Guðmundur B. Sigurðsson fæddist á Ísafirði 7. apríl 1925. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsi Ísafjarðar 29. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson, f. 22. mars 1896, d. 4. des. 1987, og Guðrún Guðmundsdóttir, f. 2. sept., d. 14. júlí 1982. Systkini Guðmundar voru: Sigríður, f. 30. júlí 1920, d. 13. apríl 1992, Sigrún Lovísa, f. 28. apríl 1922, Jóhanna, f. 7. okt. 1923, Katrín, f. 29. júlí 1926, d. 6. des. 1996, Guðrún Þorgerður, f. 4. mars 1928, d. 11. sept. 1990, og Jón, f. 17. júní 1936.

Hinn 24. des. 1949 kvæntist Guðmundur Mildrid Sigurðsson frá Noregi, f. 30. ágúst 1925. Börn þeirra eru: Frank, f. 15. sept. 1949, sonur hans er Illugi Steinar. Gunnar, f. 11. okt. 1950, kvæntur Jenný Guðmundsdóttur, börn þeirra eru: Oddgeir Þór, Mildrid Björk, Guðmundur Freyr og Iðunn Líf. Áður átti Gunnar soninn Atla. Reynir, f. 18. júlí 1952, kvæntur Bryndísi Gunnarsdóttur, börn þeirra eru: Stefanía Ólöf, Halldór Albert og Thelma Lind. Guðrún, f. 6. febr. 1960, sonur hennar er; Andri. Randí, f. 20. nóv. 1968, sambýlismaður hennar er Jóhann Dagur Svansson, dóttir þeirra er Anita.

Útför Guðmundar fór fram frá Ísafjarðarkirkju 4. mars.

Ég kynntist Guðmundi á framanverðum áttunda áratugnum. Var þá að byrja að sækja rækjuna á kvöldin fyrir pabba, og kynntist þá fljótlega "rækjuköllunum" sem hver með sínum hætti stundaði sjóinn og gáfu mismikið af sér við kynningu eins og gengur. Frægt er t.d. þegar Jökull heitinn Jakobsson rithöfundur gat þess eftir rækjuvertíð með Jóni heitnum B. á Gunnvöru að "þeir hefðu þagað saman eina vertíð". Jón var þá aldraður maður að ljúka afar farsælum skipstjóraferli sínum á sinn hljóðlega hátt. Það get ég fullyrt að Gummi hafði annan háttinn á. Ákafinn og kappsemin einstök, og frá öllu varð að segja. Ég held að aðeins einu sinni hafi hann þagað þegar hann lagði að bryggjunni. Ég spurði hann hvar þeir hefðu verið, báturinn var greinilega fullur af rækju en ekkert heyrði ég í vini mínum. Hann stökk uppá bryggju og hvíslaði í eyra mér: "Ég missti góminn í sjóinn, Eiríkur minn, ég var í fjörðunum." Síðan var ekki á þetta minnst aftur. Hann var skipstjórinn í ákaflega vel heppnuðu samstarfi við Helga Geirmundsson, sem Gummi lét alltaf vel af, "hann er svo flinkur við vélar, hann Helgi, ég get varla sett í gang", sagði hann gjarnan.

Þeir urðu góðir vinir á rækjunni Gummi og Haukur bróðir. Haukur fórst 25. febrúar 1980 ásamt þremur öðrum góðum drengjum frá Ísafirði. Það eru því tuttugu ár síðan um þessar mundir. Blessuð sé minning þeirra. Þetta voru erfiðir tímar, ekki síst fyrir vini þeirra sem áfram réru til að færa björg í bú. Á þeim árum sem skipstjórn Gumma á mb. Sigurði Þorkelssyni stóð var uppgangstími í rækjunni við Djúp og á Ísafirði sérstaklega. Flotinn stækkaði og efldist, verksmiðjurnar stækkuðu og mikill kraftur í bænum og nýju togararnir á fullu í fiskinum. Þá var Ísafjörður miðja alheimsins, hvergi meira um að vera, eða það finnst manni a.m.k. í minningunni.

Gummi naut sín vel sem skipstjóri, var fiskinn með afbrigðum og kappsamur. Oft þurfti ekki að róa nema tvo eða þrjá daga, þá var "skammturinn kominn". Stundum lenti ég heima hjá Hauki á kvöldin, þar sem þeir vinirnir sátu og höfðu fengið sér rétt aðeins í glas eftir vel heppnaða viku. Það var ekkert fyllerí, það þýddi ekkert, "hún Milla finnur alltaf lyktina," sagði vinurinn, heldur voru hrókasamræður um hvar þetta eða hitt halið hefði verið dregið, og mundi Gummi hvert hal uppá kíló, enda minnugur með afbrigðum og ákafinn og áhuginn einstakur, svo ekki sé meira sagt. Hann gat þulið upp ólíklegustu tölur um hitt og þetta, launin í fyrra eða hvað klippingin hafði hækkað, allt uppá krónu. Hann var engum líkur. Og á allt lögð áhersla með miklum handasveifum, gjarnan með krefta hnefana.

Ég mætti Gumma rétt snöggvast á bíl hérna fyrir sunnan með Gunnari syni hans fyrir nokkrum vikum og við vissum það þá eflaust báðir að það væri í síðasta sinn. Engu að síður var augnaráðið sterkt og fann ég velvildina streyma frá honum sem alltaf fyrr. Hann hafði greinst með krabbamein fyrir nokkrum árum, tók þá læknana á orðinu eins og honum var einum lagið, fór í einu og öllu eftir því sem þeir sögðu, gekk upp skíðaveginn daglega og náði undraverðum bata. En þegar vágesturinn bankaði upp á að nýju eftir nokkurt hlé varð ekkert við ráðið. Þó að við sæjumst ekki oft í seinni tíð vissi ég að vininum var að hraka, og lést hann sl. þriðjudag. Um leið og ég bið honum blessunar votta ég Millu og fjölskyldunni mína innilegustu samúð. Það er bjart yfir minningu Guðmundar Sigurðssonar og gott að minnast hans.

Eiríkur Böðvarsson.