Nýju sætin gefa farþegum á viðskiptafarrými kost á nætursvefni.
Nýju sætin gefa farþegum á viðskiptafarrými kost á nætursvefni.
NÝLEGA birti tímaritið This is London grein þess efnis að breska flugfélagið British Airways væri komið með sæti sem verða að rúmum. Þetta geta þeir farþegar notað sem ferðast á "business class" eða viðskiptafarrými hjá fyrirtækinu.

NÝLEGA birti tímaritið This is London grein þess efnis að breska flugfélagið British Airways væri komið með sæti sem verða að rúmum. Þetta geta þeir farþegar notað sem ferðast á "business class" eða viðskiptafarrými hjá fyrirtækinu. Í greininni kemur fram að hvert sæti sé í raun hylki sem samanstendur af sjónvarpi með 12 stöðvum, síma og innstungu fyrir PC- tölvu. Ólíkt öðrum sætum, sem rétt er hægt að halla aftur, gefa nýju sætin farþegum kost á nætursvefni. Það er einn hængur á og það er verðið en það kostar flugfarþega sem ferðast frá London til New York tæplega fjögur hundruð þúsund krónur.

"Þróunin undanfarin fjögur til fimm ár hefur verið sú að stærstu flugfélögin hafa verið að koma með sæti á fyrsta farrými og núna á viðskiptafarrými sem leggjast út," segir Sigurður Skagfjörð, forstöðumaður þjónustudeildar Flugleiða. "Nýjasta kynslóðin er sem sagt þessi nýjung sem British Airways er að kynna og reyndar fleiri flugfélög eins og Singapore Airlines og Swiss Air á fyrsta farrými. Þessi flugfélög eru komin með nýja tegund af sætum sem renna fram og mynda rúm. Þetta er eingöngu fyrir farþega á viðskiptafarrými og á lengri flugleiðum. Hjá British Airways eru sætin til dæmis þannig að þau snúa á móti hvort öðru með þar tilgerðu skilrúmi en skilrúmið hefur nú verið tekið til endurhönnunar.

Þau vandkvæði fylgja oft breytingum sem eiga sér stað hjá flugfélögum með margar flugvélar að þær taka langan tíma. Neytandi reiknar með því að fá þá þjónustu sem er byrjað að auglýsa en það er ekki alltaf búið að breyta öllum flugvélunum. Ég held að British Airways sé komið með fáar vélar í rekstur með þessum sætum," segir Sigurður.

Ekki hjá Flugleiðum eða Atlanta á næstunni

"Flugleiðir eru ekki með það á teikniborðinu hjá sér að setja rúm í sínar vélar. Það er kannski líka vegna eðlis flugsins okkar annars vegar og vegna sætabilsins hins vegar. Ef og þegar við setjum svona sæti í vélarnar okkar þá þurfum við að fækka sætunum á viðskiptafarrými. Við erum meðal annars að skoða sætamál okkar þessa dagana ásamt öðrum þjónustuþáttum og það er ýmissa nýjunga að vænta hjá fyrirtækinu," segir Sigurður.

Davíð Másson, yfirstöðvarstjóri Atlanta, segir að þetta sé ekki á dagskrá hjá fyrirtækinu um þessar mundir. "Þannig er mál með vexti að þessi flugfélög eru að bjóða upp á þetta á sínum löngu leiðum og það er ekki mikið um svona löng flug til og frá Íslandi," segir Davíð. "Hafa verður í huga að þessi fargjöld eru miklu dýrari en fargjöldin hér heima. Umrædd flugfélög eru að leggja minni áherslu á fyrsta farrými. Þau ætla sér að halda áfram að vera með dýrt viðskiptafarrými og bjóða því þessa þjónustu í staðinn, "segir Davíð.