Bræðurnir Jón og Gunnar Hólm reka Stál og stansa.
Bræðurnir Jón og Gunnar Hólm reka Stál og stansa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
STOFNANDI fyrirtækisins eru bræðurnir Jón og Gunnar Hólm og var Jón í fyrstu einn innanbúðar á meðan Gunnar var við nám í Danmörku. Síðan fjölgaði starfsmönnum jafnt og þétt. Jón Hólm er fæddur í Reykjavík í nóvember 1950.

STOFNANDI fyrirtækisins eru bræðurnir Jón og Gunnar Hólm og var Jón í fyrstu einn innanbúðar á meðan Gunnar var við nám í Danmörku. Síðan fjölgaði starfsmönnum jafnt og þétt. Jón Hólm er fæddur í Reykjavík í nóvember 1950. Eftir venjulega skólagöngu fór hann til vinnu hjá Jarðborunum 16 ára gamall. Þar var hann næstu árin, m.a. við störf við Búrfellslínu 2, en þá bauðst honum að fjárfesta í tveimur jarðýtum sem voru "á góðu verði". "Þetta stóð til boða, verðið var gott, ég þekkti inn á allt og alla í þessari grein og næg var vinnan," segir Jón og síðan bætti hann um betur og fór í vörubílaútgerð, festi kaup á einum slíkum bíl. Svona gekk þetta hjá Jóni Hólm fram til ársins 1978, en þá var komin "helv. deyfð í allt og ekkert að gera," eins og Jón kemst að orði og í kjölfarið á því seldi hann vinnuvélarnar og flutti til Svíþjóðar. Þar nam hann meðal annars "móta- og stansasmíði". Eftir nokkur ár í Svíþjóð lá leiðin aftur til Íslands, enda voru horfur batnandi heima fyrir og Jón hafði gætt þess að brjóta ekki allar brýr. Seldi til dæmis ekki húsið sitt. Eftir að hafa starfað í nokkur ár hjá Sigurplasti, stofnaði Jón fyrirtæki sitt Stál og stansa. Jón er giftur Grétu Jóhannsdóttur bankafulltrúa og eiga þau tvær dætur, Sólveigu og Jóhönnu Lilju sem eru engin börn lengur, 25 og 20 ára gamlar.

Gunnar Hólm er fæddur í Reykjavík 1961. Hann er menntaður vélstjóri og rekstrartæknifræðingur frá háskóla í Óðinsvéum. Eigikona hans er dönsk, Lise Sörensen og eiga þau tvö börn, Jakob og Maríu.

Bíladellan í blóðinu

Ef við skoðum aðeins nánar hvað "móta- og stansasmíði" er, lýsir Jón því þannig að það sé "fínsmíði".

"Það er alltaf verið að spyrja mig að þessu. Svíarnir kalla þetta bara upp á ensku "toolmaker". Þetta er eiginlega fleira en eitt í senn, mótasmíði, rennismíði, fínsmíði. Eiginlega er ég lærður í að smíða verkfæri til að búa til önnur verkfæri eða hluti . Jafnólíkir hlutir eins og bílainnrétting og kóktappi eru smíðuð í mótum. Mótin eru stansar. Mitt fag er að smíða þessi mót," segir Jón og heldur svo áfram:

"Með þetta stofnuðum við Gunnar fyrirtækið og var ég fyrst bara einn, Gunnar var erlendis í námi. Hins vegar hefur bíladellan alltaf fylgt mér. Hún er í blóðinu og ég hef meira að segja keppt í bílaíþróttum, varð t.d. tvöfaldur Íslandsmeistari í rallíkrossi árin 1984 og 1985. Þegar ég var kominn heim færðist bíladellan yfir í ferðadellu. Ég keypti gamlan Ford Econoline og fór að fikta við að breyta honum í torfæru- og ferðabíl. Það að ég breytti mínum eigin bíl í frístundum varð þannig kveikjan að því fyrirtæki sem við bræðurnir eigum og rekum í dag. Fyrirtækið stofnuðum við árið 1987 og jeppabreytingar eins og menn þekkja þær síðustu árin varla byrjaðar. Fyrstu þreifingarnar í þá veru byrjuðu þó upp úr 1985. Þessar jeppabreytingar voru greinilega að færast í aukana og ég naut þess að þekkja marga í bíladellunni. Við fengum því fljótlega næg verkefni við að breyta jeppum fyrir aðra, einnig að smíða hluti. Það hefur alltaf verið mikið um slík verkefni og enn í dag smíðum við flest sem ekki er flutt inn í þessar breytingar, m.a. fyrir samkeppnisaðilana í greininni."

Hvernig gengur það upp?

"Það gengur bara mjög vel. Menn þekkjast vel, þetta er ekki stór hópur sem stendur í þessu og menn þekkjast. Allir erum við kunningjar og vísum hver á annan ef því er að skipta. Það er svo mikið að gera að við erum tæpast að skaða okkur þótt við höldum góðu sambandi við þá sem vinna sömu verkin. Hins vegar eru skúrakarlar í þessu sem eru ekki allir vandaðir í vinnubrögðum. Ég gef þeim ráð ef þeir leita til mín, en illa breyttur jeppi er beinlínis hættulegur í umferðinni. Það er því mikið í húfi að menn standi saman sem kunna til verka."

Eru ekki einhver leyfi sem menn þurfa að hafa milli handanna?

"Það er nú þannig, að allir mega gera sumt sem að svona breytingum kemur. En svo eru hlutir sem útheimta réttindi, t.d. til ýmiss konar smíðavinna, s.s. við stýrisstangir. Þá þurfa menn einnig að hafa suðuhæfnispróf og fleira mætti nefna."

En hvenær má heita að sprenging hafi orðið í eftirspurninni?

"Þetta byrjaði reyndar fljótlega að hlaða utan á sig, en sprengingin kom árið 1990 og stóð fram á árið 1992. Nú síðustu árin hefur kúrfan verið bein, en það er samt yfirdrifið nóg að gera. Ég get nefnt sem dæmi um umsvifin, að við höfum breytt hátt í 300 Econoline-bílum. Fyrir 5-6 árum vorum við komnir í 140, en hættum þá að telja. Við höfum komist í að breyta 30 slíkum bílum á einu ári. Og þá er ég ekki að tala um alla jeppana."

En hvað er breyttur Econoline og hvað kostar slíkur?

"Ég veit ekki hvort ég má tala um það, en við höfum breytt Econoline-bílum fyrir um þrjár milljónir. Econoline með öllu, eins og sagt er, er með framdrifi, þeir koma jú bara afturdrifnir, þeir eru settir á 44 tommu dekk, með skriðgír, læsingum, aukatönkum, toppgrind, spili, kassa og mörgu fleira. Menn koma einfaldlega með þá hráa til okkar og fá þá fullbúna og skoðaða. Mest af aukabúnaðinum flyt ég inn, annað smíða ég. Við erum með algera sérstöðu þar sem við erum með langstærsta lager í landinu af hjöruliðskrossum og drifsköftum. Þá erum við með einu ballanseríngarvélina í landinu. Hún var talsverð fjárfesting á sínum tíma og stendur fyrir sínu eftir öll árin."

Er nú ekki hægt að fá einhverjar breytingar á jeppanum fyrir minna en 3 milljónir?

"Jú auðvitað. Það má segja að þau verkefni sem við tökum að okkur spanni í kostnaði frá svona rétt innan við hundrað þúsund og upp í þessar þrjár milljónir sem er toppurinn á kúrfunni. Lágmarksupphækkun á Patrol-jeppa kostar t.d. rétt innan við hundrað þúsund krónur. Verkefnin geta tekið frá einum og hálfum degi upp í einn og hálfan mánuð, allt eftir því hvað beðið er um hverju sinni."

75% viðskiptavina eru fyrirtæki og stofnanir

Menn gætu haldið að viðskiptin snerust að mestu um jeppadellukarla, fólk sem vildi komast á jökla og Jón segir að í upphafi hafi það að mestu verið raunin. Þá var mikið að gera og kannski ekki síst á kvöldin og um helgar, en þannig endurspeglaðist að Jón og félagar hans voru að þjónusta áhugamál fólks. Það leitaði til hans þegar það átti sjálft frí. En hann segir að fljótlega hafi það breyst og það verulega. "Í dag eiga fyrirtæki og stofnanir 75% af veltunni hjá okkur. Stórir viðskiptavinir í gegnum tíðina hafa verið t.d. Rarik, Landsvirkjun, Síminn, Lögreglan, sjúkrabílar bílar björgunarsveita og skólabílar að ég nefni ekki marga aðila sem eru í ferðaþjónustu."

Þú nefndir veltuna, hver er veltan hjá svona fyrirtæki og hvað er þetta umfangsmikið? Hefur þú t.d. tölu yfir þá bíla sem þú hefur breytt eða hvað þú breytir mörgum á ári?

"Veltan er svona innanhússmál, við getum sagt að hún hafi aukist seinni árin. Varðandi umfangið þá nefndi ég áðan að ég hefði breytt nærri 300 Econoline-bílum, en lengra nær minni mitt og yfirsýn ekki. Ég hef ekki tölu yfir þetta. Umfangið er það, að ég byrjaði einn og fékk fljótlega félaga, bæði vegna mikilla anna og ekki síst vegna þess að ég axlarbrotnaði í vélsleðaslysi um árið og gat ekki sinnt verkefnunum sjálfur. Ég réð þá til mín pípulagningarmann sem ég útskrifaði í smíðinni. Hann er nú hættur hjá mér og starfar sjálfstætt og er mjög fær, en starfsmönnum fjölgaði jafnt og þétt næstu árin. Síðustu árin hafa starfað hjá mér að jafnaði 10-11 manns. Þeir verða ekki fleiri í bili, því plássið okkar stendur ekki undir fleiri starfsmönnum þótt verkefnastaðan gæfi í sjálfu sér tilefni til þess að fjölga. Við erum fyrir löngu búnir að sprengja utan af okkur þetta húsnæði hér í Vagnhöfðanum."

Er þá stutt í að þið flytjið í stærra húsnæði einhvers staðar?

"Við getum orðað það þannig að við höfum gert okkur ljósa grein fyrir því að þörfin á flutningum sé fyrir hendi og það má vissulega fara að líta í kring um sig. Hins vegar er ekkert farið í gang og málið ekki komið á það stig að neinar ákvarðanir liggi fyrir. Ég held að það sé t.d. mikilvægt að bíða átekta og sjá hvernig ástandið verður í þjóðfélaginu á næstu misserum, t.d. með tilliti til kjarasamninga og hvort friður verður á vinnumarkaðinum eða ekki.

Annars er það merkilegt hvað fer í gegnum hugann þegar maður stendur frammi fyrir svona vangaveltum, að stækka við sig eða ekki. Ég geri mér grein fyrir því að við eigum fárra kosta völ í stöðunni, en þessi staða rifjar upp hvernig við félagarnir litum á þessi mál á árum áður. Þegar við vorum t.d. tveir eða þrír í litlum skúr í Súðarvoginum höfðum við það bara helv. gott. Þá var svipuð staða komin upp, verkefnin virtust óendanleg, en við spurðum okkur, hvað viljum við blása okkur mikið út? Við létum það eftir okkur að stækka verulega og útkoman er sú að það er svo mikið að gera að það er með herkjum að maður kemst í fárra daga frí. Það var lengi svo slæmt að ég gat ekkert farið. Ég er t.d. með mikla veiðidellu og komst aldrei frá. Þess vegna var það mikill fengur að fá Gunnar bróður minn til starfa í fyrirtækið. Nú kemst maður frá af og til. Hins vegar asnaðist ég til að smita Gunnar af veiðidellunni, fór með hann í Víðidalsá þar sem hann veiddi sinn Maríulax, og síðan er hann orðinn verri af dellunni en ég. En við stundum bara veiðiskapinn, gallinn er bara sá að við getum ekki gert það saman."

Bjart framundan

Jón Hólm segir að bjart sé framundan hjá fyrirtæki þeirra bræðra, enda sé ekkert lát á bílainnflutningi landsmanna. Verkefni séu næg og auk þess sé mikil aukning í sölu og smíði á varahlutum. "Það er aldrei dauð stund á renniverkstæðinu og það hefur einnig færst í vöxt að við smíðum í vinnuvélar. Þar fyrir utan erum við hér að vinna við það sem við höfum gaman af og höfum orðið mikla þekkingu og reynslu á okkar sviði. Við þurfum einungis að hafa víðara til veggja, þá er ekkert lengur til að kvarta út af."

Eftir Guðmund Guðjónsson