Guðmundur Marijón Jónsson fæddist í Hafnarfirði 15. júlí 1914. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 26. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jón Þorkelsson og Martha Sigurðardóttir frá Flekkuvík á Vatnleysuströnd. Móðir hans lést þegar hann var þriggja vikna. Systkini Guðmundar voru Guðrún, f. 1919, látin, og hálfbróðir, samfeðra, Sigmundur, látinn.

Guðmundur var tekinn í fóstur af Benedikt Péturssyni og Sigríði Brynjólfsdóttir frá Suðurkoti í Vogum. Ólst hann upp með börnum þeirra hjóna, Jón Gesti og Guðrúnu.

Guðmundur var einn af stofnendum hraðfrystihússins Voga hf. sem var stofnað 1941, og vann þar síðan sem verkstjóri og vélstjóri, þar til hann lét af störfum vegna aldurs.

Kona Guðmundar er Guðrún Sæmundsdótir frá Minni-Vogum. Þau gengu í hjónaband 2. október 1943.

Börn þeirra eru: 1) Benedikt Sigurður, f. 5. des. 1943, var í sambúð með Friðdísi Björnsdóttur. Þau slitu samvistir. Börn hans eru: A) Sigríður, f. 1965, búsett á Kópaskeri, maki Stefán Grímsson, þau eiga tvö börn. B) Katrín María, f. 1975, sambýlismaður Höskuldur Eyjólfsson, búsett í Kópavogi. C) Guðmundur Rúnar, f. 1979, búsettur í Kópavogi. Benedikt og Friðdís misstu þriggja mánaða stúlkubarn, f. 1. sept. 1977. Fóstursonur þeirra er Þórir Björn, f. 1971, búsettur í Reykjavík. 2) Aðalbjörg Guðrún, f. 1. mars 1945, maki Einar Bragason. Sonur þeirra er Guðmundur Hjörtur, f. 1964, maki Hanna Íris Guðmundsdóttir, búsett í Hafnarfirði. Börn þeirra eru þrjú. 3) Jón Mar, f. 17. apríl 1949, maki Margrét Ásgeirsdóttir. Barn þeirra er Þóra, f. 1982. 4) Sædís Ósk, f. 25. feb. 1952, maki Ólafur Már Ólafsson. Börn þeirra eru: A) Friðrik Hrannar, f. 1971, sambýliskona Svala Björnsdóttir, búsett í Njarðvík. Þau eiga tvö börn. B) Elvar Þór, f. 1977, sambýliskona Jóhanna Helgadóttir, búsett í Njarðvík. C) Ingiber Freyr, f. 1981.

Útför Guðmundar fer fram frá Kálfatjarnarkirkju á morgun, mánudaginn 6. mars, og hefst athöfnin klukkan 14.

Viljum við systkinin minnast föður okkar. Alltaf er dauðsfall jafnmikið áfall þótt séð væri að hverju stefndi.

Þriggja vikna gamall missti hann móður sína. Tíu mánaða gömlum var honum komið í fóstur í tvær vikur að Suðurkoti í Vogum hjá sæmdarhjónunum Benedikt Péturssyni og Sigríði Brynjólfsdóttur og fór ekki þaðan aftur. Ólst hann upp við mjög gott atlæti með börnum þeirra, Jóni Gesti og Guðrúnu, sem bæði eru látin.

Var skólaganga hans mjög hefðbundin og lauk hann fullnaðarprófi. Fór hann á mótoristanámskeið og ýmis fiskmatsnámskeið.Var einn af stofnendum Voga hf. í Vogum og var starf hans síðan við verkstjórn en lengst af var hann vélstjóri hjá því fyrirtæki, frá stofnun um 1941 og til starfsloka 1989.

2. október 1943 kvæntist hann Guðrúnu Sæmundsdóttur frá Minni-Vogum. Eignuðust þau fjögur börn á níu árum og bjuggum við fyrst í Minni-Vogum uppi á lofti hjá afa og ömmu. Pabbi byggði hús í landi Suðurkots sem við fluttum í 1954, sem kallað var Björk, og bjuggu foreldrar okkar þar alla tíð þar til þau fluttu í lítið raðhús fyrir nokkrum árum en síðustu árin hafa þau bæði dvalið á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Pabbi var mjög góður sögumaður og fróður um örnefni og sögu staðarins en við börnin vorum ekki alltaf mjög góðir áheyrendur á yngri árum. Ferðalög innanlands veittu þeim hjónum mikla ánægju og fóru þau um landið á hverju sumri og við krakkarnir með, meðan við vorum yngri. Mjög oft seinni árin fór elsta barnabarnið, Guðmundur Hjörtur, með þeim.

Ekki má gleyma aðaláhugamáli hans þegar líða tók að hausti en það var krækiberjatínsla og var þá oft tínt meira en þörf var fyrir og náði hann að smita tvö af börnum sínum af þessari miklu krækiberjafíkn.

Heilsuhraustur var hann fram á efri ár en þá fóru fæturnir að gefa sig. Oft dáðumst við að honum eftir að skipt var um hnjáliði í honum, hvað hann var duglegur að fara út að labba og æfa sig.

Mjög hagur var hann og lék allt í höndum hans. Tálgaði hann handa okkur ref í refskákina úr ýsubeini og ýmis önnur dýr sem okkur þykir miður að ekki skuli vera til í dag.

1982 var haldin sýning á líkönum af húsum og mannvirkjum í Vogum eins og þau voru 1930. Voru þau smíðuð af mikilli vandvirkni og nostursemi og vöktu mikla athygli.

Barnabörnum sínum var hann góður afi og tók öllum tengdabörnum sínum ákaflega vel.

Viljum við börnin að lokum þakka starfsfólki á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fyrir frábæra umönnun þeirra hjóna, en móðir okkar dvelur þar enn.

Kæri pabbi, við þökkum þér fyrir öll góðu árin sem við áttum með þér og hlýtt og gott uppeldi sem þú veittir okkur.

Benedikt Sigurður, Aðalbjörg Guðrún, Jón Mar og Sædís Ósk.

Ef ég ætti að nefna eitt ákveðið orð um hann afa minn nefni ég orðið stórbrotinn. Hvað voru til dæmis margir sem áttu afa sem hét Jónsson! Þó það væru ekki lætin og hamagangurinn í kringum hann var alltaf eitthvað um að vera þar sem hann var og oftar en ekki var eitthvað spaug í gangi. Þegar ég sem stráklingur kom einu sinni sem oftar niður í frystihús og sá vélarnar í hlutum um allt gólf undraðist ég hvernig í ósköpunum hann ætlaði að koma þessu saman aftur. Þá glotti gamli maðurinn á sinn sérstæða hátt. Þegar ég leit inn daginn eftir leiddi hann mig fram í mótorhús og sjá: allar vélar á fullu og ekki snitti eftir á gólfinu.

Hún er fræg sagan um kerrusmíðina. Hann byrjaði á kerrunni á pínulitlu gólfplássi í mótorhúsinu. Þegar líða tók á smíðina leist fólki ekki orðið á blikuna og taldi þann gamla eitthvað ruglaðan því samkvæmt öllum lögmálum átti kerran ekki að komaast út. En sem fyrr glotti gamli maðurinn og sagði okkur söguna af kistu Napóleóns. En út fór kerran og að sjálfsögðu var hún látin heita Napóleón.

Þegar afi fór að minnka við sig vinnuna eftir áratuga starf í Vogum hf. sneri hann sér að líkanasmíði gamalla húsa í Vogum. Þetta spurðist út og Ungmennafélagið Þróttur ákvað að setja upp sýningu á byggð í Vogum 1930. Ég naut þeirra forréttinda að hjálpa honum við undirbúninginn. Það var málað og smíðað og landslag mótað á gólfinu í Glaðheimum og rétt dugði gólfplássið þar. Sýningin tókst í alla staði mjög vel og veit ég að hann var mjög ánægður með hana.

Afi naut þess að koma fólki á óvart, sér í lagi ef undirbúningurinn var búinn að standa í einhvern tíma. Tvisvar sinnum fór ég með afa í Reykjavík og við sóttum spánnýjar Volvo-bifreiðir. (Það kom aldrei annað til greina en Volvo.) Hvað sá gamli naut sín á sinn rólynda hátt, tók í nefið og glotti sem fyrr yfir undrun ættingjanna.

Bestu stundirnar sem ég átti með afa og ömmu voru ferðalögin sem ég fór með þeim um landið. Alltaf var lagt af stað fyrir allar aldir því afi var mjög árisull maður. Undantekningarlaust var fyrsta stopp við Fossá í Hvalfirði, drukkið kaffi og nestið, sem amma var búin að taka til, snætt. Ég gleymi aldrei gamla olíuprímusnum sem fylgdi okkur á öllum okkar ferðum. Ef afa fannst ég eitthvað leiður á allri keyrslunni fórum við í leik sem gekk út á það hver væri fyrstur að lesa bæjarnöfnin á vegvísunum. Ég komst fljótlega að raun um að þau gömlu mundu bæjarnöfnin frá fyrri ferðum sínum. Þetta voru ógleymanlegar stundir og ég lifi lengi á þeim.

Þegar ég var komin á unglingsár og skólanum lauk gerði ferðaóróinn vart við sig og ég kaus oftar en ekki að fara með afa og ömmu í ferðalag heldur en að vera með jafnöldrum mínum.

Eftir að afi fékk væga heilablæðinu og Elli kerling hóf að leika hann grátt gerðist hann fámálli og virkaði heldur áhugalaus um lífið og tilveruna. Var þá hrein unun að sjá hvernig andlit gamla mannsins ljómaði sem sól á heiði þegar hann sá yngri börnin mín tvö. Hann gaf sér tíma í hægleik sínum til að horfa á þau í leik sínum og eitt andartak sáum við gamla Jónsson aftur.

Eitt verð ég að nefna að lokum og er alveg lýsandi dæmi um afa minn. Eftir að ég flutti brott og stofnaði fjölskyldu barst mér til eyrna saga úr Vogunum af gömlum manni með staf sem gekk hægt um götur bæjarins og á eftir fylgdi stór, feitur, loðinn köttur. Þarna var hann afi minn lifandi kominn. Hann þurfti að sjálfsögðu að viðra sig og einn af hans bestu vinum, Loðmundur, fylgdi honum eftir sem tryggur hundur. Veit ég að Vogabúar höfðu gaman af og þá var afi búinn að ná fram tilgangi sínum, að sjá fólki fyrir skemmtun á sinn hægláta og stórbrotna hátt.

Hvíl í friði, kæri afi. Guð styrki okkur öll.

Guðmundur Hjörtur.

Ljúfar minningar frá bernsku- og æskuárunum bærast í huga er ég frétti andlát Guðmundar M. Jónssonar eða Jónssonar eins og hann var oftast nefndur. Full eftirvæntingar beið ég á meðan húsið handan götunnar, sem síðar var nefnt Björk, var byggt og fjölskyldan frá Minni-Vogum flutti inn. Í Björk til Jónssonar og Gunnu og barna þeirra var ég ávallt velkomin jafnt á stórhátíðum ársins sem aðra daga. Margar eftirminnilegar ferðir voru farnar á Tataranum hans, út á Stapa að skoða flugeldana í Reykjavík á gamlárskvöld, niður á Vogatjörn á ís þar sem Jónsson lék hinar flóknustu listir í ísakstri með fullan bílinn af kátum krökkum. Húla-hringirnir sem voru búnir til á loftinu í Björk og leikið með þar af mikilli snilld að því er okkur krökkunum fannst. Vindrellurnar sem hann tálgaði og setti saman handa öllum sem vildu, með þær var farið út er vindur blés. Fiskbeinin tóku á sig hinar furðulegustu myndir þegar hann hafði brugðið vasahnífnum sínum á þau. Árin liðu og við krakkarnir í Suður-Vogunum stækkuðum og fórum að vinna í frystihúsinu á sumrin, þá var Jónsson verkstjóri þar, hann tók okkur með í bílinn á morgnana og í hádeginu fengum við oftar en ekki far heim á vörubílspalli haldandi í grindina fyrir aftan húsið, eða svo áttum við í það minnsta að gera. Aldrei féll styggðaryrði í okkar garð af hans munni. Ef honum líkaði ekki vinnubrögðin kom hann til okkar og sýndi réttu handtökin, tók þá gjarnan hnífinn og stálaði hann og prófaði bitið á nögl sér.

Jónsson kom að Suðurkoti tíu mánaða gamall til fósturs hjá afa mínum og ömmu, þeim Benedikt og Sigríði, hann átti að dvelja hjá þeim skamman tíma, en vel mun honum hafa líkað vistin því í Suðurkoti var hann til fullorðinsára. Þar bjuggu í foreldrahúsum Guðrún Kristín og Jón Gestur faðir minn. Mjög kært var með þeim fóstursystkinum alla tíð, þau bjuggu nánast á sama hlaðinu og má segja að þau hafi hist daglega þar til er Gunna frænka fluttist á Garðvang, heimili fyrir aldraða.

Þeir fósturbræður Gummi og Nonni, en svo nefndu þeir hvor annan, unnu saman nánast alla sína starfsævi, voru saman til sjós, gerðu út saman, verkuðu fisk saman og að síðustu ráku þeir saman litla verslun og bensínsölu við höfnina. Að loknum vinnudegi kom Jónsson iðulega yfir götuna stiklandi á ullarsokkunum til að hitta Nonna bróður og skipuleggja með honum næsta vinnudag, það var undarlegt að sjá hvernig hann sat, hann gat brotið sig saman, fæturnir virtust nánast liðamótalausir.

Frítímann notaði hann meðal annars til að dytta að Björkinni, byggja bílskúr, hlaða kartöflukofa, hlúa að garðinum með henni Gunnu. Í garðinum áttu þau sér einstakan sælureit, sérlega vel hirtan og unaðslegan. Á góðviðrisdögum mátti finna þau þar að loknum vinnudegi hans, trítlandi í kringum þau voru ferfætlingarnir vinir þeirra, kisurnar. Þær eru margar kisurnar sem þau hafa fóstrað, má þar nefna Lolla og Rósu. Eitt sinn þegar ljóst var að fjölgun var í vændum hjá Rósu lofuðu þau Guðrúnu Kristínu dóttur minni að hún mætti eiga einn kettlinginn henni til ómældrar gleði. Fyrir það vill hún þakka nú að leiðarlokum.

Ævinlega voru nokkrir dagar skildir eftir af fríinu og þeir notaðir til að fara í ferðalag með Gunnu og krökkunum, þau unnu landinu og höfðu yndi af að ferðast og kynnast nýjum stöðum. Þau ferðuðust meðan þeim entist heilsa til.

Varla er hægt að hugsa sér annað þeirra án þess að minnast hins. Þau voru einstaklega samhent hjón, þau Gunna og Jónsson. Oft var þétt setinn bekkurinn í Björkinni, margt var skrafað og mikið hlegið, frásagnargleði húsbóndans naut sín til fullnustu. Þeir eru margir sem notið hafa gestrisni þeirra hjóna í gegnum tíðina.

Hann Jónsson var einstaklega starfsamur maður, má eflaust segja að hann hafi gengið glaður að hverju verki sem hann vann, hann var útsjónarsamur, laginn og vandvirkur. Er starfsævinni lauk hafði hann að ýmsu að hyggja, eitt af því er hann tók sér fyrir hendur var smíði líkana. Hann smíðaði líkön af húsum sem staðið höfðu í Vogunum. Það var engin handahófsvinna, hann mældi hús og gamla grunna, teiknaði upp og vann eftir teikningum. Að horfa á þessar stóru sigggrónu hendur vinna svo fíngerða og smáa hluti var ólýsanlegt.

Þessum sporlétta liðlega manni reyndust síðustu árin þung en hann æðraðist eigi, hélt ótrauður áfram lífsgöngunni meðan stætt var. Síðustu tvö árin hafa þau hjónin dvalið á Sjúkrahúsi Keflavíkur farin að heilsu og kröftum en jafnan umvafin ást og umhyggju barna sinna og tengdabarna. Þar fékk hann hægt andlát með Gunnu sína og þau sem voru honum kærust sér við hlið.

Að leiðarlokum þakka ég og fjölskylda mín samfylgdina og sendum ættingjum samúðarkveðjur.

Særún.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)

Íris, Guðmundur Skúli, Hólmar Ernir og Martha Guðrún.