SAMTALS fóru 1.822.494 farþegar um níu stærstu áætlunarflugvelli Íslands árið 1999 og er skiptingin þannig, að tæplega 480 þúsund flugu innanlands, en rúmlega 1,3 milljónir í millilandaflugi, að því er segir í fréttatilkynningu frá Flugmálastjórn.

SAMTALS fóru 1.822.494 farþegar um níu stærstu áætlunarflugvelli Íslands árið 1999 og er skiptingin þannig, að tæplega 480 þúsund flugu innanlands, en rúmlega 1,3 milljónir í millilandaflugi, að því er segir í fréttatilkynningu frá Flugmálastjórn. Þetta svarar til þess, að 1.371 farþegi hafi flogið innanlands og 3.681 í millilandaflugi dag hvern allt árið um kring að meðaltali, eða rúmlega fimm þúsund manns.

Á síðasta ári fjölgaði farþegum í innanlandsflugi um þrjá af hundraði frá 1998 og um sjö af hundraði í millilandaflugi.

Fjölgunin í innanlandsflugi nemur liðlega 15.500 farþegum, sem jafngildir 311 ferðum með fullsetnum 50 sæta flugvélum. 1998 fjölgaði innanlandsfarþegum um 21.000.

Á Hornafirði varð aukningin mest í farþegaflugi, 12% eða 2.100 farþegar. Á Egilsstöðum var aukningin 9% eða 6.000 farþegar, á Akureyri 7% eða 13.200 farþegar, í Vestmannaeyjum 6% eða 5.300 farþegar og á Sauðárkróki og í Reykjavík 3%, eða 400 farþegar á fyrri staðnum og 12.300 á þeim síðari. Á Húsavík fækkaði farþegum hins vegar um 28% eða 2.100 farþega og um 4% á Ísafirði eða 2.100 farþega. Hefur farþegum í innanlandsflugi fjölgað jafnt og þétt í sex ár, segir í tilkynningunni.

7% aukning á Keflavíkurflugvelli

Farþegum í millilandaflugi fjölgaði um 92.000 á þeim fjórum flugvöllum á Íslandi sem teljast alþjóðlegir. Það er sambærilegt við 614 flugferðir með fullsetnum 150 sæta þotum.

Aukningin var 7% á Keflavíkurflugvelli en rúmlega 1,3 milljónir farþega fóru um hann á árinu. Alls fóru tæplega 30.000 farþegar um hina flugvellina þrjá. 22.300 fóru um Reykjavíkurflugvöll og er það 1% aukning. Aukning var 71% á Egilsstöðum og fóru tæplega þúsund millilandafarþegar um flugvöllinn þar. Mest fjölgaði farþegum hins vegar á flugvellinum á Akureyri. Um þann flugvöll fóru rúmlega 5.000 millilandafarþegar, sem er 127% aukning milli ára.

Áningarfarþegar á Keflavíkurflugvelli voru 358.215 í fyrra eða 27% af heildarfarþegafjölda. Það er fækkun um 9.000 farþega milli ára eða rúmlega 2%. Flestir áningarfarþegar fóru um Keflavíkurflugvöll 1971, eða um 375.000, að því er segir í tilkynningu Flugmálastjórnar.