"Þakka þér fyrir að gefa mér ástæðu til að greiða atkvæði. Ég held að þú sért heiðarlegur maður." Ónefndur bandarískur kjósandi við John McCain.

Hvað eiga John McCain og Jörg Haider sameiginlegt? Jú, þeir eiga vinsældir sínar ekki síst að þakka því, að kjósendur vilja breytingu. Kjósendur vilja nánar til tekið þá breytingu, að þeir vilja losna við kallana sem hafa setið við stjórnvölinn svo lengi, þá sem eru allir eins, hugsandi um sjálfa sig eingöngu.

McCain og Haider eiga það líka sameiginlegt að hugmyndir þeirra eru ekki allar sérlega huggulegar. Haider hefur gefið í skyn að nasistastjórnin í Þýskalandi hafi ekki verið með öllu ill, og hann er andvígur því að innflytjendur fái að setjast að í Austurríki. McCain er andvígur fóstureyðingum og hefur lýst aðdáun sinni á Ronald Reagan.

En þrátt fyrir að hafa svona vafasamar hugmyndir að leiðarljósi hafa þessir menn báðir náð að höfða til kjósenda svo um munar. Eða hvað? Getur verið að vinsældir þeirra stafi kannski að miklu leyti af óvinsældum annarra stjórnmálamanna?

Stjórn sósíaldemókrata hafði setið að völdum í Austurríki frá því elstu menn rámaði í. Pabbapólitík og hyglingar flokksbræðra - sem löngum hafa tíðkast á Íslandi - voru allsráðandi þar í landi. Enginn átti nokkurn möguleika á að komast nokkuð, ekki í pólitík, ekki í listalífinu, ekki í menntalífinu, nema hann ætti pólitíska lagsbræður að. Alveg eins og á Íslandi.

Jafnvel þótt maður viti kannski ekki alveg hvernig maður vill hafa hlutina, þá getur maður oft auðveldlega komið auga á það að eitthvað sé farið úrskeiðis. Það á við um svona fyrirkomulag. Þegar verðleikar skipta engu máli, og pólitísk tengsl öllu. Það er eitthvað bogið við það, þótt maður verði að samþykkja að það sé ekki auðvelt að láta verðleika ráða. Hver á þá að meta þá verðleika?

Það var fyrst og fremst ósætti Austurríkismanna við þetta fyrirkomulag sem olli því að Frelsisflokkur Haiders fékk mikið fylgi í síðustu kosningum. Ekki að fólk væri svo sérstaklega hrifið af stefnumálum flokksins - Haider er líka frægur fyrir að skipta um skoðun eftir því sem hentar. Kjósendur vildu bara losna við klíkuna sem öllu hefur ráðið.

Auðvitað er málið ekki svona sáraeinfalt. Einhverjir eru sannarlega andvígir frekari innflyjendastraumi og jafnvel eru einhverjir að vona að Haider reynist sannur nasisti. Það er alls ekki útilokað að hann eigi eftir að reynast beinlínis hættulegt afl í evrópskum stjórnmálum.

En ef slíkt kemur í ljós, þá er út í hött að kenna austurrískum almenningi um. Þeir sem við er að sakast, eru stjórnmálamenn sem hafa setið óhaggaðir á sífitnandi rassi og svalað valdafíkn sinni með því að leggja undir sig samfélagið líkt og krabbamein sem smám saman sýkir allan líkama sjúklingsins. Það sem veldur því að gripið er til harkalegra eiturefna til að útrýma meininu er ekki sérstök aðdáun á eitrinu, heldur einbeittur vilji til að sigrast á sjúkdómnum.

Í forkosningum Repúblíkanaflokksins í Bandaríkjunum hefur McCain vakið athygli fyrir að koma hreint fram (að því er virðist). Hann vill óður og uppvægur ræða við fréttamenn, en reynir ekki að hafa stjórn á því hvaða upplýsingar eru veittar. Og fréttamenn segja frá því furðu lostnir að McCain svari í rauninni því sem hann sé spurður að, en fari ekki undan í flæmingi eða grípi til niðursoðinna frasa eins og stjórnmálamönnum sé tamt.

Það sem er í rauninni furðulegt er að þetta skuli vera furðulegt. En þetta hefur svo sannarlega haft góð áhrif á kosningabaráttu McCains, því fréttamenn eru duglegir að greina frá því sem hann hefur að segja, og þeir eru óvenjulega mjúkhentir í umfjöllun sinni miðað við að umfjöllunarefnið er stjórnmálamaður. En McCain er einfaldlega ekki alveg venjulegur stjórnmálamaður. Það er næstum eins og hann sé bara alls ekki stjórnmálamaður, og það kunna fréttamenn svo sannarlega að meta - hundleiðir á hefðbundnum undanslætti og lygi pólitíkusa.

Ekki er vafi á að George W. Bush er eftirlætis frambjóðendaefni flokkshollra Repúblíkana sem eiga allt sitt undir pólitískum samböndum og gamla góða hyglingahættinum. Hann er líka eftirlæti strangtrúaðra. Og Bush lagði upp með digrustu kosningasjóði sem sögur hafa farið af. McCain, aftur á móti, hefur aflað tekna með sama hugsunarhætti og virðist hafa verið leiðarljós hans gegnum lífið: Þetta reddast.

Einnig virðist McCain njóta þess hvað líf hans hefur verið gerólíkt lífi keppinautarins, forsetasonarins Bush. (Hver var að tala um pabbapólitík?) Eins og einhver benti á, McCain lifði af vist í fangabúðum, Bush lifði af vist í sumarbúðum. McCain hefur þurft að hafa fyrir hlutunum sjálfur, en Bush fæddist með silfurskeið í munninum og hefur borðað með henni allar götur síðan.

Allt kemur þetta heim og saman í hugum margra kjósenda. Jafnvel þótt ólíklegt megi teljast að McCain reddi sér alla leið í Hvíta húsið hefur hann haft áhrif. Hann virðist vera öðru vísi en þeir stjórnmálamenn sem eru á góðri leið með að sannfæra mann um að lýðræði sé í rauninni bara húmbúkk, því stjórnmál snúist í rauninni um það eitt að ná völdum og halda þeim, hvað sem það kostar.

Kristján G. Arngrímsson