Hekla byrjar að gjósa Gos hófst í eldfjallinu Heklu kl. 18.17 á laugardagskvöld í síðustu viku og var mestur krafturinn í gosinu fyrstu tvo klukkutímana eftir að það hófst en síðan fór það dvínandi.

Hekla byrjar að gjósa

Gos hófst í eldfjallinu Heklu kl. 18.17 á laugardagskvöld í síðustu viku og var mestur krafturinn í gosinu fyrstu tvo klukkutímana eftir að það hófst en síðan fór það dvínandi. Fyrstu táknin um væntanlegt gos í eldfjallinu komu fram um kl. 17 á laugardeginum á jarðskjálftamælum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Hálftíma áður en það hófst var tilkynnt í Ríkisútvarpinu að það kæmi innan 20-30 mínútna og gekk það eftir. Steig gosmökkurinn í allt að 45 þúsund feta hæð.

Fimmtán hundruð manns í Þrengslum

Fimmtán hundruð manns sátu föst í bílum sínum næturlangt í Þrengslum aðfaranótt mánudags en fólkið hafði verið á ferð um Suðurland til þess að berja eldgosið í Heklu augum. Síðdegis á sunnudag brast hins vegar á hið versta veður í Þrengslunum með þeim afleiðingum að bílar festust þar hundruðum saman. Björgunarsveitir aðstoðuðu við að flytja mannskapinn úr bílunum til byggða og er talið að þetta hafi verið einhver umfangsmesta björgunaraðgerð sem farið hefur fram hér á landi. Bílarnir sem skilja þurfti eftir í Þrengslunum skiptu hundruðum.

Engin samkeppni lengur í áætlunarflugi

Íslandsflug hefur leigt Flugfélagi Íslands báðar ATR-flugvélar félagsins frá og með 1. apríl og mun hætta áætlunarflugi á þeim flugleiðum innanlands þar sem félagið hefur átt í samkeppni við Flugfélag Íslands. Það er á flugleiðunum milli Reykjavíkur, Akureyrar, Egilsstaða og Vestmannaeyja. Við það verður engin samkeppni lengur í áætlunarflugi innanlands.