Morris Garfield Sleight var fæddur 31. desember 1927 í Rochester, New York, í Bandaríkjunum. Hann lést í Reykjavík 27. febrúar 2000. Foreldrar hans voru Morris G. Sleight eldri, tryggingafulltrúi, og kona hans, Hermina, fædd Bladegroen, af hollenskum ættum. Hann var einkasonur foreldra sinna, en systir hans, samfeðra, er Sybil Sleight Hernandez Jones, búsett í Bandaríkjunum.

Morris Garfield Sleight (Gary) kvæntist Bergljótu Garðarsdóttur 15. janúar 1952. Hún er dóttir Garðars Þorsteinssonar, fiskiðnfræðings og stórkaupmanns, og Þórunnar Sigurðardóttur, ljósmóður, frá Fiskilæk. Börn þeirra Bergljótar og Garys eru Þórunn Patricia Sleight, kennari í Reykjavík, f. 31. júlí 1954, og Peter Garfield Sleight, markaðsfræðingur í Washington, D.C., f. 3. apríl 1957. Þórunn giftist Birni Magnússyni 27. júlí 1980, þau skildu, sonur þeirra er Magnús Már, f. 31. maí 1985. Peter kvæntist Eileen Wozny 16. júní 1984 og eiga þau einn son, Eric, f. 15. júní 1985.

Gary var mestan hluta ævi sinnar foringi í flugher Bandaríkjanna. Auk þess lauk hann háskólaprófum í sagnfræði, rússnesku og kennslufræðum og starfaði sem kennari í viðskiptafræðum um árabil eftir að hann lauk störfum hjá hernum og þar til hann fluttist til Íslands árið 1984.

Útför Garys var gerð frá Fossvogskirkju 3. mars.

Mágur minn og vinur, Morris Garfield Sleight, var bandarískur ríkisborgari, fæddur 31. desember 1927 í Rochester í New York ríki í Bandaríkjunum. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans í Reykjavík 27. febrúar 2000.

Morris Garfield var venjulega kallaður Gary, en átti það til að íslenska nafnið og kallaðist þá Már. Gary og systir mín Bergljót voru gefin saman af séra Jóni Thorarensen í kór Hallgrímskirkju 15. janúar 1952. Þau kynntust þegar bæði stunduðu nám við Háskólann í Syracuse, N.Y. Lengi minntumst við þess ævintýris er Gary dreif sig á eftir konuefninu til Íslands í svartasta skammdegi og vályndum veðrum, að ganga í hjónaband við aðstæður sem voru honum á margan hátt framandi, landið, veðráttan og þjóðhættir, ekki síst mataræði og drykkjusiðir. Hann sýndi þegar hvern mann hann hafði að geyma, hugaður og knár útivistarmaður, kurteis samkvæmismaður og notalegur, og umfram allt heiðarlegur, velviljaður og hreinskiptinn.

Næstu áratugi bjuggu þau Bergljót víðs vegar um Bandaríkin þar sem Gary starfaði í flughernum, oftast nokkur ár á hverjum stað, meðal annars í Texas, Colorado, Alaska, Utah, Wisconsin og loks í höfuðborginni Washington. Eitt ár var hann í Vietnam en fjölskyldan heima á Íslandi og nokkur ár voru þau búsett í Þýskalandi. Hjónabandið var farsælt, þótt bæði væru skapmikil og ákveðin í skoðunum.

Mágur minn var alinn upp í kaþólskri trú og við kirkjusöng. Barnungur söng hann í kirkjukórum og hafði jafnan mikið yndi af söng og sígildri tónlist. Á efri árum, eftir að hann settist að hérlendis, hóf hann aftur að syngja í kirkjukór og rita nótur til notkunar við söng og var fram undir það síðasta virkur félagi í Samkór Kópavogs og kór Áskirkju í Reykjavík.

Gary var leitandi sál, forvitinn um hagi fólks og framandi lönd og hafði mikið yndi af tungumálum og bókmenntum. Gestrisni og hjálpsemi var honum í blóð borin og nutu þess margir, bæði fjölskylda og vandalausir. Eftir að þau hjónin fluttust búferlum til Íslands árið 1984 hóf Gary íslenskunám og náði um síðir góðum tökum á málinu. Matargerð var Gary mikið áhugamál og þar gekk hann fram af nákvæmni og snilld. Hann stundaði einnig margvíslegar íþróttir af alúð, skíðamennsku, skokk, sund og golf og missti aldrei af tækifæri til þess að njóta útiveru. Víðáttur og veðrabrigði Íslands áttu hug og hjarta þessa góða drengs.

Arnþór Garðarsson.

Tíminn líður trúðu mér,

taktu maður vara á þér.

Heimurinn er sem hála gler,

hugsaðu um hvað á eftir fer.

Með þessum ljóðlínum hófust vortónleikar Samkórs Kópavogs sl. laugardag 26. febrúar. Tíminn er svo undarlegur. Í senn gjöfull en þó svo krefjandi. Rekandi á eftir og í raun afmarkandi allt sem við mennirnir gerum. Þótt tímaeiningin, sem slík, sé mannanna verk er það tíminn sjálfur, sem setur allar skorðurnar.

Í hinni helgu bók segir einhvers staðar, að allt hafi sinn tíma.

Því verður mér svo tíðrætt um tímann, að þetta sama laugardagskvöld tæmdist stundaglasið hans Garys, vinar okkar úr Samkórnum í Kópavogi. Hann hét fullu nafni Morris Garfield Sleight, var af bandarísku bergi brotinn, kvæntur henni Bergljótu Garðarsdóttur Sleight og átti með henni börn og bú.

Það er alkunna að blandaðir kórar líða oftar en ekki vegna vöntunar á karlaröddum. Þótt slíkar gersemar sé víða að finna fást þær ekki til starfa.

En við í Samkór Kópavogs fengum eina slíka gersemi til okkar fyrir um fjórum árum.Við fengum nefnilega hann Gary. Ákaflega góður söngmaður, hafði vítt raddsvið, bjarta rödd, var lagviss og las nótur. Hann var því leiðandi í sinni rödd, okkur hinum fyrirmynd og hvatning. Hann hefði sjálfsagt getað sungið tenór, þótt elstur væri, en bassinn hlaut hnossið. En hann söng ekki bara. Hann setti upp fyrir okkur í kórnum nótur í tölvunni sinni og færði okkur. Allar fallegustu nóturnar okkar eru hans handarverk. Þannig var hann fyrirmynd að öllu leyti. Hvers getur einn blandaður kór frekar óskað sér? Hann og Bergljót tóku þátt í ferð kórsins til Noregs, er haldið var upp á 1000 ára afmæli Þrándheims fyrir þremur árum. Frá þeirri ferð geymum við ljúfar minningar.

Hann Gary var vel meðalmaður á hæð, vel á sig kominn, fríður maður og spengilegur. Hann hafði þjónað sínu föðurlandi sem hermaður til fjölda ára, hygg ég, farið víða og haft mannaforráð. Mér segir svo hugur, að þar hafi allt verið upp á punkt og prik. Hann var afar áreiðanlegur og mikið prúðmenni.

Um allnokkurn tíma hafði hann glímt erfiða glímu. Nánast fram á síðasta dag tók hann þátt í kórstarfinu. Hann bognaði eiginlega aldrei _hetjan. Stundaglasið var allt í einu tæmt.

Á vorin koma til okkar söngfuglarnir og gleðja okkur óendanlega stutt sumarið. Fljúga svo upp í himininn aftur, þaðan sem þeir komu. Nú er þessi söngfugl, sem tyllti niður fæti um stund í kórnum okkar, floginn burtu. Gary sagði mér í vetur snemma, að hann væri trúaður. Því veit ég nú hvar hann syngur.

Við þökkum allan sönginn, alla hjálpina við nótnaskrif og samfylgdina. Allar bestu óskirnar okkar sendum við Bergljótu og fjölskyldunni.

F.h. Samkórs Kópavogs,

Ketill Högnason.