[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TÖLUVERÐ breyting hefur nú verið gerð á Gestakorti Reykjavíkur sem leit fyrst dagsins ljós árið 1992.

TÖLUVERÐ breyting hefur nú verið gerð á Gestakorti Reykjavíkur sem leit fyrst dagsins ljós árið 1992. "Nýja kortaútgáfan mun væntanlega líta dagsins ljós í þessum mánuði, " segir Vilborg Guðnadóttir, forstöðumaður Upplýsingastöðvar ferðamála í Reykjavík. "Kortið veitir handhafa þess aðgang að strætisvögnum Reykjavíkur, nokkrum söfnum og menningarstofnunum í borginni og að sundlaugum borgarinnar. Sem dæmi um söfn og menningastofnanir má nefna Listasafn Íslands, Kjarvalstaði, Ásmundarsafn og síðar meir Hafnarhúsið. Einnig má nefna Listasafn ASÍ, Árbæjarsafn og stofnun Árna Magnússonar," segir Vilborg.

Þrískipting korta

Að sögn Vilborgar eru kortin þrískipt. Hægt er að kaupa sólarhringskort sem kostar 900 krónur, tveggja daga kort kostar 1200 krónur og þriggja daga kort kostar 1500 krónur.

Kortið mun meðal annars verða selt í Upplýsingamiðstöð ferðamála í Bankastræti og á hótelum og gistiheimilum í Reykjavík. "Kortið kom fyrst út árið 1992. Töluverð breyting hefur orðið síðan þá en nú er búið að auka fjölbreytni þess. Áður voru þetta eingöngu borgarstofnanir og fyrirtæki en nú eru þetta líka bæði ríkis- og einkasöfn," segir Vilborg.

"Fram til þessa hefur kortunum nánast eingöngu verið beint að erlendum ferðamönnum en núna munum við gefa út kynningarefni þannig að þegar viðkomandi kaupir kortið þá fær hann bækling með nánari upplýsingum um þá aðila sem eiga í hlut. Bæklingurinn verður gefinn út á fjórum tungumálum, á íslensku, ensku, dönsku og þýsku. Kortið er aðallega miðað við erlenda ferðamenn en stendur Íslendingum að sjálfsögðu til boða og er þá sérstaklega hentugt fyrir fólk utan af landi að koma og nýta sér það sem Reykjavík hefur upp á að bjóða.

Kortið er til sölu allan ársins hring en þjónusta þeirra aðila sem hér um ræðir getur verið mismunandi yfir vetrartímann og það þarf auðvitað að taka tillit til þess," segir Vilborg.

Tekið mið af erlendum kortum

"Kortið heitir Reykjavik Card eða Gestakort Reykjavíkur. Hugmyndin að baki þess er svipuð og í öðrum borgum samanber Copenhagen Card í Kaupmannahöfn. Þessi endurnýjun sem á sér stað núna hefur tekið mið af erlendum kortum.

Það má segja að sala kortanna hafi staðið í stað síðastliðin þrjú ár þannig að þetta var orðið spurningin um að leggja kortið niður eða dusta af því rykið og auka fjölbreytni þess. Við teljum að þetta sé mikilvægt verkfæri til að fá þá gesti sem sækja Reykjavík heim til að nýta sér það fjölbreytta menningarlíf sem hér er í boði. Kortið er ákveðinn hvati, handhafar þess fara þá frekar á mörg söfn í einu. Reykvíkingar hafa einnig eitthvað nýtt sér þetta því það getur verið hagstæðara að kaupa kortið heldur en að borga sig inn á margar sýningar en þá þarf auðvitað að hafa tímamörkin í huga," segir Vilborg.