Guðlaug Bjarney Elíasdóttir fæddist í Hólshúsum í Gaulverjabæjarhreppi 13. september 1928. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík 23. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Þórðardóttir, f. 29.8. 1885, d. 9.3. 1969, og Elías Árnason, f. 31.12. 1884, d. 25.9. 1966, bóndi í Hólshúsum. Guðlaug eða Lauga eins og hún var alltaf kölluð, ólst upp í föðurhúsum. Hún var yngst í hópi níu systkina. Þau eru Margrét, f. 1914, Þórður, f. 1915, Árni, f. 1917, d. 1995, Guðrún Júlía, f. 1918, Elín, f. 1920, d. 1992, Júlía Svava, f. 1922, Guðrún, f. 1923, d. 1990, og Bjarni, f. 1926, d. 1927.

Lauga giftist 4.12. 1954 Reyni Geirssyni frá Klængsseli í Gaulverjabæ. Reynir lést 24. maí 1994. Elsta barn Laugu er Þórdís Hulda Hreggviðsdóttir, f. 8.10. 1948, og gekk Reynir henni í föðurstað, sonur hennar er Bjarni Þór, f. 5.4. 1988. 2)Margrét Eyrún, f. 18.5. 1955, maki Jón Geirsson, börn þeirra Sonja, f. 7.11. 1976, sambýlismaður Sveinn Sigfinnsson, Reynir, f. 7.1. 1980, og Geir, f. 28.4. 1985. 3) Bjarni Ómar, f. 15.10. 1956, maki Ásdís Sigurðardóttir, dætur Bjarna úr fyrri sambúð eru Íris, f. 11.8. 1978, maki Stefán J. Svansson, barn þeirra er Brynjar Steinn, f. 3.10. 1999, Freydís, f. 21.1. 1982, Guðlaug Eydís, f. 27.2. 1988, og Aldís Sif, f. 10.11. 1992, fósturbörn Bjarna, börn Ásdísar, eru Sólveig Ósk, f. 18.5. 1978, sambýlismaður Sveinbjörn Þ. Einarsson, Óskar Björn, f. 11.9. 1982, og Helgi Fannar, f. 16.1. 1988. 4) Elías Rúnar, f. 17.4. 1958, maki Rúna Björg Þorsteinsdóttir, dóttir þeirra Lára Björk, f. 5.12. 1988. 5) Sólrún Lára, f. 5.5. 1961, maki Magnús Ingi Guðmundsson, synir þeirra Guðmundur Jón, f. 18.11. 1980, Birkir, f. 13.7. 1983, og Reynir, f. 17.9. 1985. 6) Björk, f. 31.3. 1968, maki Sigurður Magnússon, synir þeirra Magnús Stefán, f. 10.11. 1990, og Elías Arnþór, f. 28.11. 1994. Guðlaug vann lengst af sem gæslukona á gæsluvöllum Reykjavíkurborgar.

Úför Guðlaugar fer fram frá Áskirkju á morgun, mánudaginn 6. mars, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Fögur sál er ávallt ung

undir silfurhærum.

(Steingr. Thorst.)

Í dag, þegar við kveðjum Laugu tengdamóður mína, langar mig til að rita nokkur kveðjuorð. Þau voru ekki mörg árin sem ég fékk að njóta samvista við hana, en þau voru góð. Ég man þegar ég kom inn í fjölskyldu Laugu og Reynis sumarið 1993 að þá var haldin ein af þeirra mörgu fjölskylduútilegum og komum við Bjarni Ómar þangað og var auðvelt að hitta ykkur öll svona saman á léttri stundu. Því miður lést Reynir aðeins ári seinna, 24. maí 1994, og er óhætt að segja að fjölskyldan var harmi slegin en Lauga hélt áfram að halda heimili í Álftamýri 52 þar sem þau bjuggu lengst af. Fljótlega fór þó að bera á því að minni Laugu var farið að bila, en hún hélt sínu striki með stuðningi barna sinna og vina. En það kom að því í nóvember 1996 að hún hætti að vinna úti þá 68 ára. Hafði hún þá lengst af starfað sem forstöðukona á gæsluvöllum borgarinnar. Vorið 1997 byrjaði Lauga í dagvistun í Hlíðarbæ og undi hún sér þar vel við söng, föndur og önnur störf. Þó svo að Lauga hafi tapað niður talmáli þá gat hún sungið og vakti söngur og spil ávallt mikla gleði hjá henni. Það var svo 12. mars 1998 að við fórum með hana á Hrafnistu í Reykjavík þar sem fjölskyldan hafði fengið vistun fyrir hana því að það var einsýnt að hún gat ekki lengur verið ein eða séð um sig á neinn hátt. Það voru erfið spor hjá systkinunum að sjá á eftir móður sinni inn á Hrafnistu en það var bót í máli að við sáum strax hversu frábært starfsfólkið á deild A-3 var og við sáum að þarna var hún í góðum höndum. Lauga var einstaklega falleg og glæsileg kona og ávallt vel til höfð. Starfsfólkið á A-3 stóð sig frábærlega við að viðhalda þessum glæsileik hennar. Þó svo að Lauga hafi ekki talað við okkur síðasta eina og hálfa árið þá hló hún oft að spaugilegum hlutum og ef við sungum fyrir hana þá reyndi hún að taka undir. Í janúar á síðasta ári lærbrotnaði Lauga og eftir það gekk hún ekki óstudd. Það kom svo að því að hún var komin í hjólastól en var á fótum alla daga og horfði mikið á sjónvarp. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til Laugu, þó svo við gætum ekki skipst á orðum, ég talaði þá bara fyrir okkur báðar. Þegar Lauga veiktist af flensu núna í janúar á þessu ári var hún lengi veik og með hita en svo virtist sem henni ætlaði að batna og fannst okkur það henni líkt, enda var hún með eindæmum hraust og mikil útivistarkona. En um 19. febrúar dró mjög snögglega af henni og voru börnin hennar og tengdabörn yfir henni þar til yfir lauk hinn 23. feb. Þó svo að Lauga hafi verið svona veik síðustu árin þá er sorgin mikil í hjörtum okkar, við reynum þó að hugga okkur með orðum barnanna okkar sem tala um að nú sé amma frísk, komin til afa og geti nú bæði gengið og talað. Samt hellist yfir mig þessi sannleikur að Lauga er öll, og finn ég nú hversu háð ég er orðin þessum heimsóknum mínum til hennar því bara það að sitja hjá henni og horfa í síkvik og lifandi augun hennar gaf mér mikið. Ég er heppin að tengdafjölskyldan mín er stór og þegar við erum samankomin eru þau systkinin dugleg að minnast pabba og mömmu og segja frá öllu því sem á dagana dreif og líka er mjög gaman að fletta öllum myndamöppunum sem Lauga og Reynir áttu því myndirnar segja oft meira en orð fá sagt. Ég held að ég geti sagt að Lauga og Reynir voru alla tíð ung og ástfangin og ólu upp sinn stóra barnahóp með myndarbrag í litlu íbúðinni sinni í Álftamýri, þar var alltaf nóg pláss og hjartarými mikið. Elsku tengdamamma, það er gott að hafa átt þig að. Ég og börnin mín þrjú þökkum þér fyrir árin með þér og þakka þér fyrir að vera amma þeirra, einnig vilja sonardætur þínar fjórar þakka fyrir öll góðu árin. Við vottum öðrum aðstandendum samúð okkar og biðjum guð að geyma góða ömmu.

Þín tengdadóttir,

Ásdís Sig.

Elsku Lauga amma. Ég þakka þér fyrir þau stuttu kynni sem ég hafði af þér og vona að þetta ljóð sem ég samdi handa þér geti tjáð á einhvern hátt það sem þú varst ef til vill að hugsa áður en þó lagðir aftur augun. Eigðu gott líf á himninum.

Um leið og ég segi

"góða nótt"

mun ég verða vakin með kossi

í nýjum heimi

og andlit sem hafa beðið mín

munu gleðjast yfir endurfundunum.

Þó tár hafi læðst

niður vanga minn

þá var sálin brosandi

og þetta aðeins mín aðferð

til að kveðja þennan heim

við hittumst öll síðar

á himni hamingjunnar

og rifjum upp góðar stundir

á meðan bið ég ykkur

að geyma þær í hjarta ykkar.

(Sólveig Ósk.)

Þín sonardóttir,

Sólveig Ósk.