Fanný Guðmundsdóttir var fædd í Ólafsvík 12. desember 1913. Hún lést á heimili sínu í Reykjavík 26. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Sólveig J.P. Kristjánsdóttir frá Búðum á Snæfellsnesi og Guðmundur Björnsson sjómaður, fæddur í Ólafsvík. Börn þeirra hjóna voru: Hanna, Karl, Fanný, Guðlaugur og Guðrún, sem nú er ein á lífi af þeim systkinum og er hún búsett í Bandaríkjunum.

Fanný giftist Helga Kristni Helgasyni frá Ólafsvík, f. 14. júní 1911. Þau slitu samvistir. Börn þeirra í aldursröð: Óskírð Helgadóttir, f. 5. september 1936, dáin 16. nóvember 1936; Sveinbjörn Helgason, f. 28. nóvember 1937, maki Aud Merry Batnes Helgason; Guðmundur Helgason, f. 23. mars 1939, sambýliskona Sólveig Bótólfsdóttir; Helga Kristín Helgadóttir, f. 20. júlí 1940, d. 21. júlí 1944; Helga Helgadóttir, f. 12. janúar 1942, maki Bent Bjarnason; Sólveig Sjöfn Helgadóttir, f. 2. maí 1946, maki Jón Sören Jónsson; Birna S. Helgadóttir, f. 8. febrúar 1950, maki Bogi Ingimarsson. Ömmubörnin hennar voru sextán en eitt þeirra lést síðastliðið vor. Langömmubörnin eru tuttugu og fjögur.

Fanný vann á yngri árum ýmiss konar störf, bæði í Ólafsvík og síðar í Reykjavík, jafnhliða húsmóðurstörfum.

Útför Fannýjar fer fram frá Fossvogskirkju á morgun, mánudaginn 6. mars, og hefst athöfnin klukkan 15.

Það eru um 40 ár frá því Helga dóttir Fannýjar kynnti mig fyrir móður sinni sem kærasta sinn. Ég man enn í dag hvað mér fannst hún horfa óþægilega lengi á mig. Það var eins og ég væri í nokkurs konar gegnumlýsingu. Löngu seinna kynntist ég því, að þessi kona skynjaði og sá meira en margir aðrir.

Á þessum árum var Fanný orðin fráskilin einstæð móðir með þrjú af fimm börnum sínu enn á framfæri og hún vann í eldhúsinu á Gildaskálanum, sem var veitingastaður við Aðalstræti í Reykjavík. Þar bograði hún yfir og bar þunga potta og gekk nær daglega til læknis í sprautur út af veiku baki.

Í vinnuhléum fékk starfsfólkið sér kaffi saman og spjallaði eins og gengur. Fór þá Fanný að kíkja í bolla hjá starfsfélögunum og virtist þá sjá ýmislegt, sem hafði gerst eða átti eftir að gerast.

Gildaskálinn brann, en var fljótlega endurreistur, en Fanný hætti þar störfum.

En starfsfólkið gleymdi ekki Fanný og hæfileikum hennar og kom í heimsókn og spjallaði við hana og hún kíkti í kaffibolla þeirra.

Þetta spurðist út og með tímanum var hún orðin þekkt víða um borgina fyrir þessa hæfileika sína. Álagið á símanum hennar var á tímabili eins og hjá meðalfyrirtæki og það voru ýmsar þekktar persónur í þjóðfélaginu, sem komu í þessum tilgangi.

Mér þótti þetta með ólíkindum og trúði lítið á þessa hæfileika.

Þegar Fanný var sextug fór hún með okkur Helgu og börnum okkar fjórum til Spánar. Þar dvöldum við saman í fjórar vikur í húsi, sem við höfðum til umráða.

Þar var oft gert að gamni sínu og meðal annars að spá í bolla. Að lokum tók ég þátt í þessu og að nokkrum mánuðum liðnum var allt komið fram, sem tengdamóðir mín hafði spáð fyrir mér. Eftir það leyfði ég mér ekki að efast um þessa náðargáfu hennar.

Það má ef til vill segja um tengamóður mína, eins og sagt var um einn ágætan mann, að hún hafi verið, að vissu marki, veitul og veisluglöð. Árlega hélt hún upp á afmælið sitt og bauð þá öllum börnunum sínum, mökum þeirra, barnabörnum og undir lokin barnabarnabörnum til veislu. Og þá "svignuðu borð undan kræsingum". Það var hennar yndi að gefa góðan mat að borða.

Í þessum boðum átti hún það til að koma rólega upp að hlið mér og hvísla, til þess að börnin og unglingarnir heyrðu ekki: "Benti minn, viltu ekki fá þér svolítið sterkt í glas?" Þegar og ef það var þegið gengum við í rólegheitum fram í eldhús og tengdamóðir mín hellti í glas og þá var ekki skorið við nögl frekar en í matnum, en lítið fór fyrir blandinu.

Seinna þegar við vorum orðnir fleiri tengdasynirnir var hún jafn kumpánleg við þá. Og þá var stundum tekið sporið. Gömlu dansarnir settir á fóninn og dansað á stofugólfinu. Þar sveif hún fislétt og fjörug með okkur karlpeningnum í fjöldskyldunni, hverjum af öðrum, þar til við sátum allir eftir kófsveittir, móðir og másandi, en hún stóð ein eftir skellihlæjandi. Þá gleymdust allir bakverkir, enda sagði hún að dansinn væri allra meina bót.

Síðasta afmælisdaginn sinn hélt hún upp á þann 12. des. sl. 86 ára gömul, þrotin að kröftum. Ég hafði tafist af óviðráðanlegum ástæðum og kom því seint til hennar um kvöldið, þegar allir gestirnir voru farnir.

Við sátum tvö ein í eldhúsinu og spjölluðum saman og ég borðaði hjá henni hangikjötið góða og fleira góðgæti. Þar var alltaf sama gestrisnin. Það fór enginn svangur frá hennar borði.

Um hálfum mánuði fyrir andlát hennar veiktist hún af flensu og læknir vildi að hún legðist inn á sjúkrahús. Hún harðneitaði því og sagðist eiginlega ekki vera nógu hress til að leggjast inn á sjúkrahús. Þar var henni rétt lýst.

Fanný var mótuð af hörðum skóla lífsins og stundum gætti þess í afstöðu hennar og skoðunum, en undir niðri sló viðkvæmt og gott hjarta og eitt er víst, að þeir sem minna máttu sín áttu skjól hjá henni.

Ég kveð Fannýju tengdamóður mína með virðingu og þökk. Aldrei frá því að ég, 18 ára unglingurinn, kom inn á heimili hennar, sagði hún við mig styggðaryrði, heldur sýndi hún mér ávallt mikið traust og góðvild. Fyrir það þakka ég nú að leiðarlokum og vil fyrir hönd okkar Helgu og barnanna okkar, Bjarna, Helga, Lindu og Sólveigar, biðja Guð að blessa hana í nýjum heimkynnum ljóss og friðar.

Bent Bjarnason.

Fyrstu vikur nýbyrjaðs árs hafa einkennst af óstöðugri veðráttu, stórviðrum og ófærð. Umferðaróhöpp eru tíð og óvenjumargir hafa látið lífið fyrir aldur fram af þess völdum. Hekla byrjaði meira að segja að gjósa síðastliðinn laugardag, 26. febrúar, eftir u.þ.b. 10 ára hlé. Hver óvæntur viðburðurinn rekur annan. Segja má að mannlífið taki á sig hinar margbreytilegustu myndir.

Áðurnefndan laugardag fór ég langan göngutúr niður í Fossvogsdal og gekk vestur í Nauthólsvík í hæglætis og sólríku veðri. Ég var einn með sjálfum mér, fylgdist með mannlífinu, og hugsaði um lífið og tilveruna. Í göngulok fannst mér ég endilega þurfa að líta við hjá Fanný tengdamóður minni vestur á Holtsgötu og sjá hvernig hún hefði það, spjalla við hana og drekka með henni úr svo sem einum kaffibolla. Hlutur sem ég hef gert oft hin síðari ár mér til ánægju og gleði.

Þegar vestur á Holtsgötuna kom sá ég strax að nokkuð var af henni dregið og átti hún í erfiðleikum með að komast hjálparlaust um íbúðina sína. Ég bauðst til þess að færa henni eitthvað til hressingar, en hún sagðist ekki hafa lyst á neinu og sagðist fremur vilja liggja uppi í rúmi og hvíla sig. Samt tók hún mér fagnandi eins og venjulega.

Undanfarið ár reyndist tengdamóður minni fremur erfitt bæði líkamlega og andlega. Hún var kona nokkuð við aldur, nýlega orðin 86 ára gömul, farin að kröftum en ákaflega skýr í hugsun og minnið að mestu óbrigðult. Ekki vildi hún leggjast inn á sjúkrahús til aðhlynningar, þótt henni stæði það ítrekað til boða, sagðist vera of lasburða til þess. Ég þykist nú fullviss að hún hafi skynjað sinn vitjunartíma og vitað að hverju stefndi. Heima vildi hún vera þegar kallið kæmi.

Þrátt fyrir það að hún vildi búa útaf fyrir sig og vera sjálfstæð leiddist henni einveran á stundum, því hún var ákaflega félagslynd og glaðsinna að eðlisfari og bjó yfir mikilli frásagnargleði, þegar sá gállinn var á henni. Eftir að hafa dvalið nokkra stund kemur Hanna Berglind dóttir mín og sest niður hjá henni ásamt vinkonu sinni. Við það hresstist gamla konan mikið því hún hafði mikinn áhuga á að fylgjast með málefnum yngri meðlima fjölskyldunnar.

Ég kvaddi nú tengdamóður mína til þess að hún gæti spjallað áfram við ungu konurnar. Þetta var í síðasta skiptið sem ég sá hana á lífi, því síðla þetta sama kvöld slitnaði lífsstrengur hennar. Birna kona mín tilkynnti mér andlát móður sinnar nokkru áður en nýr dagur rann. Þó ég hafi innst inni vitað að hverju drægi kom fréttin mér að nokkru í opna skjöldu. Það er því með söknuði sem ég sest niður og hripa þessar línur á blað.

Öllu er ætlaður ákveðinn staður og stund segir í helgri bók. Enginn kemst hjá því að mæta örlögum sínum því öll erum við dauðlegar verur. Þessar og fleiri hugsanir flögruðu í hendingskasti í gegnum huga minn meðan ég var að átta mig á þeirri staðreynd að tengdamóðir mín hefði kvatt fyrir fullt og allt.

Það mun hafa verið síðla árs 1973 að ég kynntist Birnu konu minni og fljótlega upp úr því var mér boðið í heimsókn á Holtsgötu 41 til Fannýjar móður hennar. Ég var hálf órólegur í byrjun, því ég skynjaði vel hvernig verðandi tengdamóðir mín grandskoðaði mig í bak og fyrir. Hún var ábyggilega glöggur mannþekkjari. Ég mun hafa staðist þetta inntökupróf. Upp frá því ágerðust heimsóknir mínar á Holtsgötuna og alltaf var jafn vel tekið á móti mér af hennar hálfu. Nú minnist ég margra ánægjulegra samverustunda á heimili hennar og síðar á heimili okkar hjóna. Hún var stöðugt að gefa okkur tengdasonunum eitthvað gott að borða, jafnvel þótt lystin væri ekki alltaf í samræmi við aðföngin. Ég held að óhætt sé að segja að hún hafi staðið sem traustur klettur á bak við fjölskyldur barna sinna. Hún vildi ekki að þau lentu í sömu erfiðleikum og hún hafði orðið að ganga í gegnum í lífi sínu. Mikið var skrafað og skeggrætt og kaffi drukkið. Það var oft gestkvæmt á heimili hennar. Tengdamóðir mín naut sín ákaflega vel í hópi glaðværra fjölskyldumeðlima og vina sinna. Var þá hrókur alls fagnaðar. Ég minnist margra skemmtilegra og litríkra frásagna hennar og leikrænna tilburða. Oft fylgdu hlátrasköll í kjölfarið þegar rifjuð voru upp skemmtileg atvik eða góðlátlegt grín úr lífi fjölskyldunnar.

Eftir að aldurinn fór að færast yfir mig og gráu hárunum að fjölga skynjaði ég betur að undir stundum lokuðu yfirborði tengdamóður minnar leyndist heildsteypt, sjálfstæð og trúuð kona, sem hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum. Hún talaði oft um uppruna sinn vestur í Ólafsvík og árin sín þar. Ávallt talaði hún með virðingu um foreldra sína og vænt þótti henni um systkini sín. Hún var vinnusöm og útsjónarsöm þegar á móti blés og lét ekki bugast þó ýmislegt væri henni mótdrægt á yngri árum. Að sumu leyti fór hún sínar eigin leiðir en aldrei glataði hún trúnni á sjálfa sig. Hún trúði á leiðsögn að ofan. Að mörgu leyti má segja að hún hafi verið okkur fyrirmynd fyrir atorkusemi sína og dugnað. Börnunum okkar Birnu var hún stóð og stytta, hjálpsöm og góðviljuð. Samskiptin þróuðust smám saman upp í vináttu sem engan skugga bar á þó nokkur aldursmunur hafi verið á milli okkar. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þessari sómakonu því hún auðgaði mig af reynslu sinni. Ég vil að endingu þakka henni samfylgdina fyrir mína hönd og fjölskyldu minnar og um leið bið ég henni blessunar almættisins.

Bogi Ingimarsson.

Það er laugardagskvöld, Hekla byrjaði að gjósa fyrir sex tímum og við Sólveig á balli þegar við fengum tilkynningu frá Holtsgötu um að hún Fanný, tengdamóðir mín, hefði verið að kveðja þessa jarðvist. Mig setti hljóðan, en þetta kom ekki á óvart. Á örskotsstundu flaug gegnum hugann að þennan tíma hefði hún Fanný valið, þegar ljúfir tónar ljósvakans ómuðu, hún dansað með bros á vör í huganum yfir móðuna miklu þegar líkaminn neitaði að fylgja á eftir.

Mín fyrstu kynni af Fanný voru á fyrri hluta sjöunda áratugarins þegar ég og Sólveig, dóttir hennar, vorum að draga okkur saman. Þá bjó Fanný í stóru húsi við Suðurlandsbraut sem fjölskyldan hafði byggt. Þegar ég kem inn á heimilið er Fanný orðin einstæð móðir, en hún og maðurinn hennar höfðu slitið samvistum nokkrum árum áður. Þetta voru erfiðir tímar hjá Fannýju sem þurfti að vinna langan vinnudag til að láta enda ná saman. Nokkru síðar seldi hún húsið við Suðurlandsbraut og keypti litla íbúð við Hringbraut sem hún flutti í með tveimur börnum sínum. Nokkru eftir 1970 selur Fanný íbúðina á Hringbraut og kaupir stóra og bjarta íbúð við Holtsgötu 41 og þar hafði hún fallega sýn út á sæinn sem hún mat mikils. Þar átti Fanný mörg góð ár. Holtsgatan var miðstöð stórfjölskyldunnar, enda var hún mjög vinamörg og laðaðist fólk að henni. Hún var mikill mannþekkjari og trúuð kona og gat lesið framtíð fólks á undraskíran hátt. Svo að fólk sóttist mjög eftir þessari þjónustu hennar.

Nú að leiðarlokum vil ég fá að þakka þér, Fanný mín, alla þá hjartahlýju og gæsku sem þú sýndir mér öll árin svo aldrei bar skugga á. Við munum gleðskapinn á gamlárskvöldum og allar hangikjötsveislurnar á afmælinu þínu og þegar öll börnin og barnabörnin þín komu saman í matarboðin góðu enda varstu listakokkur, Fanný mín. Dætur okkar Sólveigar, Bryndís, Svandís og Valdís, þakka þér allar samverustundirnar og það veit ég að Hjördís okkar gerir sjálf þegar hún tekur á móti ömmu sinni opnum örmum.

Far þú í friði,

friður guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Jón.

Elsku Fanný amma. Nú er komið að hinstu kveðjustund. Góðar minningar hrannast upp. Þú varst svo sannarlega skemmtileg amma og sérstökum persónuleika þínum munum við aldrei gleyma. Lífsbarátta þín var ekki alltaf auðveld en þú skilaðir þínu með miklum sóma. Ljúfar minningar um þig munum við varðveita innra með okkur og rifja upp þegar við á. Við kveðjum þig með söknuði, elsku amma, og biðjum Guð að varðveita þig. Blessuð sé minning þín.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V.Briem)

Bjarni, Helgi, Linda

og Sólveig og makar

og fjölskyldur.

Elsku besta amma mín. Ég hef oft kviðið fyrir þessum degi. Ég vonaði að það yrði lengra í hann. Síðasta daginn sem þú varst á lífi kom ég í heimsókn. Það var friður yfir þér. Ég færði mig nær þér, strauk á þér mjúku hendurnar og talaði við þig. Þegar ég þurfti að fara kvaddir þú mig allt öðruvísi en vanalega og mér leið svo undarlega á eftir. Þegar ég hugsa um þetta núna skynja ég að þú vissir að komið var að leiðarlokum. Ég sit hér eftir og sakna þín mikið. Þú varst mér svo mikils virði. Nýfædd flutti ég heim til þín með móður minni. Þú ólst mig hálfpartinn upp og næstum allt var leyfilegt. Við vorum góðar saman en báðar þrjóskar. Stundum kom upp ágreiningur en hann leystist ávallt fljótt. Þú hafðir alltaf tíma fyrir mig, jafnvel þegar þú varst sem veikust. Þú studdir mig ætíð ef eitthvað bjátaði á. Þegar þú sást mig og Jökul Ágúst, son minn, saman brostir þú og þá hlýnaði mér um hjartarætur. Elsku amma mín. Þú hefur kennt mér svo margt um lífið og tilveruna. Ég og Jökull Ágúst eigum eftir að sakna þín og biðjum Guð að varðveita þig. Hafðu þökk fyrir allt.

Þín

Hanna Berglind

og Jökull Ágúst.

Langamma Fanný var ein af bestu manneskjunum mínum. Hún var líka skemmtileg og það var gaman heima hjá henni. Langamma var góð og ég sakna hennar. Mig langar að biðja langömmu að passa Hjördísi, ömmu og öll litlu dýrin sem dóu og líka þá sem koma næstir til himna. Langamma var svo fín og hún átti svo fallegt heimili. Jón Atli bróðir minn fékk ekki að kynnast henni mikið en ég ætla að segja honum frá henni. Guð á að passa langömmu mína vel og vandlega.

Hildur og Jón Atli.