Tugir manna leituðu tveggja barna sem lentuundir snjóhengju við bæinn Austurhlíð í Biskupstungum á mánudag.

Tugir manna leituðu tveggja barna sem lentuundir snjóhengju við bæinn Austurhlíð í Biskupstungum á mánudag. Frændsystkinin, Níels Magnús Magnússon og Melkorka Rut Bjarnadóttir, fundust heil á húfi, en þá höfðu þau verið grafin í fönn á tveggja til þriggja metra dýpi í um tvær klukkustundir.

UM 200 af rúmlega 560 sjúkraliðum sem starfa hjá Ríkisspítölunum og Sjúkrahúsi Reykjavíkur sögðu upp störfum fyrir mánaðamótin febrúar/mars með þriggja mánaða fyrirvara og taka uppsagnirnar því gildi 1. júní nk. hafi þær ekki verið dregnar til baka fyrir þann tíma. Uppsagnirnar má rekja til óánægju með kjarasamninga.

Verð á olíu til fiskiskipa hefur á einu ári hækkað um 66%, farið úr 12,28 krónum á lítrann í 20,44 krónur, eftir 4,1% hækkun á verði gasolíu til fiskiskipa í vikunni. Olíukostnaður útgerðarinnar eykst við þetta um 200 milljónir króna og miðað við ársgrundvöll hefur olíukostnaður útgerðarinnar því hækkað úr um þremur milljörðum króna í fimm.

Meira en 500 milljóna króna tap varð á rekstri söluskrifstofu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hf. í Rússlandi á síðasta ári og verður skrifstofunni lokað. Tapið hefur þegar verið afskrifað að fullu.