Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra tók við ráðherradómi í byrjun árs. Síðan þá hefur mikill hluti starfsorku hennar farið í verðbréfamarkaðinn.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra tók við ráðherradómi í byrjun árs. Síðan þá hefur mikill hluti starfsorku hennar farið í verðbréfamarkaðinn.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar-og viðskiptaráðherra leggur mikla áherslu á að verklagsreglur fjármagnsmarkaðarins séu skýrar og skapi trúverðugleika á markaðnum. Í samtali við Örnu Schram segist hún ennfremur leggja mikla áherslu á ábyrgð stjórnenda fyrirtækja í þessu sambandi.

VALGERÐUR Sverrisdóttir tók eins og kunnugt er við ráðherradómi í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu í upphafi ársins en málaflokkar þessara ráðuneyta hafa mikið verið til umfjöllunar að undanförnu. Má þar nefna umræðuna um verklagsreglur á verðbréfamarkaði og umræðuna um Fljótsdalsvirkjun og álver í Reyðarfirði. Auk þess hefur verið rætt um hagræðingu á fjármagnsmarkaði um nokkurt skeið og að hana mætti m.a. ná með samruna banka, til að mynda Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. annars vegar og Landsbanka Íslands og Íslandsbanka hf. hins vegar. Valgerður leggur áherslu á að ef farið verði út í sameiningu banka þurfi að vera algjörlega ljóst að samkeppnin minnki ekki um of á markaðnum. Á hinn bóginn hefur hún ekki látið í ljós neinar skoðanir á því hvaða sameining væri æskilegri en önnur. Þegar rætt er um sparisjóðina kveður Valgerður að á vegum viðskiptaráðuneytisins sé starfandi nefnd sem sé ætlað að fjalla um framtíðarskipan sparisjóðanna og bíður hún niðurstöðu hennar. Hún bendir þó á í þessu sambandi að hún telji æskilegt að sparisjóðirnir eigi þess kost að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag líkt og í dönsku lögunum.

Í samtali við Morgunblaðið kemur fram að mikill hluti starfsorku nýs iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi farið í verðbréfamarkaðinn, ekki síst eftir að Fjármálaeftirlitið tilkynnti að sex fjármálafyrirtæki hefðu í janúarmánuði gerst brotleg við ákvæði verklagsreglna sinna sem banna viðskipti starfsmanna með óskráð hlutabréf. Í kjölfarið kynnti viðskiptaráðherra í ríkisstjórn nýtt frumvarp til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti, eins og kunnugt er, þar sem styrkari stoðum er m.a. skotið undir verklagsreglur fyrirtækja í verðbréfaþjónustu. Til að mynda eru verklagsreglur varðandi eigin viðskipti fyrirtækja, eigenda þeirra, starfsmanna og maka gerðar ítarlegri. Valgerður segir í samtali við Morgunblaðið mikilvægt að neytendur eða viðskiptavinir geti treyst þeirri starfsemi sem fram fari á fjármagnsmarkaðnum og geti trúað því að hagsmunir þeirra sitji í fyrirrúmi en ekki hagsmunir einstakra starfsmanna markaðarins. Þess vegna m.a. þurfi að aðskilja einstök starfssvið verðbréfafyrirtækja eins og fyrrnefnt frumvarp gerir ráð fyrir en þar er einnig gert ráð fyrir styrkari stöðu Fjármálaeftirlitsins og aukinni kröfu um nám starfsmanna fyrirtækjanna í verðbréfamiðlun. "Þetta held ég að sé allt saman nauðsynlegt og eru að vissu leyti ákveðin viðbrögð við því sem hefur verið að gerast á verðbréfamarkaðnum á síðustu mánuðum en þar hafa komið upp ýmis tilvik sem eru ámælisverð. Ég taldi mér skylt að bregðast við þeim. Eftirlitsaðilinn á markaðnum er Fjármálaeftirlitið fyrst og fremst og ég lýsi yfir fullum stuðningi við það sem eftirlitið hefur verið að gera og trúi því að okkur muni takast á þessum vetri að koma málum þannig fyrir að við getum kinnroðalaust horft framan í heiminn."

Telurðu þörf á strangari verklagsreglum fyrir fjármálamarkaðinn en nú er verið að vinna að?

"Reglurnar liggja ekki fyrir og erfitt að svara þessu en fram hefur komið í fjölmiðlum að Fjármálaeftirlitið er nú að fara yfir drög að reglum sem samtök verðbréfafyrrtækja hafa sent stofnuninni. Ég legg hins vegar mikla áherslu á að þessar reglur séu skýrar og skapi trúverðugleika á markaðnum og legg mikla áherslu á ábyrgð stjórna fjármálafyrirtækja í þessu sambandi."

Aðspurð segir nýr ráðherra að neytendamál séu þau mál sem hún vilji leggja mesta áherslu á á kjörtímabilinu. "Ég hef hugsað mér að sinna neytendamálunum meira en hefur verið gert til þessa," segir hún og bendir á að þau mál fái æ meiri vægi víða erlendis, meðal annars innan Evrópusambandsins. "Þessi málaflokkur er spennandi en hann tengist líka samkeppnismálum, sem er málaflokkur sem við erum að þróa hér á landi. Ég tel að vel hafi til tekist í þeim málum hingað til en betur má ef duga skal. Í undirbúningi er nýtt frumvarp frá viðskiptaráðuneytinu um breytingu á samkeppnislögum og er í því gert ráð fyrir að skerpt verði á ýmsum ákvæðum og að teknar verði upp bannreglur í meiri mæli en áður," segir hún og bendir á að með auknu frelsi í viðskiptum geti ríkið notað samkeppnislög sem tæki til að verja hag neytenda. "Auðvitað hefur maður ákveðnar áhyggjur af fákeppni á markaðnum sem er ef til vill að einhverju leyti til komin vegna smæðar þjóðarinnar en það er jafnframt ástæða til þess að við verðum að vera meira á varðbergi í þessum málum en aðrar þjóðir."

Þarf að hagræða á markaðnum

En snúum okkur að öðrum málum. Sameining banka hefur lengi verið í umræðunni, til að mynda sameining ríkisbankanna; Búnaðarbanka Íslands hf. og Landsbanka Íslands hf. Hefur þú mótað einhverja stefnu í þessum málum?

"Ég hef eins og forveri minn, Finnur Ingólfsson, látið í ljós þá skoðun að það þurfi að hagræða í bankakerfinu. Það þurfi að minnka vaxtamun og draga úr kostnaði á fjármagnsmarkaði. Við teljum að samanburðurinn við erlenda banka sé íslensku bönkunum frekar í óhag og þess vegna er talað um hagræðingu. Það er auðvitað hægt að ná hagræðingu með aðgerðum innan hvers banka og það hefur verið gert að þó nokkru leyti. Hins vegar hefur verið í umræðunni að það gæti verið æskilegt og hagkvæmt að sameina banka. Ég tel að ef út í það yrði farið þá þyrfti að minnsta kosti að vera algjörlega ljóst að samkeppnin minnki ekki um of á markaðnum.

Ég hef á hinn bóginn ekki látið í ljós neinar skoðanir á því hvaða sameining væri æskilegri en önnur. Sú sameining sem þú minnist á hefur verið nefnd og eins hefur verið talað um sameiningu Landsbanka Íslands og Íslandsbanka.

Sjálfsagt er verið að velta ýmsu fyrir sér á markaðnum en mín orka hefur meira farið í verðbréfamarkaðinn síðan ég kom hér í ráðuneytið þannig að það hefur ekkert að segja þótt ekkert sé að gerast í þessum málum akkúrat núna. Engin formleg vinna er í gangi í ráðuneytinu um þessar hugmyndir enda tíminn svo sem ekkert að hlaupa frá okkur í þessum efnum."

Valgerður ítrekar að hún útiloki enga kosti í þessum sameiningarmálum og bendir á að hún hafi verið að kynna sér þessi mál síðan hún tók við lyklavöldum í ráðuneytinu og haldið í þeim tilgangi fundi með forsvarsmönnum hinna ýmsu fyrirtækja.

Telur þú að Búnaðarbankinn og Landsbankinn fái markaðsráðandi stöðu verði þeir sameinaðir ?

"Það er eiginlega vandséð hvernig hægt er að sameina bankana öðruvísi en svo að um mjög stóra einingu verði að ræða. Þetta á bæði við um sameiningu Landsbankans og Búnaðarbanka annars vegar og Landsbankans og Íslandsbanka hins vegar."

Telur þú að með sameiningu BÍ og LÍ geti tapast störf á landsbyggðinni?

"Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að hagræðing í bankakerfinu gengur m.a. út á að fækka útibúum og við það að fækka útibúum eru ákveðnar líkur á því að einhver störf verði lögð niður. En þó tel ég að það sé hægt að vinna þannig að málinu að fækkun starfa verði alveg í lágmarki. Þetta geti orðið þannig að það verði meira þróun sem eigi sér stað frekar en að það gerist allt í einu."

Starfsemi banka og vátrygginga- félaga fer vel saman

Nú á LÍ hlut í Vátryggingafélagi Íslands (VÍS). Kemur til greina að bankinn selji allan þann hlut eða telurðu eðlilegt að banki eigi hlut í vátryggingafélagi?

"Það er ekkert óeðlilegt við það í sjálfu sér að banki og vátryggingafélag séu í samstarfi. Að mörgu leyti getur starfsemi þessara aðila farið mjög vel saman en ég býst við að ef af sameiningu verði í bankakerfinu sé salan á hlut Landsbankans í Vátryggingafélaginu eitt af því sem verður skoðað í því sambandi."

Það er þá ekki verið að tala um það nú að LÍ selji allan sinn hlut í VÍS?

"Nei, enda ekki mál sem er á mínu borði. Þetta er frekar spurning um ákvarðanatöku í bankanum."

Afhverju telurðu að starfsemi banka og vátryggingafélags fari vel saman?

"Þetta eru þjónustufyrirtæki við almenning og að því leytinu til er ákveðin hagræðing í því að sameina vátryggingafélög og bankastofnanir. Hins vegar álít ég að sú hagræðing sem menn sáu fyrir sér þegar Landsbankinn keypti þennan stóra hlut í VÍS hafi ekki gengið eftir sem skyldi."

Komi til þess að eignarhluti LÍ í VÍS verði seldur hefur þú einhverjar hugmyndir um líklega kaupendur?

"Ef það verður farið út í að sameina banka er ekki verið að tala um að selja hlut í VÍS heldur sameina banka. Það er svo seinni tíma mál hvort að um sölu verði að ræða eða ekki. Sú sala á hlut LÍ í VÍS sem fór fram fyrir áramótin tókst mjög vel og eru ekki uppi áform um að taka frekari skref í því að svo stöddu."

Hvað með að aðrir bankar kaupi hlut LÍ í VÍS?

"Það er ekkert sem er á döfinni."

Telur þú að Búnaðarbankinn geti orðið undir í samkeppninni verði af sameiningu Landsbankans og Íslandsbanka?

"Ég vil ekki tjá mig um einstaka kosti en ítreka það sem ég hef áður sagt, að sameining fyrirtækja á þessum markaði má ekki leiða til fákeppni á honum."

Hefurðu velt fyrir þér mögulegu samstarfi Búnaðarbankans við Fjárfestingarbanka atvinnulífsins eða önnur fyrirtæki og stofnanir?

"Nei."

Hvað með samstarf Búnaðarbankans við Íbúðalánasjóð?

"Íbúðalánasjóður er algjörlega ný stofnun og verður að fá að þróast miðað við lög og reglur. Það yrði þá seinni tíma mál ef það yrði farið í að sameina hann bönkum eða einhverjum banka."

Nefnd fer yfir framtíðar- skipan sparisjóðanna

Valgerður greinir frá því að á vegum viðskiptaráðuneytisins sé starfandi nefnd sem hafi það verkefni að fara yfir framtíðarskipan sparisjóðanna hér á landi. En sú nefnd, segir Valgerður, var sett á laggirnar ekki síst að frumkvæði sparisjóðanna sjálfra. "Ákveðnar breytingar hafa verið gerðar á sparisjóðafyrirkomulaginu í nágrannalöndum okkar og mun nefndin m.a. skoða þá þróun í sinni vinnu." Valgerður bendir á að sparisjóðirnir séu margir hverjir mjög sterkir og mikilvæg þjónustufyrirtæki, ekki síst við landsbyggðina. Hins vegar telur hún það áhyggjuefni að þjónusta bankastofnana við landsbyggðina hafi farið minnkandi á undanförnum árum. "Fyrirtæki á landsbyggðinni hafa ekki þann aðgang að lánastofnunum sem þau höfðu áður og þetta segir mér fyrst og fremst það að mikilvægi Byggðastofnunar er enn meira nú heldur en nokkru sinni áður."

En hefur þú í hyggju að stuðla að lagasetningu sem miði að því að gera sparisjóðunum kleift að breyta sér í hlutafélög?

"Ég tel æskilegt að sparisjóðirnir eigi þess kost að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag líkt og í dönsku lögunum. En ég bendi á að nefndin sem ég minntist á áðan, um framtíðarskipan sparisjóðanna, er enn að störfum og vil ég bíða niðurstöðu hennar."

Legg áherslu á heiðarleika grasrótarhreyfinga

Hvaða álit hefur þú á þeim grasrótarhreyfingum sem hafa krafist þess að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt umhverfismat?

"Mér finnst í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að það skapist samtök sem hafi ákveðnar hugsjónir og berjist fyrir þeim. Ég legg hins vegar mikla áherslu á að þær vinni heiðarlega og þegar ég tók við, ásamt fleiri ráðherrum, undirskriftasöfnunum Umhverfisvina svokallaðra um miðjan febrúar sl. lét ég þau orð falla að ég bæri ákveðna virðingu fyrir hugsjónastarfi og að ég vissi að þetta hefði verið unnið af heiðarleika.

En eftir að forsvarsmenn Umhverfisvina fóru til Noregs í þeim tilgangi að fá norsk stjórnvöld til að stjórna Íslandi var búið með heiðarleikann að mínu mati. Ég lýsi megnustu óánægju með framkomu þeirra sem að Noregsferðinni stóðu þar sem hér er um algjörlega íslenskt mál að ræða. Íslendingar einir geta tekið um það ákvörðun hvort ákveðnar framkvæmdir fari í umhverfismat eða ekki.

Þar að auki hafa þessar undirskriftasafnanir verið misnotaðar og því ruglað saman hvort þeir sem þar hafa ritað nafn sitt séu að mótmæla því að Fljótsdalsvirkjun fari ekki í lögformlegt umhverfismat eða hvort fólk sé yfirhöfuð með eða á móti virkjunum sem slíkum en það er allt annað mál.

Ég hef haldið því fram að meirihluti þjóðarinnar væri hlynntur virkjunum og bendi á skoðanakannanir máli mínu til stuðnings sem sýna að 60% þjóðarinnar vilja að við nýtum vatnsorkuna til virkjana."

Umhverfisráðherra felldi í lok febrúar úr gildi úrskurð skipulagsstjóra um mat á umhverfisáhrifum 480 þúsund tonna álvers á Reyðarfirði. Það þýðir að nýtt mat þarf að fara fram á fyrsta áfanga þess, 120 þúsund tonna álveri. Setur þessi ákvörðun virkjunaráformin í uppnám?

"Hún kemur væntanlega til með að seinka ákvörðun um byggingu álvers um einhverja mánuði og sömuleiðis seinkun á byggingu Fljótsdalsvirkjunar. En í mínum huga er það ekkert stórmál og málið er alls ekki í uppnámi þrátt fyrir þetta."

Telur þú með öðrum orðum að þrátt fyrir þetta geti samningar tekist við Norsk Hydro um að reisa álver á Reyðarfirði?

"Já, þessi ákvörðun umhverfisráðherra mun ekki ráða úrslitum um það hvort samningar nást við Norsk Hydro. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er það ekki aðalatriðið þótt samningum geti seinkað. Það er engin frágangssök að mati Norsk Hydro."

Hvenær sérðu þá fram á að samningar geti tekist milli íslenskra stjórnvalda og Norsk Hydro?

"Niðurstaða á umhverfismati á 120 þúsund tonna álveri á Reyðarfirði liggur ekki fyrir fyrr en um mitt sumar og er hætt við að það verði ekki fyrr en í framhaldi af því sem liggur fyrir hvort samningar munu nást milli fjárfestanna um að fara í þessa framkvæmd."

Telur þú að aðrir möguleikar séu í stöðunni en að ná samningum við Norsk Hydro. Til að mynda þeir að gera samninga við Columbia Ventures?

"Fleiri erlend fyrirtæki koma jú til greina. Það hefur alltaf legið fyrir þó ég ætli ekki að nefna þau fyrirtæki hér. Það er ekki algjörlega bundið við Norsk Hydro hvort af þessu verður eða ekki. Það standa hins vegar yfir samningaviðræður við Norsk Hydro og við verðum bara að sjá til hvað setur með þær."

Björgum ekki Eyjabökkum með umhverfismati

Gert er ráð fyrir því að Fljótsdalsvirkjun framleiði orku fyrir 120 þús. tonna álver. Hvað er hins vegar til ráða ef stækka á álverið upp í 480 þús. tonn. Þarf þá ekki að stækka aðra virkjun eða byggja nýja?

"Jú, í því sambandi hefur verið talað um að byggja Kárahnjúkavirkjun, en auk þess eru ýmsir aðrir möguleikar í stöðunni, m.a. á Austurlandi. Þá er möguleiki á því að stækka virkjanir á norðausturlandi, til að mynda Kröfluvirkjun og Bjarnarflagsvirkjun."

Þarf þá ekki ný virkjun eða stækkun virkjunar að fara í lögformlegt umhverfismat?

"Jú, það er enginn vafi á því að viðbótarorka kallar á lögformlegt umhverfismat."

Fylgismenn lögformlegs umhverfismats á Fljótsdalsvirkjun hafa nú margir hverjir viðrað þá hugmynd að nú ætti tími að gefast til lögformlegs umhverfismats þar sem ljóst þyki að framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun hefjist ekki í sumar og að ekki verði unnt að afhenda orkuna fyrr en árið 2004 eða ári síðar en áætlað hefur verið vegna fyrrnefndrar ákvörðunar umhverfisráðherra. Hvert er þitt álit á þeirri kröfu?

"Ég bendi á að tvívegis er búið að taka ákvörðun á Alþingi um að virkjun í Fljótsdal fari ekki í þetta lögformlega umhverfismat. Sú ákvörðun var fyrst tekin árið 1993 þegar lögin voru sett um mat á umhverfisáhrifum og síðan var hún ítrekuð í desember sl. þegar samþykkt var tillaga þáverandi iðnaðarráðherra, Finns Ingólfssonar, um að framkvæmdum við Fljótsdalsvirkjun skyldi haldið áfram. Má benda á að stuðningur við tillöguna var meiri en hvað nemur fylgi stjórnmálaflokkanna, þar sem við fengum stuðning fjögurra þingmanna Samfylkingarinnar þótt tveir stjórnarsinnar hefðu fallið fyrir borð.

Ég hef líka haldið því fram að við björgum ekki Eyjabökkum með lögformlegu umhverfismati ef það er það sem málið snýst um. En það þýðir ekki að setja þetta mál í neinar umbúðir. Það snýst um að fórna þessu landsvæði og fólk verður bara að taka afstöðu til þess hvort það er tilbúið til þess eða ekki. Það þarf ekkert að vera svo flókið."

En nú hafa talsmenn lögformlegs umhverfismats m.a. talað um að sátt myndi nást um málið yrði farið í lögformlegt mat. Hvað segir þú um það?

"Nei, ég tel svo ekki vera. Þetta er einfaldlega þannig mál að um það næst aldrei nein sátt og er kannski ekki heldur hægt að ætlast til þess. Mér líkar annars ekki þessi tvískinnungur sem hefur komið upp í umræðunni um þetta mál því margir fela sig á bak við eitthvert lögformlegt umhverfismat þegar þeir eru í raun hreinlega á móti virkjunum. Það þarf bara að horfa kalt á þetta. Menn vita hverju þeir eru að fórna, að minnsta kosti þeir sem hafa komið á Eyjabakka, og þeir vita líka að í staðinn fáum við auknar þjóðartekjur og sterka byggð á Austurlandi sem drægi verulega úr þessari óæskilegu byggðaþróun. Og það skiptir ekki litlu máli.

Leggur áherslu á þátttöku í vetnisverkefni

Aukinheldur er mjög jákvætt að framleiða ál á Íslandi þegar við horfum hnattrænt á hlutina. Ál er framtíðarmálmur og þar að auki erum við Íslendingar sennilega heimsmeistarar í því að nota álframleiðslu, álvörur, miðað við mannfjölda. Þá má bæta því við að það er verið að byggja upp álver í Suður-Afríku en það þýðir sjö sinnum meira útstreymi af gróðurhúsalofttegundum heldur en ef það væri byggt hér."

Einn af þingmönnum Framsóknarflokksins, Hjálmar Árnason, hefur lengi verið talsmaður þess að vetni verði notað sem framtíðarorkugjafi. Kemur þú til með að leggja því máli lið á kjörtímabilinu?

"Ég fékk tækifæri til að kynnast þessari starfsemi þegar ég fór ásamt sendinefnd til Þýskalands í byrjun ársins en sú heimsókn sannfærði mig um að mönnum væri mikil alvara með því að nota vetni sem orkugjafa. Til dæmis verja bílaframleiðendur eins og DaimlerChrysler gífurlegu fjármagni í rannsóknir sem tengjast vetni og horfa á vetni sem framtíðarorkugjafa í samgöngum.

Ég hef hins vegar passað mig á því að vera með ákveðinn fyrirvara í þessu máli því það er ekki hægt að fullyrða að Íslendingar geti tekið algjörlega upp þennan orkugjafa í stað olíu. Ég tek þó fram, að svigrúm okkar eins og í sambandi við Kyoto-samninginn er eingöngu í samgöngum og fiskveiðum. Einn þriðji af þeim gróðurhúsalofttegundum sem við sleppum út í andrúmsloftið er í samgöngum og einn þriðji í fiskveiðum. Þar höfum við svigrúm því ég gef mér að við ætlum hvorki að leggja hér af álverksmiðjur né hætta að byggja þær upp. Þess vegna finnst mér að þetta vetnismál sé mál sem við verðum að sinna og það tilraunaverkefni sem er verið að tala um að setja í gang hér á Íslandi í sambandi við strætisvagna í Reykjavík gæti orðið dálítil prófraun á það hvort þetta eru raunhæfir möguleikar eða ekki. Þess vegna hef ég lagt á það áherslu, að ríkisvaldið að minnsta kosti taki þátt í því og við leggjum eitthvert fjármagn af mörkum til þess að af því geti orðið. Það er þó allt með fyrirvara um, að það fáist styrkur frá Evrópusambandinu en þar hefur verið sótt um um það bil 230 milljóna kr. styrk."

Höf.: Örnu Schram