Þetta orðatiltæki er alkunna í máli okkar þegar frá fornöld, svo sem lesa má um í Mergi málsins eftir Jón G. Friðjónsson prófessor. Einhverjum bregður í brún merkir, að e-m hnykkir við, e-r hrekkur við óvænt atvik. Honum brá í brún, þegar hann sá...
Þetta orðatiltæki er alkunna í máli okkar þegar frá fornöld, svo sem lesa má um í Mergi málsins eftir Jón G. Friðjónsson prófessor. Einhverjum bregður í brún merkir, að e-m hnykkir við, e-r hrekkur við óvænt atvik. Honum brá í brún, þegar hann sá ákæruna. - Henni brá í brún, þegar hún fann ekki lyklana. Elztu dæmi frá síðari öldum eru frá seinni hluta 17. aldar: Mér bregður í brún; það brá mörgum í brún. Sagnorðið er ópersónulegt og fylgir því ævinlega þágufall, svo sem tilgreind dæmi sýna. Þess vegna var ekki undarlegt, þótt mér brygði í brún og það meira en lítið, þegar ég las eftirfarandi málsgrein á Netinu 17. janúar sl.: "Margan brá í brún þegar AOL hafði hesthúsað Time Warner." Já, þannig var ritað í frásögn um samruna tveggja risafyrirtækja. Ég á ekki von á öðru en þeim öðrum, sem lásu þessa frétt, hafi einnig brugðið í brún. Góður málfræðingur, sem ég sagði frá þessu orðalagi, gat helzt látið sér detta í hug, að hér kæmi fram fælni eða hræðsla þess, sem ritaði, við svonefnda þágufallssýki, sbr. þegar sagt er: honum langar, honum vantar í stað hins upprunalega og rétta: hann langar, hann vantar. Ekki er þessi skýring óhugsanleg, en fyrir bragðið hefur ritarinn fallið jafnvel í enn verri pytt en þágufallssýkin er. - J.A.J