu 13. og 14. gr. jarðalaganna.

Og svo leyfir stórkaupmaðurinn sér að tala um valdníðslu og valdarán gagnvart bændum! Svari nú hver fyrir sig.

Afnám 13. og 14. jarðalaganna

Er ekki kominn tími til að afnema þessi afturhaldssömu lög og hugmyndir, sem jarðalögin standa fyrir? Þau hafa einungis valdið bændum tjóni þegar upp er staðið, splundrað vinum og fjölskyldum og búið til ójöfnuð milli þegna þessa lands.

Lög þessi áttu e.t.v. að halda sveitunum í byggð og koma í veg fyrir að jarðir skiptust í margar einingar milli afkomenda bænda. Reyndin hefur bara ekki orðið eins og til var stofnað, - kjarnfóðurgjald, breyttar neysluvenjur landsmanna, atvinnutækifæri og borgarmenning hafa dregið bændur til borgar og bæja. Jarðalögin hafa aldrei skipt sköpum fyrir nokkurn bónda, - þau hafa aðeins bakað honum tjón þvert ofan í tilgang þeirra. Hafi það verið ætlun löggjafans að halda bændum og skylduliði hans í sveitum þá hefur sú tilraun mistekist hrapallega. Bændur hefðu aldrei átt að taka það í mál að fella niður lögin um vistabandið á sínum tíma, - þá væru sveitirnar fullar af fólki.

Leið til lausnar

Eina skynsamlega lausnin, komi ágreiningur upp milli sameigenda, er að halda uppboð til slita á sameign að því gefnu að sáttatilraunir hafi ekki borið árangur en það er meginregla í réttarfari og stjórnsýslurétti. Þetta er lausn er byggir á jafnréttisgrundvelli og gerir það að verkum að raunverð mun verða greitt fyrir hina umdeildu eign.

Því er skorað hér með á Alþingi að það afnemi 13. og 14. gr. jarðalaganna hið fyrsta enda eru til mun heppilegri leiðir til að jafna ágreining milli manna sbr. áðurnefnda aðferð uppboðslaganna en hún er í fullu samræmi við jafnræðisákvæði stjórnarskrár. Jarðalögin æpa hins vegar gegn öllum ákv. um jafnræði þegnanna og friðhelgi eignarréttarins.

Er ekki kominn tími til að bændur þessa lands láti af forréttindum sínum gagnvart öðrum landsmönnum og játist undir sömu lög og aðrir þegnar ?

Höfundur er héraðsdómslögmaður.