Leó Garðar Ingólfsson fæddist í Reykjavík 19. nóvember 1933. Hann lést á heimili dóttur sinnar 16. febrúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Laugarneskirkju 3. mars.

Kæri Leó. Ég þakka þér innilega fyrir þau ár sem ég fékk að umgangast þig, þau voru lærdómsrík. Sem barn þá og þú faðir Þóru og Guðrúnar, sem nánast ólust upp með okkur systkinunum, man ég hversu gott var að umgangast þig, hversu gott var að spyrja þig spurninga. Takk fyrir að fá að njóta vináttunnar á þessum árum, hún er mér mikils virði. Þú varst ástríkur faðir og natinn við dætur þínar, þú leiðbeindir þeim á svo eftirtektarverðan og skynsaman máta. Það var ekki fyrr en ég var orðin fullorðin sem ég áttaði mig á að engan þekki ég sem hefur eins heilbrigðar tilfinningar og skoðanir til barna og þú. Það kom aftur í ljós þegar nafni þinn fæddist, sem nú er orðinn átta ára, og ber sterk merki þess að hafa fengið að umgangast þig. Hvílíkur missir fyrir nánustu ástvini var það fyrsta sem kom upp í huga minn þegar ég frétti um andlát þitt. Sú næring sem þú hefur gefið Leó mun gagnast honum alla ævi. Á dánardegi þínum sýndi Leó mér leik sem þú hafðir kennt honum. Leik sem byggðist á hugsun, vandvirkni og snilld. Þá fann ég sömu rökhugsunina og snilldina í honum og ég minnist frá þér.

Kæri Leó, megi guð varðveita þig og gefa þér blessun sína.

Elsku Sidda, Þóra, Kristján, Lára, Guðrún, Haukur, Leó, Guðrún Birna, Unnar Bragi, Eyja og aðrir aðstandendur, guð styrki ykkur í sorg ykkar.

Hrönn Þormóðsdóttir.